Til taks Eiríkur Jónsson hefur myndað leikmenn í efstu deildum karla og kvenna í áratugi.
Til taks Eiríkur Jónsson hefur myndað leikmenn í efstu deildum karla og kvenna í áratugi. — Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
Eiríkur Jónsson, ljósmyndari með meiru, hefur sett knattspyrnumyndasafn sitt, rúmlega 160 þúsund myndir, á Ljósmyndasafn Íslands og segist vera hættur að mynda. „Linsan mín bilaði og ég mynda ekki orðið það mikið að það réttlæti kaup á linsu fyrir þrjú hundruð þúsund krónur,“ segir hann

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Eiríkur Jónsson, ljósmyndari með meiru, hefur sett knattspyrnumyndasafn sitt, rúmlega 160 þúsund myndir, á Ljósmyndasafn Íslands og segist vera hættur að mynda. „Linsan mín bilaði og ég mynda ekki orðið það mikið að það réttlæti kaup á linsu fyrir þrjú hundruð þúsund krónur,“ segir hann. „Því er eiginlega sjálfhætt.“

Jón Eiríksson, faðir Eiríks, frá Vorsabæ á Skeiðum, var gjarnan með myndavél innan seilingar og hann sendi frá sér bækur með eigin myndum, meðal annars bókina Aldahvörf á Skeiðum, sem kom út á 70 ára afmæli hans 1991. Eiríkur smitaðist af ljósmyndaáhuga föður síns og byrjaði að taka myndir á rússneska kassamyndavél sem móðir hans keypti handa honum þegar hann var tíu ára. „Þetta var erfið vél og ég þurfti að giska á stillingarnar.“

Þegar Eiríkur var ráðinn til þess að sjá um ljósmyndasafn Vísis í maí 1978 blasti við honum að hann þyrfti líka að taka myndir fyrir blaðið og það vatt upp á sig. „Ég byrjaði til dæmis að taka hestamyndir af alvöru 1979 og hætti því 2009 en í því safni eru rúmlega 160 þúsund myndir.“ Nýhöfn gaf út bókina Fáka og fólk með tæplega 400 ljósmyndum eftir Eirík, en hann tók líka myndir í allar 14 kynbótahestabækur Jónasar Kristjánssonar ritstjóra. Hann skrifaði um hesta í Vísi og síðar DV og skreytti með eigin myndum auk þess sem hann sinnti meðal annars íþróttaviðburðum í máli og myndum.

Fótboltinn skemmtilegur

Bækur í bókaflokknum Íslensk knattspyrna hafa komið út árlega síðan 1981. Sigurður Sverrisson tók saman efnið í fyrstu bókina, Víðir Sigurðsson aðstoðaði hann árið eftir og tók síðan alfarið við verkinu, en Eiríkur hefur átt myndir í flokknum nánast frá byrjun. „Þeir byrjuðu snemma að biðja mig um myndir og síðan hefur þetta þróast,“ segir hann, en Eiríkur hefur séð um myndatökur fyrir Víði vegna bókarinnar frá 1986 eða í 38 bækur í röð. „Ég á nokkur þúsund myndir í íslenskum bókum.“

Eiríkur spilaði fótbolta með Þór í Þorlákshöfn og Selfossi. Hann segist alla tíð hafa haft mikinn áhuga á fótbolta, sé ákafur stuðningsmaður Manchester United í enska fótboltanum og hafi meðal annars tekið myndir af fjórum ættliðum knattspyrnufólks á Íslandi. „Ég þarf ekki að fara á ákveðna leiki nema landsleiki,“ segir hann um tökur fyrir Íslenska knattspyrnu. „Mikill áhugi á fótbolta heldur mér líka gangandi og ég get valið að sjá leiki við bestu aðstæður. Ég á bara að taka myndir af leikmönnum á hreyfingu í efstu deildum karla og kvenna, en áður tók ég myndir af leikmönnum í öllum deildum.“

Eiríkur hætti í blaðamennskunni í desember 1999, tók þá við starfi sem stuðlastjóri Íslenskra getrauna og gegndi því til 10. mars 2021. „Ég er orðinn sjötugur og tími kominn til þess að taka því rólega.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson