Birna Guðríður Pétursdóttir fæddist í Stykkishólmi 7. ágúst 1940. Hún lést 24. desember 2023 á gjörgæsludeild Landspítalans.

Foreldrar hennar voru Pétur Árni Sumarliðason frá Ólafsvík, f. 3. september 1917, d. 4 mars 1943, og Sigríður Jónsdóttir, f. 16. ágúst 1917, d. 1. nóvember 1999. Alsystur Birnu eru Anna Svandís Pétursdóttir, f. 12. mars 1942, gift Jóni Helgasyni, f. 5. október 1938, börn þeirra eru Sigríður Kristín, Hjördís Erla, Hrafnhildur, Kolbrún, Helgi Páll og Pétur Árni. Pétra Árný Pétursdóttir, f. 23. september 1943, Pétra var gift Jóhanni Guðmundssyni, f. 9. febrúar 1943, d. 21. ágúst 2002. Börn þeirra eru Hafdís, Guðmundur Örn og Lilja Rán. Seinni maður Pétru var Hans Baarnheim, f. 1943, d. 2007. Seinni maður Sigríðar var Bogi Guðmundsson, f. 15. apríl 1918, d. 27. desember 1963. Systkin Birnu sammæðra eru Pétur Jóhannes Bogason, f. 1949, Sumarliði Guðbjartur Bogason, f. 1953, d. 2009, Margrét Sæunn Bogadóttir, f. 1955, Jón Björn Bogason, f. 1959, Guðmundur Bogason, f. 1962.

Birna giftist 11. júní 1960 Rafni Jóhannssyni, f. 29. maí 1939, d. 23. apríl 2022. Börn Birnu og Rafns eru fimm. Anna María f. 14 6. 1959, maki Davíð Sveinsson og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn. Jóhann Kristinn, f. 29.8. 1960, maki Þórunn Sigurðardóttir. Hann á fjögur börn og fjögur barnabörn. Pétur Árni, f. 13.5. 1962, maki Julia Lobanova, börn þeirra eru fjögur og barnbörn þrjú. Björn Arnar, f. 17.3. 1964, maki Margrét Bjarman, þau eiga þrjár dætur og tvö barnabörn. Rafn Júlíus, f. 6.5. 1966, maki Erla Friðriksdóttir þau eiga sex börn og eitt barnabarn.

Birna vann hin ýmsu störf með heimilisstörfum, söng í Vetrargarðinum sem ung kona með hljómsveit Karls Jónatanssonar, hún var síðan forstöðukona í Mjólkurbúðinni. Stundaði skrifstofustörf hjá Kaupfélagi Stykkishólms, vann hin ýmsu störf hjá Hótel Stykkishólmi og vann í 25 ár í Amtbókasafninu þar til hún lét af störfum 1.6. 2006.

Útför Birnu fer fram í Stykkishólmskirkju í dag, 20. janúar 2024, klukkan 14. Streymt verður frá athöfninni á youtube-rás Stykkishólmskirkju:

http://mbl.is/go/yem5r

Mamma – Það er eitt notalegasta orð tungunnar. Það er erfið og sorgleg staðreynd að þurfa að kveðja móður sína. Tíminn var erfiður – ég búinn að kaupa jólagjöf fyrir frúna og pakka henni inn. Fyrir mömmu, dagleg kærleiksskilaboð, og svo eins og þú kallaðir það vellyktandi. Jú, flott kona ilmaði alltaf vel.

Þetta voru erfið jól, en að hafa fjölskylduna sameinaða var yndislegt á erfiðum tíma – þetta var alveg í þínum anda, elsku mamma mín, hafa alla í kringum þig sem oftast, það líkaði þér vel.

Við eigum svo margar yndislegar minningar að ylja okkur við. Þú bjóst yfir ótæmandi birgðum af ástríki sem allir fengu að njóta. Ekki bara við fjölskylda þín heldur allir í kringum þig. Við höfum átt svo margar gleðistundir saman, vorum að vísu ekki alltaf sammála í gegnum tíðina en það gekk nú bara vel upp hjá okkur. Þú barst alltaf hag stórfjölskyldunnar fyrir brjósti og varst yfirleitt alltaf með alla hluti á hreinu. Takk, elsku mamma mín, hvað þú hefur reynst mínum börum góður félagi og vinkona. Missir þeirra er mikill en minningarnar ylja. Barnabörn og langömmubörnin þín hafa notið þess að vera í kringum þig og afa meðan hans naut við.

Amma B. var ekki að setja það fyrir sig skella í pönnsur eða elda góðan mat fyrir ungana sína fram á síðasta dag. Pönnukökur ömmu B voru afar vinsælar. Nýir fjölskyldumeðlimir voru kynntir fyrir ömmu B og pönnukökum með púðursykri samtímis og runnu þær vel niður. Ég á eftir að segja barnabörnunum frá því þegar amma B var að þrífa húsið sitt hérna á árum áður sem hún gerði nú oft og vel því allt varð að vera hreint og fínt. Þegar hún lagði til atlögu við þrifin þurfti að hafa tónlist. Á þessum árum var tónlistin ekki eins aðgengileg og nú til dags, mín kona dó ekki ráðalaus, heldur tyllti útvarpinu á ofninn í baðherberginu og stillti á Kanann. Þar var komin flott tónlist svo söng hún með og sveif um húsið við þrifin. Ég sé þetta fyrir mér.

Lífið var ekki alltaf auðvelt hjá þér í gegnum árin, þú misstir pabba þinn ung og hann var þér oft ofarlega í huga. Þér var mikið í mun að halda tengslum við stórfjölskylduna þína og oft var mjög gestkvæmt á heimilinu og þú naust þess alltaf að taka á móti fólkinu þínu.

Minning þín er mér ei gleymd

mína sál þú gladdir.

Innst í hjarta hún er geymd.

Þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

En skjótt skipast veður í lofti og eitthvað gerist sem engin átti von á. Þú varst frá okkur kvödd alltof fljótt en minningarnar lifa. Þín verður sárt saknað, elsku mamma mín, bestu kveðjur yfir til okkar fólks.

Engin getur skilið mig frá mömmu minni. Tími og fjarlægð skipta okkur engu máli. Ég á eftir að sakna eftirfylgni þinnar og símhringinganna. Hvíldu í friði elsku mamma mín, við hittumst síðar.

Þín

María.

Elsku amma.

Nú hefur þú verið kölluð í sumarlandið.

Þú hefur kvatt okkur, en ég veit að þú fylgist vel með okkur öllum.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir vináttu okkar og allar þær minningar sem við eigum saman, þær ylja innst í hjartarætur.

Það var alltaf notalegt að kíkja á þig og afa. Ræða daginn og veginn yfir hádegismatnum eða bara einum kaffibolla. Við fórum oft um víðan völl í okkar samtölum. Þú áttir það til að skipta ört um umræðuefni. Áttir það til að spyrja næstu spurningar áður en svarið við þeirri fyrri var komið. En það var bara amma, maður hló bara og svaraði næstu spurningu.

Mér þykir einstaklega vænt um að þú hafir náð að hitta Arnar Kára.

Þó það hafi verið í fyrsta og á sama tíma síðasta sinn, þá hittirðu hann. Hann svaf svo vært í fanginu á þér.

Sukiyaki er lag sem er mikið spilað á heimilinu mínu þessa dagana. Það var þitt uppáhaldslag. Það var alltaf svo gaman þegar þú spilaðir það og við sungum saman.

Amma var alltaf glæsileg til fara. Það var nú ekki hægt að fara út úr húsi án þess að skella á sig smá varalit. Uppáhaldsvaraliturinn var Estée Lauder, litur 460. Þetta veit ég vegna þess að þær eru ófáar Hagkaupsferðirnar sem ég hef farið að kaupa þennan ákveðna varalit.

Hvíldu í friði amma mín, skelltu nú einum kossi á afa fyrir mig.

Þín

Silja Katrín.

Elsku amma Birna.

Það er svo óraunverulegt að þú sért farin í sumarlandið til afa Rabba, en á sama tíma yljar það að vita að þið séuð sameinuð á ný.

Ég hugsa mikið til þín og stundanna okkar saman.

Ég er svo þakklát fyrir þig og að hafa fengið að alast upp, þroskast og dafna í faðmi ykkar afa. Elsku hjartans amma, takk fyrir öll knúsin, húsráðin, peppin, skammirnar, sönginn, kaffið, sögurnar, pönnukökurnar og endalausa ást frá þér.

Ég elska þig alltaf.

Þín

Unnur Edda.

Mig langar að minnast svilkonu minnar hennar Birnu. Við vorum giftar bræðrum, hún Rafni og ég Árna Páli, en þeir voru einu börn Jóhanns og Unnar. Birna og Rafn bjuggu með sinni fjölskyldu í Hólminum og við Árni Páll í Reykjavík en við hittum þau og fjölskylduna í Hólminum reglulega. Síðast heimsóttum við Birnu sl. haust, við Benjamín sonur minn og börnin hans, hún hress og tilbúin að taka á móti okkur eins og venjulega en auk þess nutum við gestrisni Önnu Maríu og Davíðs.

Við áttum saman góðar stundir og mér finnst dýrmætt að hugsa til þess að barnabörnin mín hafi fengið að kynnast þessari konu.

Eftir að Árni Páll lést töluðum við Birna meira saman í síma, hún var fróð og skemmtileg, aldrei væmin, stundum jafnvel hvöss en alltaf var mér léttara í sinni eftir samtölin við hana. Hún hafði þannig áhrif á mann, ég er þakklát fyrir kynnin við hana.

Börnum hennar og allri fjölskyldu sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Sólveig.

Elsku Birna frænka mín.

Nú verður skrítið að koma í Hólminn og koma ekki til þín, sem var fastur liður. Margar minningar koma upp í hugann frá því ég á uppvaxtarárum var mikið hjá ömmu Björnínu á Höfða sem þú varst alin upp hjá. Þar bjuggu líka Hjálmdís dóttir ömmu og sonur hennar Snæbjörn. Amma var dugleg, með kindur, hænsni og belju, eins var hún með prjónavél í herberginu sem ég svaf í og sofnaði ég alltaf við hljóðið í henni. Amma prjónaði boli og buxur fyrir marga. Í þá daga voru öll börn í þessu; engar einnota bleyjur eins og nú er.

Birna mín, mig langaði svo að fara með þér á söngæfingu. Amma sagði eitt sinn: „Birna mín, leyfðu nú Nínu að fara með þér.“ „Komdu þá,“ sagði hún og hljóp af stað. Þá var verið að gera veg upp á höfðann og mikið hvasst grjót og datt ég og veinaði hátt. Birna hélt áfram en amma og mamma komu og farið var með mig upp á spítala þar sem nunnurnar klemmdu fimm klemmur ódeyft og ég öskraði mikið.

Birna mín, þú hafðir gullfallega rödd og söngst með hljómsveit fyrir vestan og í Reykjavík í Vetrargarðinum og víðar, þá komst þú mikið heim til okkar á Nönnugötuna. Eitt sinn komuð þið Rafn og sögðust vilja sýna okkur bíl sem þið voruð að kaupa, var það svört svört Volkswagen-bjalla sem við höfðum aldrei fyrr séð.

Þetta eru bara smá minningabrot frá veru minni hjá ykkur ömmu, og aldrei hef ég komið í Hólminn öðruvísi en koma til þín.

Kveð ég þig nú elsku frænka mín, nú ert þú komin til Rabba þíns og ömmu. Sjáumst þegar minn tími kemur.

Þín frænka,

Nína Áslaug.

„Gott er að eiga góða að.“ Bernskuminningar gleymast ei, þær geymast í sálinni og koma fram í huga manns við ýmis atvik í lífinu. Nú við andlát frænku minnar, Birnu Pétursdóttur, kemur margt í hugann.

Ég naut þess sem barn og unglingur að fá að dvelja stundum stutt, stundum lengur, hjá móðurömmu minni Björnínu Sigurðardóttur á Höfðanum og njóta elsku hennar og umhyggju. Það voru skemmtilegir tímar í frjálsræði í þessu fagra umhverfi. Þar kynntist ég frænku minni, Birnu Pétursdóttur, sem bjó hjá ömmu á Höfðanum.

Birna var talsvert eldri en ég. Hún bar mikla umhyggju fyrir mér, kenndi mér að varast sumt í umhverfinu og að fara rétt að og gætilega við klifur í klettunum. Þessi samskipti okkar leiddu til vináttu sem enst hefur alla tíð, þó svo leiðir okkar hafi ekki legið saman gegnum lífið, þá hefur taug vináttunnar aldrei slitnað.

Þegar ég þótti hafa aldur til fékk ég það hlutverk að taka þátt í að sækja kýr nágrannanna á morgnana og reka þær í haga fyrir innan byggðina, sækja þær síðan síðdegis og skila þeim til mjalta. Á þessari göngu með kýrnar sá ég stundum til Birnu, þar sem hún hjólaði hratt með flaksandi hár, afar glæsileg ung stúlka. Á eftir henni hjólaði ungur maður sem reyndi að ná henni, sem honum tókst að lokum. Þar fór Rafn, sem varð eiginmaður Birnu. Þeirra hjónaband entist lífið.

Á ættarmóti Höfðaættarinnar, sem haldið var í Stykkishólmi fyrir nokkrum árum, gekk Birna með hópinn um götur Stykkishólms, sagði sögu byggðar og einstakra húsa. Þar dáðist ég að Birnu, röggsemi hennar og foringjahæfileikum, sem þarna komu fram og sem rifjuðust upp í samskiptum okkar frá bernskuárum mínum.

Birna hafði skap, ríka réttlætiskennd, gerði kröfur til sín sem og annarra, en undir sló heitt umhyggjusamt hjarta, sem ávallt stóð með þeim er minna máttu sín. Blessuð sé minning Birnu Pétursdóttur.

Jón Hólm
Stefánsson.