Ótrúlega góð „Emma Stone er ótrúlega góð í að fanga þessa barnslegu persónu án þess að kyngera sig og leikgleðin skín í gegn allan tímann,“ segir rýnir um frammistöðu Emmu Stone í kvikmyndinni Poor Things eða Greyin.
Ótrúlega góð „Emma Stone er ótrúlega góð í að fanga þessa barnslegu persónu án þess að kyngera sig og leikgleðin skín í gegn allan tímann,“ segir rýnir um frammistöðu Emmu Stone í kvikmyndinni Poor Things eða Greyin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin Poor Things / Greyin ★★★★½ Leikstjórn: Yorgos Lanthimos. Handrit: Tony McNamara og Alasdair Gray. Aðalleikarar: Emma Stone, Mark Ruffalo, Willem Dafoe og Ramy Youssef. 2023. Bandaríkin. 141 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Nýjasta mynd Yorgos
Lanthimos, Greyin, er byggð á samnefndri skáldsögu frá 1992 eftir Alasdair Gray og fylgir Bellu Baxter, ungri konu sem býr ásamt föður sínum og skapara, Goldwin Baxter, í London á Viktoríutímanum. Bella er ekki hefðbundin kona heldur vakti Goldwin hana frá dauðum, líkami hennar tilheyrði áður móður hennar. Móðir Bellu hafði framið sjálfsmorð þegar hún var ólétt að henni og Goldwin skipti heila móðurinnar út fyrir heila barnsins sem var enn lifandi. Líkami hennar er þar af leiðandi gamall en kollurinn ungur. Bella er því í gegnum myndin, líkt og fræga sögupersónan Gosi, að læra að hegða sér eins og alvöru manneskja. Það má því segja að um sé að ræða mjög óvenjulega uppvaxtarsögu. Munurinn á Gosa og Bellu er hins vegar sá að Bella fæðist sem kona og þarf þar af leiðandi líka að berjast fyrir sjálfsforræði yfir eigin líkama. Greyin er ekkert femínískt meistaraverk en þetta er saga um konu sem smátt og smátt nær aftur valdi yfir eigin líkama.

Hugmyndin um „fædd kynþokkafull í gær“ eða á ensku „born sexy yesterday“ er áberandi í kvikmyndinni en það er algeng kynferðisleg fantasía sem birtist í kvikmyndum eftir og fyrir karla. Þar er konan úr annarri menningu eða heimi og áttar sig þar af leiðandi ekki á viðmiðum og gildum samfélagsins, þær eru einfaldlega fullkomlega ótengdar raunheiminum. Besta dæmið er líklega ef skrímsli Frankensteins væri aðlaðandi. Karlkyns skapari þeirra eða maðurinn sem tekur þær undir sinn verndarvæng fræðir þær meðal annars um kynlíf og rómantík og verður þar af leiðandi bæði ástarviðfangið og föðurímynd þeirra. Þetta er algengt í kvikmyndum þar sem kvenkyns persónan er geimvera, vélmenni, vampíra eða einhver vera sem hefur enga þekkingu á mannlegu samfélagi. Bella Baxter er fullkomið dæmi um þetta en einhvern veginn tekst leikkonunni, Emmu Stone, að leika hana þannig að hún er ekki kynþokkafull heldur frekar sniðug og fyndin. Allar karlkyns persónurnar í myndinni kyngera hana en áhorfendur taka ekki þátt í því heldur gagnrýna karlmennina í staðinn fyrir að kyngera stúlkubarnið. Bella Baxter er líka fljót að komast fram úr körlunum í þroska enda bara mun klárari og sterkari en þeir.

Sagan er ekki það eina áhugaverða við Greyin heldur er söguheimurinn stórkostlegur og myndin á heildina litið sjónrænt meistaraverk. Þó myndin vísi greinilega í Viktoríutímann þá er söguheimurinn svo fjarlægur raunveruleikanum að það er líklega réttara að segja að kvikmyndin gerist í ævintýraheimi. Hver rammi er eins og málað listaverk og þar gegnir búninga- og leikmyndahönnun mikilvægu hlutverki. Þetta er líka söguheimur þar sem áhorfendur eiga auðvelt með að trúa því að sögupersóna eins og Bella Baxter geti orðið til. Myndheildin (f. mise en scène) er hins vegar ekki það eina sem er ýkt og skreytt í myndinni heldur er leikurinn líka mjög ýktur og mætti kannski frekar flokkast sem klassískur leikhúsleikur en allt þjónar þetta ævintýrinu.

Greyin var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á síðasta ári þar sem hún hlaut aðalverðlaunin, Gullna ljónið, en auk þess hlaut Emma Stone verðlaun fyrir besta leik kvenna í aðalhlutverki. Það kemur undirritaðri ekki á óvart, Emma Stone er ótrúlega góð í að fanga þessa barnslegu persónu án þess að kyngera sig og leikgleðin skín í gegn allan tímann. En þó að Emma Stone hafi staðið upp úr þá stóð allt leikarateymið sig listilega vel. Leikstjórinn, Yorgos Lanthimos, hættir greinilega ekki að toppa sig og sendir frá sér hvert meistarastykkið á fætur öðru. Myndir hans eru ekki fyrir alla og það á líka við um Greyin enda meira en tveggja klukkustunda löng ævintýramynd um kvenkyns útgáfu af skrímsli Frankensteins en það eru óneitanlega einhverjir töfrar sem fylgja henni.