Stríð Ekkert lát er á átökunum á Gasasvæðinu. Myndin var tekin við landamæri Ísraels og Gasa í gær og sýnir skriðdreka og hrundar byggingar.
Stríð Ekkert lát er á átökunum á Gasasvæðinu. Myndin var tekin við landamæri Ísraels og Gasa í gær og sýnir skriðdreka og hrundar byggingar. — AFP/Jack Guez
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja munu eftir helgina eiga fundi í Brussel með utanríkisráðherrum Ísraels, heimastjórnar Palestínu og nokkurra Arabaríkja um stríðið á Gasasvæðinu og leiðir til að ná fram friðarsamkomulagi

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsríkja munu eftir helgina eiga fundi í Brussel með utanríkisráðherrum Ísraels, heimastjórnar Palestínu og nokkurra Arabaríkja um stríðið á Gasasvæðinu og leiðir til að ná fram friðarsamkomulagi.

AFP-fréttastofan hefur eftir sendimönnum í Brussel, að markmiðið með fundinum sé að kanna leiðir til að binda enda á átökin og næstu skref í átt að langtímalausn.

Evrópusambandið hefur ekki verið samtaka í afstöðu til átakanna á Gasa. Þannig hafa Þjóðverjar, sem styðja Ísraelsmenn, ekki viljað taka undir kröfur frá Spánverjum og Írum um tafarlaust vopnahlé.

Embættismenn Evrópusambandsins hafa lagt línur um hvernig framtíðarskipun á Gasasvæðinu að stríðinu loknu geti verið háttað. Þar er gert ráð fyrir að Ísraelsmenn yfirgefi svæðið, yfirráðum Hamas-samtakanna ljúki og heimastjórn Palestínumanna komi að því að stjórna málum á Gasa.

Evrópusambandið og Bandaríkin hafa lýst þeirri skoðun að stofnun Palestínuríkis sé eina raunhæfa leiðin til að koma á varanlegum friði. En Benjamín Netanjahu, forsætisráðherra Ísraels, hafnaði þeirri hugmynd alfarið í sjónvarpsávarpi á fimmtudagskvöld.

Rússar hvöttu Hamas-samtökin í gær til að sleppa öllum gíslum sem eru í haldi á Gasa og sögðu jafnframt að ástandið á svæðinu væri hræðilegt. Rússneska utanríkisráðuneytið sagði að í viðræðum við Musa Abu Marzoul, einn af leiðtogum Hamas, hefðu rússneskir embættismenn komið þessari skoðun á framfæri.

Tess Ingram, talsmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sagði á blaðamannafundi í gær að þúsundir barna hefðu fæðst á Gasasvæðinu eftir að stríðið þar braust út fyrir þremur mánuðum. Ingram, sem fór til svæðisins, lýsti því að mæðrum hefði blætt út við barnsburð og einn hjúkrunarfræðingur hefði gert neyðarkeisaraskurð á sex látnum konum til að reyna að bjarga ófæddum börnum þeirra.

„Það fæðist barn við þessi hræðilegu skilyrði á tíu mínútna fresti, sagði Ingram og hvatti til þess að alþjóðasamfélagið gripi til tafarlausra aðgerða. gummi@mbl.is