Sendiherrabústaður Gert er ráð fyrir öryggisgirðingu umhverfis húsið.
Sendiherrabústaður Gert er ráð fyrir öryggisgirðingu umhverfis húsið. — Tölvumynd/Bandaríska sendiráðið
Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi hefur kynnt nýjar tillögur um endurbætur á Sólvallagötu 14 í Reykjavík þar sem áformað er að bústaður sendiherrans verði

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi hefur kynnt nýjar tillögur um endurbætur á Sólvallagötu 14 í Reykjavík þar sem áformað er að bústaður sendiherrans verði. Í fréttatilkynningu frá sendiráðinu segir að við hönnun endurbótanna hafi sérstaklega verið horft til þess að gæta samræmis við umhverfið. Þetta eru viðbrögð sendiráðsins við mótmælum íbúa í nágrenninu sem sagt hefur verið frá í Morgunblaðinu, síðast í gær.

Segir í tilkynningunni að til að bregðast við áhyggjum sem íbúar á svæðinu hafi viðrað að undanförnu bendi sendiráðið á að öryggisráðstafanir við bústaðinn verði ekki áberandi og að áformaðar endurbætur á lóðinni með gróðursetningu runna og annars arkitektúrs séu í takti við götumynd Sólvallagötu. Á meðal öryggisráðstafana sé bogadregið grindverk og setustofa fyrir starfsmenn ofan á bílskúr og eigi hvort tveggja að falla að ásýnd götunnar, ásamt því að öryggisreglum sendiherra sé fylgt. Fram kemur að það starfsfólk sendiráðsins sem gæti öryggis þess verði ekki vopnað, engir steypukubbar sem trufli umferð eða hafa áhrif á götumyndina verði við bústaðinn. Fyrirhugaðar breytingar hafi verið unnar í samráði við fulltrúa Reykjavíkurborgar sem tryggi að þær standist reglur borgarinnar og séu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

„Markmið okkar er ekki einungis að skapa sendiherrabústað heldur einnig vitnisburð um góð tengsl milli Bandaríkjanna og Íslands,“ segir Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, í tikynningunni. „Verkefnið er í raun og veru táknmynd gagnkvæmrar virðingar og vináttu milli þjóðanna, sem endurspeglar sameiginleg gildi okkar og sögu,“ er haft eftir henni.

Þá segir að undanfarin tvö ár hafi sendiráðið átt gagnleg og ánægjuleg samskipti við næstu nágranna. Þau hafi m.a. farið fram á íbúafundum þar sem fulltrúar sendiráðsins hafi svarað spurningum og hlustað á athugasemdir nágranna. „Þetta samtal hefur verið gagnlegt við mótun verkefnisins enda er það vilji sendiráðsins að sýna menningar- og sögulegum arfi hverfisins virðingu,“ segir í tilkynningunni.

Carrin Patman sendiherra segir sendiráðsfólkið staðráðið í að reynast góðir nágrannar. „Sendiherrabústaðurinn mun eiga þátt í að viðhalda reisn þessa sögulega hverfis,“ segir hún.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson