„Ég er fyrst og fremst spenntur. Ég hlakka mikið til að sýna hana almenningi. Sjálfum finnst mér hún fyndin,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Sigurjón Kjartansson.
„Ég er fyrst og fremst spenntur. Ég hlakka mikið til að sýna hana almenningi. Sjálfum finnst mér hún fyndin,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Sigurjón Kjartansson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hlakka mikið til að sýna hana almenningi. Sjálfum finnst mér hún fyndin. Ég er ekki viss um neitt en ég á von á hlátri. Ég ætla að gera mitt allra besta svo brúnin lyftist á þjóðinni.

Grínmyndin Fullt hús er á leiðinni í kvikmyndahús næsta föstudag og veitir okkur áreiðanlega ekki af smá upplyftingu nú á tímum náttúruhamfara. Sigurjón Kjartansson á heiðurinn af handritinu, en hann brá sér einnig í leikstjórastólinn í þetta skipti. Sigurjón á að baki langan feril í skemmtanabransanum en hann hefur verið í hljómsveit, unnið í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum og er hvergi nærri hættur. Nú þegar von er á nýrri kvikmynd var ekki úr vegi að hitta þennan fjölhæfa listamann sem hefur skemmt þjóðinni í áratugi, bæði með gríni og drama. Sigurjón var í óðaönn að leggja lokahönd á kvikmyndina en gaf sér tíma til að heimsækja blaðamann í höfuðstöðvar Morgunblaðsins einn ískaldan eftirmiðdag í vikunni.

„Það er nú þannig að sama hversu langan fyrirvara maður telur sig hafa, þá þarf maður alltaf að vera að snurfusa og pússa fram á síðustu stundu,“ segir Sigurjón og lofar að myndin verði tilbúin fyrir frumsýningu.

„Í myndinni er fylgst með heimkomu heimsþekkts sellóleikara sem kemur heim eftir tuttugu ára sigurgöngu erlendis og það fer strax að syrta í álinn. Hann er ekki allur þar sem hann er séður og eitt leiðir af öðru,“ segir Sigurjón sposkur.

Hlutverk sem enginn annar vildi

Sigurjón sleit barnsskónum á Ísafirði þar sem hann er alinn upp á miklu tónlistarheimili.

„Mín mótunarár voru á Ísafirði þó ég geti ekki kallað mig Ísfirðing þar sem ég er ekki fæddur þar. Sem barn var ég innipúki; ég var lítið á skíðum en eitthvað í tónlist. Ég lærði bæði á fiðlu og píanó en leiddist það nú frekar. Pabbi minn var organisti og stjórnaði nokkrum kórum þannig að kórmeðlimir voru mikið heima hjá mér að æfa skala í stofunni. Mamma var líka í tónlist en þau kynntust einmitt þegar þau lærðu á orgel hjá Páli Ísólfssyni sjálfum,“ segir Sigurjón.

„Ég held ég hafi verið frekar rólegur en ég var alltaf í gríninu í barnaskóla; það hefur alltaf loðað við mig.“

Sautján ára gamall flutti Sigurjón til höfuðborgarinnar og ekki leið á löngu þar til hann var kominn í hljómsveit.

„Eftir að ég flutti í bæinn fór ég að feta mig áfram í tónlistarbransanum og stofnaði ásamt vinum mínum hljómsveitina HAM. Það var kannski byrjunin á mínum listræna ferli, en sú hljómsveit starfaði um árabil og starfar enn með hléum,“ segir hann.

„Ég spilaði þar á gítar og söng en kunni kannski ekki mikið á gítar. Ég hafði strömmað einhver grip síðan ég var ellefu ára og þegar hljómsveitin var stofnuð kom í ljós að enginn annar kunni neitt á gítar þannig að ég tók það að mér. Það hefur oft verið mitt hlutskipti; að taka að mér hlutverk sem enginn annar vill. Hvort sem það er að spila á gítar eða skrifa handrit.“

Spiluðum hávaðasamt rokk

Hljómsveitin HAM náði töluverðum vinsældum á árum áður. Þegar blaðamaður spyr hvort þungarokk hafi heillað unga manninn, er Sigurjón fljótur til svars.

„Þetta var ekki þungarokk. Þungarokk hefur aldrei heillað mig; þetta var hávaðasamt rokk. Það var hugmyndin; að stofna háværustu hljómsveit Íslands og það gekk bara þokkalega. Það gerði það svo að verkum að fólk sem aðhylltist þungarokk fór mikið að mæta á tónleika. Okkur hefur alltaf verið tekið opnum örmum af þungarokksdeildinni þó við skilgreinum okkur ekki þannig.“

Hvers vegna hávaðasamt rokk?

„Við erum aldir upp við pönk en erum aðeins of ungir til að vera í þeirri senu. Við vorum líka of ungir til að komast í Rokk í Reykjavík, enda hljómsveitin ekki til þá. En rætur okkur eru í pönkinu; að vera myrkir, hávaðasamir og aggressívir,“ segir Sigurjón og segist hafa hlustað mikið á pönk sem unglingur.

„Við vorum ekkert vinsælir til að byrja með og vorum meira í því að fæla fólk frá okkur en að laða að,“ segir Sigurjón, en hljómsveitin gaf strax frá sér litla EP-plötu.

Stóra tækifærið kom þegar HAM var boðið með Sykurmolunum í tónleikaferð um Evrópu þar sem þeir hituðu upp, skemmtu sér vel og öðluðust mikla reynslu.

„Ég er ekkert viss um að við höfum passað allt of vel inn, því Sykurmolarnir voru meira popp. En við vorum eitthvað að þvælast með þeim og meðal annars í New York þar sem við spiluðum á einhverjum klúbbum. En vinsælir urðum við ekki fyrr en eftir Sódómu Reykjavík, en við vorum einhvers konar húsband í þeirri mynd. En hinar raunverulegu vinsældir koma ekki fyrr en við hættum og byrjuðum aftur,“ segir hann og hlær.

Sódóma Reykjavík, eftir Óskar Jónasson, sló rækilega í gegn árið 1992, en Sigurjón kynntist Óskari í tengslum við kynni sín af Sykurmolunum.

„Það kom nú þannig til að á þeim tíma var Óskar kærasti Bjarkar Guðmundsdóttur og þannig kynnumst við honum. Hann hafði verið að keyra okkur um Bretland á sendibíl þegar við vorum á tónleikaferðalagi og fær innblástur að myndinni á HAM-tónleikum,“ segir Sigurjón, en HAM samdi einmitt tónlistina í þeirri kvikmynd og auk þess lék Sigurjón þar hlutverk.

„Ég hafði aldrei leikið neitt áður og það var ekkert sem heillaði mig en það má segja að ég hafi dottið inn í myndina.“

Handtaka í beinni útsendingu

Stuttu eftir að Sigurjón flutti suður kynntist hann Jóni Gnarr og urðu þeir fljótlega mestu mátar. Útvarpsferill Sigurjóns og Jóns Gnarr hófst árið 1994, en varla er til það mannsbarn á Íslandi sem ekki þekkir til Tvíhöfða. Upphafið má rekja til þess að þeir félagar gerðu sketsa fyrir útvarpsþáttinn Heimsendi, í umsjón Möggu Stínu.

„Svo hættir það samstarf og við höldum áfram tveir og mig minnir að Tvíhöfði hafi orðið til ‘96. Þá vorum við með sumarþætti á Aðalstöðinni og X-inu. Við höfðum þá verið með fasta sketsa í Dagsljósi, þætti á RÚV, en sketsarnir hétu Hegðun, atferli, framkoma þar sem við kenndum framkomu,“ segir Sigurjón og viðurkennir að oft hafi verið mikið sprell í gangi.

„Við þurftum dálítið að kenna sjálfum okkur hvernig hægt væri að vera svolítið spontant en samt vinna skipulega,“ segir Sigurjón og rifjar upp liðinn Föstudagshandtökuna, en þá gerðu þeir mann út af örkinni til að valda óskunda og jafnvel vera handtekinn.

„Við egndum eitt sinn mann á okkar vegum til að fara á þingpallana á Alþingi og valda þar usla. Við fórum ekki sjálfir heldur vorum bara á meðan í beinni útsendingu,“ segir hann og hlær.

„Þetta var enginn annar en Jón Atli Jónasson, síðar leikskáld og rithöfundur. Hann var handtekinn og við máttum sæta ákæru fyrir að raska ró Alþingis af ásettu ráði. Við fengum á okkur dóm, en honum var frestað skilorðsbundið í eitt ár og málið var síðan látið niður falla.“

Undir smásjá lögreglunnar

Lentuð þið í meiri vandræðum?

„Já, já, við vorum reglulega í vandræðum. Við vorum oft í réttarsölum,“ segir Sigurjón og hlær.

„Þetta var einhver prakkaraskapur, en lögreglan var farin að hlusta ansi oft á okkur. Við vorum alltaf að prófa hvað mætti og hvað ekki. Einhvern tímann fór Jón út á Ingólfstorg og kallaði: „Eiturlyf til sölu!“ En það gerði það síðan að verkum að á tímabili máttum við ekki hreyfa okkur án þess að lögreglan mætti. Við vorum komnir undir smásjá,“ segir Sigurjón og segir þá aldrei hafa gert neitt glæpsamlegra en að raska ró Alþingis.

„Það verður að líta á það að við vorum alla virka morgna, fjóra tíma á dag, í útvarpinu og þurftum að fylla þessa fjóra tíma. Við bjuggum því til lífshættuútvarp; spennuútvarp og allt í beinni útsendingu,“ segir hann og segir þá einnig hafa stunda símaat grimmt.

„Við hringdum til Bandaríkjanna, til CIA og í Hvíta húsið og þetta varð til þess að bandaríska sendiráðið hafði samband við okkur og bað okkur vinsamlegast að hætta þessu,“ segir hann og hlær.

„Svo áttum við mörg símtöl í beinni við mann frá Nígeríu sem vildi hafa pening út úr okkur. Þetta gekk í marga mánuði og það var hádramatískt augnablik þegar við opinberuðum hverjir við værum í raun og veru. Hann var mjög hissa en var samt á því að við ættum að borga honum einhvern pening,“ segir hann kíminn.

Er eitthvað sem Tvíhöfði gerði sem þið hefðuð betur sleppt?

„Vafalaust, en ég er bara búinn að gleyma því. Þetta voru aðrir tímar. Við vorum bara svolítið að hræra í samfélaginu og gera það skemmtilegra. Við fórum aðeins yfir línuna en ekki á ljótan hátt,“ segir Sigurjón og segir Tvíhöfða oft hafa komið saman síðan og verið með reglulega þætti. Fyrir ári byrjaði Tvíhöfði með hlaðvarp á tal.is og að auki eru þeir einu sinni í viku með Tvíhöfðaþátt á X-inu.

Gátu verið skemmtileg rifrildi

Útvarpsmennirnir tveir fóru síðan að reyna fyrir sér í sjónvarpi og sömdu ófáa sketsana.

„Við fórum mjög fljótt að framleiða mikið efni, bæði fyrir sjónvarp og útvarp en það var ‘97 sem fyrsta Fóstbræðraserían var gerð,“ segir hann en gamanleikkonan Helga Braga Jónsdóttir fór þar á kostum ásamt handritshöfundunum sjálfum sem léku fjölmörg hlutverk.

„Við tókum þetta föstum tökum og fengum með okkur aðra handritshöfunda, eins og Benedikt Erlingsson, Hilmi Snæ Guðnason og Þorstein Guðmundsson, sem léku líka. Við tvístruðum okkur í tvo hópa; við Jón skrifuðum sketsa og þau hin skrifuðu sketsa sem við mixuðum svo saman. Það voru skrifaðir helmingi fleiri sketsar en voru framleiddir og var því rifist um hverjir komust að. Það gátu verið skemmtileg rifrildi,“ segir Sigurjón og segir þættina hafa slegið í gegn, en seríurnar urðu alls fimm.

„Eftir Fóstbræður gerði ég Svínasúpuna með „nýju“ grínurunum sem þá voru; Sveppa, Audda og Pétri Jóhanni. Í kjölfarið gerði ég Stelpurnar með Óskari Jónassyni og landsliði grínkvenna,“ segir Sigurjón.

„Við fengum fullt af leikkonum sem líka margar tóku að sér skrif og margir talentar komu þar fram, eins og Ilmur Kristjánsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Reyndal og Brynhildur Guðjónsdóttir og margar fleiri. Þetta var útungunarstöð leikskálda og snillinga.“

Hvernig myndir þú lýsa þínum húmor? Hvað finnst þér fyndið?

„Mér finnst mjög margt fyndið. Ég hef stundum velt þessu fyrir mér með húmor. Ég held að allir hafi húmor og man ekki eftir að hafa hitt húmorslausan mann. En það er mikill munur á því hver hefur húmor og hver er húmoristi. Ég er ekkert viss um að ég sé húmoristi af því ég er ekki drifinn áfram af húmor, endilega. Ég þekki allt fyndnasta fólk landsins og myndi segja að Jón Gnarr og Pétur Jóhann séu húmoristar, Ilmur er húmoristi. Þetta fólk er drifið áfram af húmor, sem ég er ekki, en ég elska húmor.“

Allt þar á milli bölvað vesen

Sigurjón færði sig um hríð úr gríninu eftir Stelpurnar og hóf að skrifa handrit fyrir dramaseríur.

„Þá var ég búinn að skrifa um þúsund sketsa fyrir sjónvarp og hugsaði méð sjálfum mér að þótt ég myndi aldrei skrifa annan skets þá gæti ég dáið sáttur. Sketsaformið er frábært en ég get ekki endalaust verið í því. Það hefur kennt mér gríðarlega mikið en skets er svolítið í mínum huga eins og lag; það þarf gott upphaf, góða miðju og góðan endi. Ef maður hugsar um að skrifa bíómynd eða dramaseríu, þá er það röð sketsa sem þurfa ekkert alltaf að vera fyndnir. Allar senur eru með upphaf, miðju og endi. Dramaskrifin veita manni það frelsi að þurfa ekki að vera fyndinn, en það er stórkostlegt að hafa þennan grunn,“ segir Sigurjón.

Fyrst í röð dramasería Sigurjóns var Pressa sem fjallaði um blaðakonuna Láru og ævintýri hennar.

„Það vantaði glæpaseríu á Stöð 2 og við Skari héldum að við gætum kokkað þetta upp, og gerðum það við miklar vinsældir. Síðan gerði ég lögfræðidramaþáttinn Rétt og í kjölfarið gerði ég Ástríði og hitt og þetta, bæði drama og grín,“ segir Sigurjón sem tók svo að sér handritaskrif að Ófærð, þáttum sem áttu eftir að slá í gegn á heimsvísu.

„Ég hef alltaf fundið mig vel í skrifum og sá það fljótt að mér fannst skemmtilegast að skrifa efnið og horfa á það. Allt þar á milli var bölvað vesen, eins og að leika, enda hef ég aldrei sóst eftir því,“ segir Sigurjón og segist hafa endað á að vera „allt í öllu“ í Ófærð.

„Ég verð það sem kallast „showrunner“ og þá er ég í raun viðloðandi allt ferlið; allt frá fyrsta skrifaða staf þar til síðasti rammi fer í sjónvarpið. Ég var þá yfir handritsskrifunum því það voru fleiri sem skrifuðu líka. Ég var líka einn framleiðenda og vann náið með öðrum framleiðendum og leikstjórum sem voru nokkrir. Ég var svolítið miðjan sem svaraði öllum spurningum fyrir þetta hundrað manna „crew“ sem var að búa til þessa seríu; ég var á tökustað, í klippinu, í hljóðvinnslu og öllu saman,“ segir Sigurjón og nefnir að allt ferlið hafi tekið rúmlega fjögur ár.

Sigurjón hélt áfram þessari vinnu og vann í Ófærð 2 og Kötlu sem var framleidd fyrir Netflix.

„Það var nóg að gera og skemmtilegt og var mér mikill skóli. Ófærð var mjög vinsæl í öllum heiminum og fékk dreifingu alls staðar nema í Kína. Yfir tíu milljónir manna horfðu á Ófærð sem er miklu meira en nokkur önnur íslensk sería hefur náð.“

Ég er eins og jójó

Sigurjón er sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðamaður sem velur sér sjálfur sín verkefni, en undanfarin tvö ár hefur hann unnið að kvikmyndinni Fullu húsi. Fleira er hann með í pípunum.

„Ég er að undirbúa seríu sem ég áætla að fara með í tökur í haust. Hún heitir Þokan og er dramasería,“ segir hann og vill ekki gefa meira upp.

Þannig að þú sveiflast á milli drama og gamans eins og ekkert sé?

„Já, eins og jójó.“

Hvernig gengu tökurnar að Fullu húsi?

„Ég hef sjaldan upplifað jafn skemmtilegt ferli; hugmyndin kom hratt og örugglega en ég var að vinna í öðru verkefni þannig að ég hélt í mér og byrjaði ekki að skrifa strax,“ segir Sigurjón og segir að þegar hann loksins settist niður voru komnar fullmótaðar hugmyndir og eftirleikurinn því auðveldur.

„Í þessari mynd eru mörg hlutverk, þó hún sé ekki flókin. Það er svo gaman að þarna er hlaðborð af bestu gamanleikurum landsins. Þarna eru allir gömlu vinir mínir; Helga Braga, Ilmur, Katla, Hilmir Snær, Halldór Gylfason, Jón Gnarr og margir fleiri. Svo má ekki gleyma mjög eftirminnilegu „comeback-i“ hjá Eggerti Þorleifssyni sem fer þarna á kostum og skilar klassískum Eggerti,“ segir Sigurjón og segir tökur hafa gengið afar vel.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég leikstýri bíómynd, en er samt ekki algjör nýgræðingur. Mér finnst það gaman, sérstaklega þegar maður er með hóp svona stórkostlegra leikara. En ég hef aldrei sóst eftir leikstjórastólnum því ég hef verið að þroska mig sem handritshöfund og sem framleiðanda. Þar get ég unnið á mjög skemmtilegan og kreatívan hátt með leikstjórum og það er gaman að sjá þá koma mér á óvart. En þetta var mjög jákvæð reynsla og ég væri alveg til í að halda þessu áfram.“

Hvernig líður þér nú þegar myndin er að koma í kvikmyndahús? Spenntur eða kvíðinn?

„Ég er fyrst og fremst spenntur. Ég hlakka mikið til að sýna hana almenningi. Sjálfum finnst mér hún fyndin. Ég er ekki viss um neitt en ég á von á hlátri. Ég ætla að gera mitt allra besta svo brúnin lyftist á þjóðinni.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir