Helsta verkefni þessara kjarasaminga er að halda verðbólgu í skefjum

Snurða er hlaupin á þráðinn í kjaraviðræðum. Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, kvaðst vera orðlaus yfir Samtökum atvinnulífsins og útskýrði svo hvers vegna. Sigríður Margrét Oddsdóttir, formaður Samtaka atvinnulífsins, talaði hins vegar eins og hvergi væri snurðu að finna, menn væru sammála um forsendur og hvert svigrúmið væri. Samtök atvinnulífsins skildu fullkomlega málstað skjólstæðinga stéttarfélaganna. Eftir því að dæma væri samkomulag aðeins spurning um fínstillingu.

Fulltrúar launafólks hafa kallað sig breiðfylkingu. Þetta orð er ekki valið af tilviljun og hentar vel að stilla því upp við orð eins og þjóðarsátt. Vitaskuld dugar ekkert minna en breiðfylkingu til þess að ná þjóðarsátt.

Reyndar má velta fyrir sér hversu breið fylkingin er í raun.

Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis og fyrsti varaformaður BSRB, kvaðst í viðtali í Morgunblaðinu í upphafi árs telja dálítið sérstakt að talað væri um viðræður breiðfylkingar og þjóðarsáttarsamninga, sem væru mjög stór og yfirgripsmikil hugtök og ættu ekkert við í þessu samhengi. „Þetta eru viðræður á milli Samtaka atvinnulífsins og tiltekinna félaga innan ASÍ. ASÍ er ekki að öllu leyti heilt á bak við þetta heldur eru þetta félög sem hafa þó yfir 90% félagsmanna á bak við sig, sem eiga í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Þetta hefur ekkert með þjóðarsátt að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut,“ sagði hann.

VR er burðarás í breiðfylkingunni. Þar ríkir ekki einu sinni eining um markmið og leiðir. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í snúinni stöðu því að ríflegur meirihluti félaga er millitekjufólk á markaðslaunum. Eins og sagði í fréttinni hafa bæði meirihluti þings Landssambands íslenskra verslunarmanna og trúnaðarráð VR lýst vilja til að semja fremur um prósentuhækkun með ákveðnu þaki og gólfi en flata krónutöluhækkun.

Nafngiftin breiðfylking fer því að minna dálítið á það þegar Lenín og hans meðreiðarmenn gáfu sér nafnið bolsévikar sem þýðir meirihluti, þótt yfirleitt væru þeir í minnihluta. Andstæðingar þeirra voru því nefndir mensjevikar, sem merkir minnihluti, þótt oftast væru þeir í meirihluta. Það samtal sem nú á sér stað virðist í það minnsta ekki vera neitt í líkingu við það sem var á bak við þjóðarsáttina fyrir þremur áratugum.

Hvað sem því líður er full þörf fyrir einhvers konar þjóðarsátt.

Verðbólgan og háir vextir eru í raun helsta verkefni þessara kjarasamninga. Verðbólgan hefur verið á niðurleið, en verði óraunhæfir samningar til þess að hún losni úr læðingi gildir einu hvað samið verður um miklar launahækkanir eða hvort þær verða flöt krónutala eða mældar í prósentum. Þær munu fuðra upp. Eftir mikla hækkun kaupmáttar í undanförnum kjarasamningum, þar sem lægstu laun hafa hækkað meira en þau hærri, hefur nú hallað undan fæti. Nógu erfitt er að ýta steininum upp brekkuna, verra er að verða undir honum ef hann byrjar að rúlla niður aftur.

Vilhjálmur Birgisson sagði í viðtalinu, sem vitnað var til hér fyrir ofan, að ekki væri hægt að ætlast til þess að íslenskt launafólk axlaði ábyrgð á öllu í íslensku samfélagi. Það er vitaskuld ekki hægt að biðja þá, sem lægst hafa launin, að halda að sér höndum á meðan allt annað lætur undan. Hækkanir á margvíslegum opinberum gjöldum og þjónustu um áramót sýndu furðulegt skilningsleysi á þessu atriði.

En skynsamleg lending verður að nást og það er ekki síst mikilvægt nú þegar við blasir að eldvirkni mun áfram setja mark sitt á Reykjanesskaga og óvissa ríkir um framtíð Grindavíkur.