Sólrún Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 10. júní 1957. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 4. janúar 2024.

Hún var dóttir hjónanna Þorgerðar Jónsdóttur frá Neðri-Svertingsstöðum í Miðfirði, f. 14. ágúst 1920, d. 14. september 2010, og Jóns Friðrikssonar frá Stóra-Ósi í Miðfirði, f. 2. janúar 1918, d. 7. nóvember 2007. Bræður Sólrúnar eru Friðrik (1947) og Sævar (1950-2023).

Hinn 19. nóvember 1978 giftist Sólrún Ólafi Sigurðssyni, f. 23. mars 1957. Þau eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Valdís, f. 29. apríl 1982, gift Daníel Kjartani Ármannssyni, f. 21. júlí 1978. Þau eru búsett í Kópavogi. Börn þeirra eru Aron Gabríel, f. 22. október 2004, Ísak Leví, f. 12. apríl 2010, og Aníta Marín, f. 22. júní 2016. 2) Bragi, f. 5. október 1986, giftur Arinu Yamami frá Shizuoka í Japan, f. 5. ágúst 1991. Þau eru búsett í Lúxemborg. 3) Gerða Jóna, f. 16. ágúst 1992, gift Elíasi Jóhannessyni, f. 10. maí 1992. Þau eru búsett í Mosfellsbæ. Börn þeirra eru Tómas Óli, f. 1. júlí 2017, og Emil Örn, f. 28. desember 2021.

Sólrún ólst upp í Hólmgarðinum með foreldrum sínum og tveimur eldri bræðrum. Það var hlýtt og kærleiksríkt heimili, og naut hún ávallt góðra tengsla við fjölskyldu sína og eyddi miklum tíma með þeim, einnig í seinni tíð. Hún gekk fyrst í Breiðagerðisskóla, og hóf svo göngu í Réttarholtsskóla árið 1970, en þá hafði fjölskyldan flust í Ásgarðinn. Eftir það lá leiðin í Menntaskólann við Tjörnina og Menntaskólann við Sund þegar skólinn fluttist þangað sem hann er núna. Hún lauk stúdentsprófi árið 1977 og byrjaði þá nám í hjúkrunarfræði við Hjúkrunarskóla Íslands, sem hún lauk árið 1982. Meðan á náminu stóð fór hún að vinna á Landspítalanum en árið 1983 hóf hún störf sem heyrnartæknir á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Þar starfaði hún til æviloka, auk þess sem hún var í hlutastarfi á Reykjalundi í Mosfellsbæ um nokkurra ára skeið á 10. áratugnum. Það er óhætt að segja að hún hafi snert líf fjölda landsmanna í gegnum starfsárin, en þess má geta að síðan 2008 hefur hún aðstoðað yfir 17.000 skjólstæðinga HTÍ.

Sólrún átti margvísleg áhugamál. Hún var ákaflega leikin í öllum prjónaskap og var ætíð með nokkur slík verkefni á prjónunum, svo sem teppi eða föt á börn og barnabörn. Hún var einnig mikil útivistarmanneskja og naut þess að fara í göngur úti í íslenskri náttúru. Hún var mikið fyrir söng og tónlist, spilaði á píanó í æsku og var virkur meðlimur Álafosskórsins frá 1995. Loks var hún áhugasöm um íslenska tungu og bókmenntir, og þótti sérstaklega gaman að krossgátum.

Útför Sólrúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 20. janúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Kynni okkar Sólrúnar hófust árið 1973 og entust alla tíð.

Við giftum okkur 19. nóvember 1978 og áttum því 45 ára brúðkaupsafmæli í nóvember síðastliðnum. Við hlökkuðum til að halda upp á 50 ára afmælið en því miður tóku örlögin fram fyrir hendur okkar. Sælureiturinn okkar var í Jónskoti, sem er sumarbústaður tengdaforeldra minna við Heklurætur en seinna meir komum við okkur upp okkar eigin bústað á sama landi, sem við kölluðum Sólkot. Þarna vörðum við öllum stundum sem við gátum og börnin okkar líka. Börnin okkar eru Valdís fædd 29. apríl 1982, Bragi 5. október 1986 og Gerða Jóna 16. ágúst 1992. Ég man sérstaklega eftir fæðingu Valdísar því kvöldið áður hafði ég stillt úrið mitt til þess að hringja 07:29. Um nóttina fórum við á fæðingardeildina og nákvæmlega klukkan 07:29 byrjaði úrið mitt að spila lag og út kom kollurinn á Valdísi. Þetta var skrítin tilviljun. Við byrjuðum að búa saman í íbúð sem Friðrik bróðir Sólrúnar átti í Blöndubakka 16 í Breiðholti, en á þeim tíma vorum við að byggja með Byggung í Mosfellsbæ í Dalatanga 13 og fluttum við í þá íbúð 1980. Árið 1987 fluttum við síðan í Dvergholt 18 í Mosfellsbæ og höfum búið þar öll árin síðan.

Á sumrin reyndum við að ferðast eitthvað innanlands og fórum við þá oft í stuttar ferðir út frá sumarbústaðnum en einnig í lengri ferðir, ýmist ein eða með öðrum. Með síðustu ferðum okkar var um Austfirði, Melrakkasléttu, Langanes og fleiri staði og var þetta frábær ferð eins og allar hinar. Það sem maður sér mest eftir er að hafa ekki klárað að skoða alla þá staði sem við vorum búin að tala um að skoða hér á Íslandi. Við vorum búin að ferðast til margra landa og þá oftast í kringum vinnu mína og oft vorum við búin að fara til Calgary í Kanada og í Banff-klettafjöllin en við eignuðumst góða vini í Kanada, sem sumir eru þó fallnir frá. Sonur okkar Bragi býr í Lúxemborg áramt konu sinni Arinu, og höfum við átt góðar stundir með þeim, en besta minning Sólrúnar var þegar við fórum síðastliðið sumar til Lúxemborgar í giftinguna þeirra og hún ljómaði öll við að ná þessu. Ég mun reyna að halda þær óskir sem þú baðst um á dánarbeðinum, en þær eru að hugsa vel um sjálfan mig og börnin okkar.

Hægt væri að minnast á miklu meira en það verður að bíða betri tíma.

Með ástarkveðju, þinn eiginmaður

Ólafur.

Elsku hjartans mamma mín.

Hvernig má það vera að þú sért farin? Ég bíð ennþá eftir að þú hringir í mig bara til að spjalla, spjalla um allt og ekkert en samt svo mikilvægt og skemmtilegt. Með þér á ég svo ótal margar fallegar minningar og ég gæti skrifað heila ritgerð en þær mun ég geyma í hjarta mínu um ókomna framtíð.

Það eru oft þessir litlu hversdagslegu hlutir sem maður saknar hvað mest. Að koma í Dvergholtið til ykkar pabba og sjá þig í sófanum með prjónana eða við eldhúsborðið með Melroses-bollann að ráða krossgátuna þína, hlusta á þig hneykslast góðlátlega þegar ég setti sykur í teið mitt og sitja svo með þér við eldhúsborðið og fara yfir málefni líðandi stundar. Það var alltaf svo notalegt.

Ég sakna þess að horfa á þig vera með barnabörnunum sem voru þitt líf og yndi. Þú varst heimsins besta mamma og líka heimsins langbesta amma. Ástin sem skein úr augunum þínum í hvert skipti sem þú sást þau var einstök. Þitt fallega bros, þitt hlýja viðmót og þinn hlýi faðmur tók alltaf á móti þeim. Þau voru alltaf velkomin til ömmu Rúnu og þau elskuðu öll ömmu Rúnu sína.

Þú hafðir svo góða nærveru, öll barnæskan einkenndist af kærleika, ást og alúð og þið pabbi kennduð okkur systkinunum góðar venjur sem við höfum öll tekið með inn í okkar fullorðinsár. Það var alltaf hægt að leita til þín og fá svör við öllum heimsins spurningum.

Þú kvaddir allt of fljótt en sumu ræður maður því miður ekki. Eins erfið stund og það var þegar þú kvaddir, þá finnst mér samt dýrmætt að vita að við, öll fjölskyldan þín, vorum hjá þér.

Elsku mamma ég sakna þín svo mikið, lífið verður ekki eins án þín. Ég elska þig.

Mamma, elsku mamma,

man ég augun þín.

í þeim las ég alla

elskuna til mín.

Mamma, elsku mamma,

man ég þína hönd,

bar hún mig og benti

björt á dýrðarlönd.

Mamma, elsku mamma,

man ég brosið þitt;

gengu hlýir geislar

gegnum hjarta mitt.

Mamma, elsku mamma,

mér í huga skín

bjarmi þinna bæna,

blessuð versin þín.

Mamma, elsku mamma,

man ég lengst og best

hjartað blíða, heita,

hjarta, er sakna' ég mest.

(Sumarliði Halldórsson)

Þín dóttir,

Valdís.

Elsku mamma.

Nú hefur þú kvatt þessa jarðvist, langt fyrir aldur fram. Hvað þú varst mikill stólpi í lífi okkar allra verður ekki orðum aukið, fyrir stuðninginn og allt annað sem þú hefur gefið okkur í gegnum árin verð ég ævinlega þakklátur. Þú sást alltaf það besta í okkur og hjálpaðir okkur að finna og elta okkar eigin drauma, jafnvel ef þeir leiddu okkur til þess að flytja út fyrir landsteinana til lengri tíma, eins og raunin varð með mig. Það sem var best fyrir okkur krakkana var nefnilega alltaf það sem var þér efst í huga. En nálægðin og hlýjan sem þú gafst frá þér var svo sterk að maður fann hana alveg jafn auðveldlega þó svo ég væri búsettur hinum megin á hnettinum. Enda varstu alltaf til taks að styðja við okkur þegar á reyndi. Alltaf tilbúin með réttu orðin til að bera vind undir vængi okkar.

Þú skildir mikið eftir af þér í okkur. Þú bjóst yfir sterkri siðferðiskennd og varst yfirfull af kærleik, ekki bara gagnvart vinum og fjölskyldu, heldur einnig samfélaginu öllu. Og þessir eiginleikar þínir smituðu frá sér. Þú kenndir mér að sjá það góða í fólki og leyfa því að njóta vafans, eins erfitt og það getur oft verið. Þú kenndir mér að standa með og hjálpa þeim sem minna mega sín. Þú kenndir mér að vera forvitinn, að spyrja, prófa og læra. Það er svo margt sem ég á þér að þakka að það verður aldrei allt upp talið.

Af ótal mörgum minningum er ein sem hefur alltaf staðið mér ofarlega í huga. „Elsku kúturinn minn“ sagðirðu oft við mig þegar ég var lítill, en einn morguninn kom ég til þín þar sem þú lást uppi í rúmi, strauk þér um vangann og sagði við þig „elsku kútinn minn,“ eflaust án fulls skilnings orðanna sjálfra. Þessu atviki sagðir þú mörgum frá og minntir mig oft á, og varð því þessi minning sterkari í huga mínum en hún hefði eflaust annars verið. En það var ekki fyrr en í seinni tíð að ég áttaði mig á því hvað gerði þessa minningu mér svo kæra. Það var í raun ekki minningin sjálf, heldur hvað hún gladdi þig mikið í hvert skipti sem þú minntist hennar við mig eða aðra, sem gerði hana svona eftirminnilega. Öll þau bros þín sem þessi minning skapaði eru nú jafn dýrmætar minningar mínar.

Hann er ókunnuglegur, heimurinn án þín, og mun það taka langan tíma að taka hann aftur í einhvers konar sátt. Það var svo margt sem við áttum eftir ógert, svo mörg ár í viðbót sem við áttum að fá að eiga með þér. Það er margt sem ég á eftir að sakna, en mest eru það litlu stundirnar sem við áttum saman. Að keppast við að ráða lausnarorðin í krossgátu Moggans. Að ráðast í púsluspil. Hversdagslegt spjall um daginn og veginn. Ég er afar þakklátur að þú gast komið í giftinguna okkar í Lúxemborg síðastliðið sumar. Við áttum þá eina fullkomna helgi, öll fjölskyldan saman, full af gleði og hamingju. Það er sárt að hugsa til þess að ef ég skyldi nú eignast barn, þá mun það ekki fá að þekkja þig nema í gegnum myndir og minningar okkar. En þær eru margar, góðar og kærar, og munum við halda þeim og þér á lofti svo lengi sem við lifum.

Þinn sonur,

Bragi.

Elsku mamma.

Það er erfitt að byrja að skrifa eitthvað niður. Þú áttir að eiga ótal mörg ár eftir með okkur og við áttum eftir að brasa svo margt saman. Ég er alltaf að bíða eftir að þú poppir upp heima hjá mér eða að ég fái skilaboð frá þér. Mér finnst þetta allt svo óraunverulegt, þótt ég hafi verið með þér þegar þú dróst þinn síðasta andardrátt. Kannski verður þetta aldrei raunverulegt.

Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, litla grjónið þitt, og strákana mína. Ég datt svo sannarlega í foreldralukkupottinn. Við vorum alltaf nánar en eftir unglingsárin urðum við mjög nánar og þú varst mín besta vinkona. Ég gat sagt þér allt, og sagði þér allt. Kannski sagði ég þér stundum óþarflega mikið en það var bara svo gott að tala við þig. Það sem ég gæfi fyrir það eitt að sitja við eldhúsborðið og spjalla við þig aftur elsku mamma. Þú sagðir alltaf að það væri svo gott að knúsa mig því ég væri með hlýjasta faðminn. En mamma, ég held að það hafi bara verið vegna þess að ég var að knúsa þig.

Þú varst ekki bara yndisleg mamma heldur líka besta amma heims. Tómas og Emil dýrkuðu þig og voru alltaf til í að fara upp til ömmu. Það var orðið erfitt að fara heim eftir leikskóla því Emil vildi bara ganga rakleiðis upp, með krepptan hnefann tilbúinn til að banka á dyrnar þínar. Og alltaf opnaðir þú dyrnar með bros á vör. Ég er svo þakklát fyrir það að búa fyrir neðan þig og pabba.

Samgangurinn á milli okkar var mikill enda erum við mjög náin fjölskylda og ég lofa þér að það mun aldrei breytast. Ég mun sakna þess að sjá þig ekki í eldhúsglugganum að kíkja á okkur þegar við erum á leiðinni út eða koma heim og sjá brosið sem kom á andlitið þitt þegar þú talaðir við strákana í gegnum gluggann. Fallega brosið þitt.

Ég er svo þakklát fyrir síðasta sumar. Ferðina til Lúxemborgar, ferðirnar upp í Sólkot, allar samverustundirnar úti á palli í sólinni og heima í huggulegheitum.

Daginn sem þú kvaddir settist ég við eldhúsborðið þitt, opnaði blaðið og fór að leysa krossgátu. Þú stríddir mér stundum yfir krossgátuhæfni minni þegar ég var að erfiða við að leysa barnakrossgátur. En í þetta skipti kom hvert orðið á fætur öðru og ég trúi því að þarna hafir þú verið, mamma, að hvísla orðin í eyra mitt.

Ég mun halda minningu þinni á lofti um alla tíð.

Þín

Gerða Jóna.

Fallin er frá kær vinkona Sólrún Jónsdóttir. Okkar vinátta hefur staðið í yfir 50 ár og aldrei borið þar skugga á. Að eiga vinkonu eins og Sólrúnu er eins og að vinna í happdrætti. Hún var falleg að utan sem innan, trygg, traust og hafði yndislega nærveru.

Kynni okkar hófust í Réttó þegar við vorum báðar í landsprófi. Hennar æskuvinkona Rut, var þá í sama bekk og ég og í gegnum hana kynntist ég Sólrúnu.

Á þessum árum var oft gaman hjá okkur. Ógleymanleg er ferð sem við fórum með foreldrum Sólrúnar í sumarbústað þeirra upp undir Heklu og við þrjár sungum alla leiðina í aftursætinu. Einnig fórum við þrjár til Svíþjóðar í mikla ævintýraferð.

Í gegnum lífið höfum við fylgst að og á menntaskólaárunum bættist Beta í hólpinn. Á þeim tíma var saumaklúbburinn síðan formlega stofnaður.

Og áfram hélt lífið. Makar komu til sögunnar, börnin okkar og síðan barnabörn. Þegar börnin okkar voru ung voru haldin matarboð, spilakvöld og jólaboð og alltaf voru allir með, makar og börn. Þessi hópur varð smám saman eins og hin stórfjölskyldan í lífinu.

Við Sólrún bjuggum lengi vel báðar í Mosfellsbænum. Þegar haldið var til Reykjavíkur svo ég tali nú ekki um alla leið í Hafnarfjörðinn í saumaklúbb, var gott að vera samferða og á þessum ferðum var gott að ræða við Sólrúnu um ýmislegt sem lá á hjarta. Aldrei heyrði ég hana tala illa um nokkurn mann og alltaf gátum við treyst því að það sem okkur fór á milli þegar við vorum saman tvær færi ekki lengra.

Þegar Sólrún var rúmlega 50 ára bankaði sá vágestur uppá sem nú hefur lagt hana að velli. Hún fór í gegnum sína meðferð og við töldum hana vera komna fyrir horn þegar hann birtist aftur fyrir nokkrum árum. Þegar ég 2019 þurfti sjálf að glíma við sama vágest, var hún mætt til mín fyrr en varði til að ráðleggja mér og styðja í gegnum sína eigin reynslu. Fljótlega eftir að ég greindist tók hún mig með sér á kynningarfund í Ljósinu og þegar hún greindist aftur vorum við um tíma saman í Ljósinu, sem var ómetanlegt fyrir okkur báðar.

Hún var falleg sál og bar alltaf hag þeirra sem í kringum hana voru fyrir brjósti. Fjölskyldan var henni allt. Síðastliðið sumar var henni mikilvægt og það gladdi hana mikið að geta farið með fjölskyldunni og verið við brúðkaup Braga og Arinu í Lúxemborg.

Elsku Sólrún, nú er komið að kveðjustund. Þú gafst mér margt, ómetanlega vináttu og yndislegar samverustundir. Þú varst æðrulaus en það var líka stutt í hláturinn og þá var nú hlegið, við vorum stundum útgrátnar af gleði.

Minning um yndislega vinkonu geymi ég í hjarta mínu. Elsku Sólrún, takk fyrir allt. Vinátta þín var veðmætust eðalsteina.

Elsku Óli, Valdís, Bragi, Gerða Jóna og fjölskyldur, megi æðri máttarvöld senda ykkur kærleik og ljós og umvefja ykkur og styrkja í sorginni.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna.

Vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina.

En viltu muna að vináttan er

veðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Þóra Hjartardóttir.

Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur hug þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.

(Úr Spámanninum – Khalil Gibran)

„Hvað boðar nýárs blessuð sól“ ómaði í messu nýliðins nýársdags og óneitanlega vakti það mig til umhugsunar um elsku vinkonu mína sem ég vissi að væri þá hugsanlega að heyja sína hinstu baráttu. Hinn 4. janúar sl. lést svo mín hjartkæra vinkona, Sólrún, eftir snarpan en erfiðan lokakafla þessa sjúkdóms sem fellir alltof marga langt fyrir aldur fram.

Hvernig skal minnast, þakka fyrir og kveðja 50 ára vináttu? Það er svo ótal margs að minnast og allt svo ljúfar og góðar minningar um þessa vináttu sem aldrei hefur borið nokkurn skugga á.

Örlögin sáu til þess að ég datt inn í þennan vinkvennahóp þeirra Rutar, Þóru og Sólrúnar í landsprófi í Réttó þar sem ég var ný í árganginum og sá hópur hefur fylgt mér æ síðan. Auðvitað hafa komið tímabil þegar minna var um samskipti í önnum hversdagslífsins en alltaf hafa þau verið jafn einlæg og sönn þegar við höfum hist á nýjan leik.

Saumaklúbbur okkar fjögurra vinkvennanna var svo formlega stofnaður á menntaskólaárunum og hefur hann því verið við lýði í 48 ár og höfum við deilt allri þeirri gleði og sorg sem lífið færir manni. Að sjá á bak einni okkar er því eins og að missa hluta af sjálfum sér.

Sólrún var sennilega sú rólyndasta af okkur og alltaf svo trygg og jafnframt svo ótrúlega góður vinur. Ég minnist sérstaklega stunda okkar þegar við urðum samferða í saumaklúbba hjá hinum tveimur og áttum ýmis náin samtöl. Sólrún hafði svo góða nærveru og var svo jarðbundin og átti gott með að hlusta en talaði jafnframt af svo miklu hispursleysi.

Elsku, hjartans Sólrún: Takk fyrir þitt einstaklega fallega geð. Takk fyrir þína sönnu vináttu. Takk fyrir þína yndislegu fjölskyldu sem þú hefur sannarlega auðgað mannkynið með. Takk fyrir allar skemmtilegu ferðirnar sem við fórum saman í og öll samskipti og samverustundir í gegnum tíðina. Takk fyrir einlægni þína og hjartalag. Takk fyrir að vera þú og takk fyrir að fá að eiga þig að í lífi mínu.

Já ég mun eiga þig að á meðan ég lifi því minning þín mun lifa um ókomna tíð í hjarta mínu.

Ég votta Óla þínum og börnum, tengdabörnum og barnabörnum og fjölskyldu þinni allri mína dýpstu samúð. Missir ykkar er mestur og megi góður Guð styrkja ykkur á erfiðum tímum.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér

ástrík skildir bros og tár.

Í samleik björt, sem sólskinsdagur

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þín vinkona,

Elísabet.

Við hittumst fyrst haustið 1965 í A-bekknum hjá Hrefnu í Breiðagerðisskóla. Síðan hafa leiðir okkar legið saman og Sólrún verið órjúfanlegur hluti af lífi mínu og fjölskyldu minnar.

Árin liðu við leik og lærdóm. Við lærðum Skólaljóðin utan að, öll örnefni vogskorinnar strandar landsins, fórum í leikfimi í bláum léreftsstuttbuxum og hvítum nærbolum sem hvorttveggja var merkt ísaumuðum upphafsstöfunum okkar. Við lærðum að synda í skólalauginni, vorum sendar í ljós þar sem lækna átti okkur af ljósu litarafti og glöddumst yfir að fá loks ljúfan handavinnukennara í 11 ára bekk. Sá kennari hafði afdrifarík áhrif því við stofnuðum þéttofinn saumaklúbb nítján ára gamlar og sú stofnun sá til þess að hvað sem á gekk var alltaf efnt til reglulegra funda.

Unglingsárin gengu í garð með sínum óralöngu hlátursköstum sem gátu varað heila strætóferð frá Lækjartorgi inn í Bústaðahverfi og jafnvel lengur. Margt þurfti að kryfja og að lokinni daglangri samveru tók gjarnan við óralangt símtal, fjölskyldum okkar til furðu. Og eins og það væri ekki nóg, skrifuðum við hvor annarri bréf, jafnvel í tímum í Réttó og við lestur þeirra sést að við töldum okkur hafa höndlað lífsgátuna þá þegar. Og kannski var það bara raunin. Við fermdumst saman, síðu fermingarkápurnar urðu okkar daglega yfirhöfn og Ecco-leðurskór með hnausþykkum hrágúmmísólum eða hvít krumpulakkstígvél voru lífsnauðsynlegur fótabúnaður. Í frímínútum hlupum við yfir hitaveitustokkinn, heim til hennar í Ásgarðinn þar sem Gerða sá til þess að daglega var til brúnkaka og mjólk og betri næringu gátum við ekki hugsað okkur.

Við gættum barna saman og hrylltum okkur yfir myndum í læknisfræðidoðröntunum hans Friðriks – þá grunaði engan að báðar yrðum við hjúkrunarfræðingar. Við hlustuðum á plöturnar hans Sævars, sungum hástöfum alla textana með Jesus Christ Superstar og lágstemmdar með Cat Stevens, Morning has broken. Framtíðin var tilhlökkunarefni og stundum svo mikill spenningur fyrir hvað hún bæri í skauti sínu að leita þurfti svara hjá spákonum. Þetta voru góðir tímar.

Árin okkar í MT ylja í minningunni og voru góður undirbúningur fyrir skóla lífsins. Við vinkonurnar vorum samstiga sem fyrr, lærðum hjúkrun, hófum starfsferil, urðum eiginkonur, mæður og ömmur og hefðum viljað verða langömmur saman.

Ég get ekki nógsamlega lofað vinkonu mína og hennar mannkosti. Hún sinnti öllum hlutverkum sínum vel, heima og heiman. Hún var hæglát og dugleg í senn, hláturmild, bjartsýn, þolinmóð og þrautseig. Hún þurfti sannarlega á öllu þessu að halda undanfarin ár og sýndi yfirvegun og kjark í veikindum sínum. Hún hafði styrk til að ræða líðan sína og eftir samtöl okkar að undanförnu trúi ég og finn að vináttan og kærleikurinn lifir áfram.

Sólrún bar svo sannarlega nafn með rentu, henni fylgdi ljós og hlýja hvar sem hún kom. Arfleifð hennar er myndarleg og samhent fjölskylda, þéttur vinahópur og þúsundir þakklátra skjólstæðinga sem hún liðsinnti af lipurð og fagmennsku.

Ég kveð vinkonu mína með sárum söknuði og hjartans þakklæti.

Rut Jónsdóttir.

Með örfáum orðum langar mig að minnast þín elsku Sólrún og þakka þér fyrir þá miklu hlýju og einstöku góðvild sem þú sýndir mér alla tíð.

Á heimili ykkar fjölskyldunnar, þar sem ég var daglegur gestur alla æsku, fann ég alltaf svo mikla hlýju, öryggi og ró. Með ykkur á ég svo margar fallegar og dýrmætar æskuminningar. Þessi góðvild þín og ykkar fjölskyldunnar er einstakt veganesti út í lífið og fyrir þær verð ég ávallt þakklát.

Mér hefur alltaf þótt svo vænt um það þegar þú kallaðir mig uppeldisdóttur þína. Það stækkaði hjartað mitt um nokkur númer og gaf mér tilfinningu um að ég væri dýrmæt og mikils virði.

Um alla framtíð, þegar sólrúnir birtast á himnum, mun ég horfa á þær og minnast þín með mikilli hlýju og kærleika elsku Sólrún.

Smávinir fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

Faðir og vinur alls, sem er,

annastu þennan græna reit.

Blessaðu, faðir, blómin hér,

blessaðu þau í hverri sveit.

Vesalings sóley, sérðu mig?

Sofðu nú vært og byrgðu þig.

Hægur er dúr á daggarnótt.

Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

(Jónas Hallgrímsson)

Megi góður Guð og allar góðar vættir gefa elsku Valdísi minni, Gerðu Jónu, Braga, Óla, öllum fallegu barnabörnunum þínum og tengdabörnum styrk í sorginni.

Svava Björk.

Í dag kveðjum við, félagar í Álafosskórnum, kæra vinkonu okkar og kórfélaga. Sólrún kom í kórinn árið 1995 og hefur verið virk í starfi hans allar götur síðan.

Hún var sérlega lagviss og fljót að læra og gátum við í altinum treyst á, ef við vorum ekki með allt á hreinu, að rétt væri sungið. Kór er ekki bara kór, hann er líka samfélag fólks sem hefur gaman af því að syngja og vera í samskiptum við aðra með sama áhugamál. Félagslegi þátturinn hjá okkur í Álafosskórnum er jafn mikilvægur og söngurinn. Sólrún var virk í leik og starfi kórsins með sinni hógværu og ljúfu framkomu og sat í stjórn kórsins og tók þátt í öllu því sem kórfélögum datt í hug að gera.

Óli tók virkan þátt með Sólrúnu á skemmtunum og ferðalögum kórsins innanlands sem utan, alltaf með myndavélina á lofti og höfum við kórfélagar fengið að njóta afrakstursins með hljóðupptökum og myndum.

Sólrún, ásamt kórfélaga okkar henni Allý, stóð fyrir því að kórfélagar færu nú að hreyfa sig aðeins utandyra. Þær náðu að koma því á og góður hópur kórfélaga hefur hist einu sinni í viku í nokkuð mörg ár og gengið sér til heilsubótar.

Sólrún átti við veikindi að stríða og dáðumst við að því æðruleysi sem hún sýndi í þeirri baráttu. Við kveðjum þig kæra Sólrún með þökk fyrir öll árin í samveru, söng og leik. Þín verður sárt saknað.

Kæri Óli, börn og fjölskyldur, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd félaga í Álfosskórnum,

Katrín Ragnarsdóttir formaður.

Samstarfsfélagar Sólrúnar Jónsdóttur kveðja mikils metinn félaga í dag. Sólrún starfaði hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands í 40 ár við góðan orðstír og naut vinsælda og virðingar bæði meðal starfsfélaga og viðskiptavina.

Sólrún þjónaði tugþúsundum heyrnarskertra á ferli sínum. Vandvirk, úrræðagóð, hæglát, umburðarlynd, þolinmóð og kurteis eru líklega besta lýsingin á Sólrúnu. En hún var jafnframt glettinn og skemmtilegur félagi, traustur vinur og viðræðugóð um allt milli himins og jarðar. Hennar er og verður sárt saknað.

Við þökkum Sólrúnu samferðina, vinskapinn og hennar ómetanlega framlag. Þá sendum við fjölskyldu hennar og vinum okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Samverkafólk á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands,

Kristján Sverrisson, forstjóri HTÍ.