Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Á bæjarstjórnarfundi í Hafnarfirði 20. desember sl. voru Halldóri Árna Sveinssyni þökkuð góð störf. Þetta var síðasti fundur hans, en hann hefur útvarpað og streymt frá yfir 600 fundum frá 1983 auk þess sem hann gerði um 100 sjónvarpsþætti um menn og málefni í Hafnarfirði, sem sýndir voru á Sýn. Ennfremur setti hann upp útvarp fyrir KR og árlega á Akranesi. „Mér fannst þetta vera orðið ágætt,“ segir hann um starfslokin, en á tímabili sá hann jafnframt um útvarp fyrir Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ.
Vinna Halldórs Inga fyrir Hafnarfjarðarbæ hófst á 75 ára afmæli bæjarins 1983. „Þá sá ég um hátíðarútvarp, sem var að mínu frumkvæði en á forræði bæjarins, í eina viku,“ rifjar Halldór Árni upp. Hann hafi verið menntaður myndlistarmaður og lært auglýsingateiknun, hafi haft mikinn áhuga á ljósvakamiðlum, hugleitt að stofna útvarp í Hafnarfirði, gert fyrrnefnda tilraun á afmælinu og þá varð ekki aftur snúið.
Útvarpsleyfi nr. 4
Ríkiseinokun á útvarpi og sjónvarpi var aflétt 1986 og fékk Halldór Árni útvarpsleyfi nr. 4 á eftir Bylgjunni, Stjörnunni og kristilegu útvarpsstöðinni Alfa. Hann stofnaði Útvarp Hafnarfjörð ásamt félögum sínum og var með fjölbreytta dagskrá alla virka daga. Nemendur grunnskólanna í bænum fengu að spreyta sig á gerð útvarpsþátta, sem síðar varð fastur liður í félagsmiðstöðinni Vitanum. „Ég sendi út fyrsta bæjarstjórnarfund minn í byrjun árs 1988. Um ári síðar hófust fastar útsendingar frá bæjarstjórnarfundum og hef ég séð um þær síðan.“
Fyrstu árin var útvarpað frá fundunum en um aldamótin byrjaði Halldór Árni, sem ásamt félögum sínum stofnaði Sjónvarp Hafnarfjörð 1995, að gera tilraunir með streymi. „Við vorum fyrsta sveitarfélagið til að streyma reglulega frá fundum,“ upplýsir hann. Um sama leyti hafi hann komið að stofnun fjölmiðladeildar í Flensborgarskóla og aðstoð við streymið hafi verið eitt af viðfangsefnum nemenda. „Útsendingin færðist alfarið á streymið á nokkrum árum eftir að hafa verið samtímis í útvarpi og á streymi um skeið,“ segir Halldór Árni, sem var umsvifamikill í margskonar streymi, ekki síst í covid.
Fundartímar sveitarfélaganna sköruðust stundum. „Þess vegna reyndi ég einna fyrstur manna að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu,“ upplýsir hann. Í rafmagnsleysi í Hafnarfirði hafi útsending þar og í Kópavogi dottið út og rásirnar í beininum víxlast. „Ég var í Kópavogi og vinur minn sá um útsendinguna í Hafnarfirði og áður en ég náði að endurræsa kerfið var Lúðvík Geirsson, þá bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, farinn að tala í Kópavogi og Gunnar Birgisson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, farinn að byrsta sig í Hafnarfirði.“