„Mér fannst við spila vel allan leikinn,“ sagði landsliðsmaðurinn Viggó Kristjánsson í samtali við mbl.is Lanxess-höllinni í Köln eftir leikinn.
„Við vorum með þá í vörninni, börðumst helvíti vel og vorum með lausnir í sóknarleiknum. Við klikkum bara á færunum. Þetta voru fjögur víti og eitthvað af dauðafærum líka. Það er munurinn því við vorum betri en þeir. Þetta var skref upp á við í kvöld því mér fannst þetta langbesti leikurinn okkar á mótinu hingað til,“ sagði Viggó enn fremur.
Hornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson tók í sama streng.
„Við spiluðum góðan handbolta og vorum fastir fyrir í vörn. Það er ömurlega leiðinlegt að við nýtum ekki færin í horninu og klúðrum vítunum líka. Við gerðum þetta á fullu og mér fannst við betri en Þjóðverjar,“ sagði Sigvaldi og hélt áfram:
„Við komum okkur í ógeðslega mörg færi og það var gott flæði á boltanum en við náðum einhvern veginn ekki að klára þetta.“
„Maður er sár, ógeðslega fúll og svekktur. Á sama tíma er ég stoltur af strákunum. Ég fékk allt sem ég bað um. Það var hjarta og barátta og strákarnir voru til í þetta. Varnarleikurinn var góður og Viktor sömuleiðis. Það var margt fínt en aftur voru þetta færanýtingin og vítin sem klikka,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson. Ítarlegri viðtöl við þremenningana og fleiri landsliðsmenn eru á mbl.is/sport.