Þegar Tinna Dögg Sigurðardóttir fór að huga að meistaraverkefni sínu í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík (HR) árið 2020 langaði hana mest að beina sjónum að sérstöku áhugamáli sínu, réttarsálfræði, og fá Gísla Guðjónsson, prófessor í réttarsálfræði, til að leiðbeina sér. „Gísli er auðvitað goðsögn í faginu. Fyrir sálfræðing að vinna með honum er eins og fyrir poppsöngvara að vinna með Beyoncé,“ segir Tinna brosandi.
Hún var í fyrstu tvístígandi en ákvað endanlega að hún þyrfti að bera erindið undir hann eftir að hafa hlýtt á opinn fyrirlestur sem hann hélt í Háskólanum í Reykjavík. „Ég manaði mig upp í þetta með góðum stuðningi bæði fjölskyldu og vina,“ segir Tinna og mælir ótvírætt með því að fólk láti slag standa sé viljinn sterkur en í hennar tilviki hafi það gengið að óskum. Gísli tók erindinu strax vel og féllst á að leiðbeina Tinnu með verkefnið.
Eftir að þau höfðu rætt málin lagði Gísli til að þau gerðu í sameiningu rannsókn á gögnum frá National Crime Agency (NCA) í Bretlandi en sú stofnun hefur umsjón með ráðgjöf í lögreglurannsóknum þar um slóðir. Hjá henni starfa meðal annars réttarsálfræðingar og atferlisráðgjafar sem aðstoða lögreglu við rannsókn sakamála.
„Gísli var mjög spenntur fyrir þessu enda er honum umhugað um að koma þessari þekkingu á framfæri hér heima,“ segir Tinna.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna umfang og framlag fyrrnefndra réttarsálfræðinga og atferlisráðgjafa við rannsóknir sakamála í Bretlandi. Það var gert með því að rýna í skýrslur sem þeir gerðu í tengslum við lögreglurannsóknir og meta gæði þeirra og gagnsemi. Skýrslurnar eru frá árunum 2016-21, alls 113 talsins. Tinna og Gísli rýndu rækilega í þær.
– Einhvern tíma hefur þetta tekið?
„Já, þetta var mjög tímafrekt en um leið afskaplega gefandi og lærdómsríkt. Þessi rannsókn er án vafa stærsta verkefni sem hef komið að og sem betur fer passaði það mátulega inn í mitt áhugasvið sem gerði það í senn skemmtilegt. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að það eru mikil gæði í þessum skýrslum sem við rýndum í, þær eru bæði ítarlegar og vel unnar og því hægt að draga mikinn lærdóm af því starfi sem þetta fagfólk er þegar búið að vinna.“
Sálfræðilegur skilningur
Í mörg ár hafa sálfræðingar hjálpað við rannsóknir afbrota víða um heim. Atferlisráðgjafar í lögreglurannsóknum eru sérfræðingar á sviði afbrotahegðunar og hafa starfað í mörg ár í Bretlandi sem ráðgjafar við rannsóknir alvarlegra afbrota. Hlutverk þeirra, að sögn Tinnu, er að veita ráðgjöf þar sem skýrslur þeirra miða að því að veita sálfræðilegan skilning á afbrotinu og hverskonar einstaklingur er líklegur til að hafa framið verknaðinn.
„Þeir meta hegðun geranda út frá aðstæðum á afbrotavettvangi til þess að meta ýmsa þætti og einkenni afbrotamannsins. Framlag atferlisráðgjafa til rannsóknarferlisins felur í sér margskonar þjónustu sem hefur það aðalmarkmið að aðstoða rannsakendur við ákvörðunartöku með því að auka gildi og skilning frá sálfræðilegu sjónarmiði,” segir Tinna.
Ráðgjöf frá klínískum réttarsálfræðingum hefur, að sögn Tinnu, þann kost að geta hugsanlega veitt sérsniðnari og upplýstari prófíl eða sk. mörkun, með því að meta klíníska þætti. Holl ráð frá réttarsálfræðingum geti hjálpað rannsakendum að auka skilning sinn á mögulegum brotamanni með því að reyna að spá fyrir um eiginleika hans og greina mögulega geðsjúkdóma út frá þeim upplýsingum sem safnað er frá vettvangi afbrots.
„Réttarsálfræðingar geta beitt tækni sinni og reynslu til að meta aðstæður til að hjálpa til við að skilja bakgrunn brotamanns, hugsunarhátt, persónuleika og mögulega undirliggjandi geðraskanir og nota þessar upplýsingar til að móta skilning á einstaklingnum eða áhættumat. Þeir byggja þekkingu sína á rannsóknum og geta notað þessa þekkingu til að aðstoða við að leggja mat á afbrotavettvangi. Þeir safna upplýsingum og út frá því koma þeir með tilgátur byggðar á sálfræðilegum kenningum, reynslu og viðeigandi rannsóknarniðurstöðum, sem hægt er að prófa og endurbæta þegar líður á rannsóknina,“ segir hún.
Mismunandi framlag
Skýrslur atferlisráðgjafa annars vegar og réttarsálfræðinga hins vegar eru mismunandi hvað varðar umfang og framlag en báðir hóparnir veita á mismunandi hátt verðmæta innsýn á sálfræðilegan skilning á afbrotavettvangi og eiginleikum afbrotamanns, að því er fram kemur í máli Tinnu.
„Framlag þeirra er aðallega að veita atferlisráðgjöf í morð- og kynferðisbrotamálum, meirihluti atferlisráðgjafaskýrslanna beindist að óþekktum brotamanni og fólu þær í sér mat á hegðun og sálfræðilegan skilning á afbrotavettvangi á meðan réttarsálfræðiskýrslurnar einblíndu oftar á einstaklinga sem lágu undir grun og því auðveldara að meta einkenni brotamanns og geðrænan vanda.“
Tinna segir engum blöðum um það að fletta að atferlisráðgjafar og réttarsálfræðingar geti lagt margt og mikið til málanna þegar upplýsa þarf sakamál og sérþekking þeirra og alhliða ráðgjöf nýtist vel við úrvinnslu gagna sem liggja fyrir, hvort sem einhver er grunaður í viðkomandi máli eða ekki.
Rannsóknin hefur vakið athygli ytra en nýverið voru birtar tvær greinar í fagtímaritinu Journal of Criminal Psychology og fjármagnaði NCA netbirtingu á báðum greinunum. „Sú fyrri fjallar um hlutverk atferlisráðgjafa í lögreglurannsóknum og voru meðhöfundar okkar Gísla Lee Rainbow, Adam Gregory og Pippa Gregory. Sú síðari var unnin í samstarfi við Adrian West og fjallar um þátt réttarsálfræðinga í lögreglurannsóknum í Bretlandi,“ segir Tinna.
Hún vonar að rannsókn þeirra Gísla verði grunnur að frekari rannsóknum á þessu sviði og segist sjálf þegar hafa nokkrar hugmyndir um hvaða viðfangsefni hægt væri að skoða betur næst, en á þessu sviði sé klárlega þörf á frekari rannsóknum.
Verkefnið var unnið á árunum 2020 og 2021 og voru Tinna og Gísli hvort í sínu landinu – enda geisaði heimsfaraldur. Hún segir samvinnuna eigi að síður hafa gengið vel og nefnir hve heppin hún hafi verið með leiðbeinanda og að hún hafi lært margt af Gísla. „Ég er óendanlega þakklát fyrir vinnusemina, metnaðinn, þolinmæðina og allt peppið,” segir Tinna og bætir við að aðdáunarvert hafi verið að sjá þann áhuga og forvitni sem Gísli hafi fyrir fræðunum. „Ég smitaðist klárlega og lagði meira á mig fyrir vikið,” segir Tinna og hlær.
Þegar upp var staðið var þetta annað og meira en bara meistaraverkefni, að dómi Tinnu sem segist hlakka til næsta kafla. „Ég stefni á frekari rannsóknir á þessu sviði, en þar er sannarlega ekki skortur á viðfangsefnum.”
Tinna lauk meistaragráðunni 2021 og síðan hefur hún bætt við sig diplóma í afbrotafræði. Í dag starfar hún sem klínískur sálfræðingur hjá Geðheilsuteymi fangelsa hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.