Siðblindur Siggi og Julian Assange á meðan allt lék í lyndi.
Siðblindur Siggi og Julian Assange á meðan allt lék í lyndi.
Heimildarmyndin Hættulegur drengur (A Dangerous Boy) er nú sýnd á Stöð 2 og fjallar um barnaníðinginn og nauðgarann Sigurð Þórðarson, sem lengi hefur verið með viðurnefnið hakkari. Í myndinni er fjallað um aðild Sigga að Wikileaks þar sem hann, að eigin sögn, spilaði stóra rullu

Ásdís Ásgeirsdóttir

Heimildarmyndin Hættulegur drengur (A Dangerous Boy) er nú sýnd á Stöð 2 og fjallar um barnaníðinginn og nauðgarann Sigurð Þórðarson, sem lengi hefur verið með viðurnefnið hakkari. Í myndinni er fjallað um aðild Sigga að Wikileaks þar sem hann, að eigin sögn, spilaði stóra rullu. Sigurður er sjálfur í brennidepli í myndinni en kvikmyndagerðarmennirnir dönsku fylgdust með honum allt frá 2014. Í upphafi er mikið gert úr hlutverki hans sem hakkara og furðuleg viðtöl eru birt þar, meðal annars við prest einn sem er sérkennilegur fýr.

Síðar í þáttunum er vikið að kynferðisbrotum Sigga en hann nauðgaði að minnsta kosti níu ungum drengjum. Einn þeirra, Óli Björn Pétursson, sem undirrituð tók viðtal við fyrir Sunnudagsblað Morgunblaðsins árið 2021, steig fram í myndinni og segir sína átakanlegu sögu. Annað fórnarlamb svipti sig lífi, en Sigga virðist ekki finnast hann eiga neina sök á því, enda siðblindur með eindæmum. Sérkennilegt og sérlega ósmekklegt fannst mér þegar Siggi er myndaður þar sem hann stendur yfir leiði drengsins sem tók sitt eigið líf.

Í heild er myndin áhugaverð, en í senn ruglingsleg og skilur mann eftir með fjölmargar spurningar og óbragð í munni.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir