Sigurður Helgason stærðfræðingur fæddist á Akureyri 30. september 1927. Hann lést á heimili sínu í Belmont, Massachusetts í Bandaríkjunum 3. desember 2023, 96 ára að aldri.
Sigurður var sonur hjónanna Köru Briem húsmóður, f. 1.4. 1900, d. 18. október 1982, og Helga Skúlasonar augnlæknis, f. 22. júní 1892, d. 7. nóvember 1983. Systkini Sigurðar voru Sigríður Helgadóttir (samfeðra) bókavörður og sérfræðingur í slavneskum tungumálum, f. 18. nóvember 1925, d. 15. júlí 2019, Skúli Helgason læknir, f. 18. júní 1926, d. 2. janúar 1973, og Sigríður Helgadóttir líftæknifræðingur, f. 15. febrúar 1933, d. 17. apríl 2003.
Eftir útskrift frá Menntaskólanum á Akureyri 1945 stundaði Sigurður nám við verkfræðideild Háskóla Íslands í eitt ár en hélt þá til náms við Kaupmannahafnarháskóla þaðan sem hann lauk mag. scient.-prófi í stærðfræði árið 1952.
Frá Kaupmannahöfn lá leið Sigurðar til Bandaríkjanna og árið 1954 lauk hann doktorsprófi frá Princeton-háskóla. Að námi loknu sinnti hann kennslu við MIT-háskólann (Massachusetts Institute of Technology) í Boston, Princeton-háskóla, University of Chicago og Columbia University. Árið 1960 hlaut hann stöðu við MIT og var gerður að prófessor við skólann árið 1965.
Sigurður giftist 9. júní árið 1957 Artie Helgason Gianopulos félagsráðgjafa. Börn Sigurðar og Artie eru: 1) Thor Helgason verkfræðingur, f. 15. ágúst 1961. Maki hans er Lisa Helgason, f. 29.7. 1960. Börn þeirra eru Anders Helgason, f. 25.4. 1994, giftur Catherine Helgason, og Brandon Helgason, f. 2.5. 1997, í sambúð með Katarinu Maric. 2) Anna Lóa Helgason læknir, f. 10.10. 1967. Maki hennar er Mike Jones, f. 14.9. 1967. Börn þeirra eru Ruby Thora Jones, f. 27.1. 2006, og Molly Kara Jones, 25.11. 2009.
Eftir Sigurð liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar á sviði stærðfræði, og hlaut hann margs kyns viðurkenningar fyrir störf sín, s.s. gullpening Kaupmannahafnarháskóla árið 1951 og Steele Prize Ameríska stærðfræðafélagsins 1988. Hann var heiðursdoktor við Háskóla Íslands, Kaupmannahafnar- og Uppsalaháskóla. Árið 1991 hlaut hann stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu.
Sigurður lét sig lengi varða kennslu í stærðfræði við Háskóla Íslands, tók þátt í að styrkja bókakost stærðfræðideildar og árið 2017 stofnaði hann verðlaunasjóð við skólann sem veitir viðurkenningar til nemenda og nýútskrifaðra stærðfræðinga.
Minningarathöfn um Sigurð verður haldin í Scandinavian Center í Newton, Massachusetts, í dag 20. janúar 2024. Bálför hefur farið fram en Sigurður verður jarðsettur í Reykjavík á vordögum.
Þótt Sigurður móðurbróðir minn hefði verið búsettur vestanhafs alla mína tíð var nærvera hans frá því ég fyrst man eftir mér bæði sterk og stöðug. Að eiga frænda í Ameríku sem gisti á Hótel Sögu og Loftleiðum skapaði hliðarveruleika í barnshuga sem var í senn framandi og eftirsóknarverður. Á unglingsárum tók myndin af sérvitra stærðfræðingnum sér bólfestu í huganum, og brátt gerði ég mér grein fyrir hversu langt hann hafði náð á sínu fræðasviði; sérfræðingur í geómetríu sem var félagi John Nash, hafði þekkt Oppenheimer, og sannað setningu sem átti þátt í þróun merkilegrar tækni í læknisfræði sem síðar færði tveimur vísindamönnum nóbelsverðlaun. Á fullorðinsárum varð hann hins vegar smám saman nákomnari vinur, persónuleiki sem átti engan sinn líka; eftir rúmlega sjötíu ára búsetu í Bandaríkjunum talaði Siggi enn ensku með íslenskum hreim. Og ég held að það hafi ekki verið af því að hann streittist á móti – þó hann væri vissulega mikill Íslendingur – heldur af þeirri ástæðu að hann átti bara svo erfitt með að herma eftir öðrum. Frjáls og falslaus hugur sem ávallt fór sínar eigin leiðir. Og hafði einlægan vilja til að útskýra leyndardóma og fegurð fræða sinna fyrir ungum sem öldnum.
Sigurður fékk sannarlega góðan stuðning í foreldrahúsum en lærði, eins og títt var um ungt fólk þess tíma, snemma að treysta á sjálfan sig. Hann var sendur í sveit á Skútustaði í Mývatnssveit og Grímstaði á Fjöllum, en var líka tvö sumur í Síldarverksmiðju ríkisins á Raufarhöfn. Verkefni hans þar var að mála olíugeymi að innan; hann reri bátnum og reyndi að leiða ekki hugann að því hvað biði hans félli hann frá borði.
Sigurður hélt til Danmerkur eftir eins árs nám í Háskóla Íslands. Ári fyrir útskrift frá Kaupmannahafnarháskóla tók hann þátt í verðlaunaverkefni skólans – hefð frá 1762 – sem í þessu tilviki var að leysa stærðfræðilega tilgátu á sviði tvinnfallafræða. Siggi þekkti ekki setninguna og það tók hann því nokkra mánuði bara að átta sig á um hvað „problemið“ snerist. Það flýtti heldur ekki fyrir vinnunni að honum þótti ekki við hæfi að ráðfæra sig við nokkurn mann. En eftir eitt ár hafði hann sannað setninguna og fékk að launum 50 gramma gullpening og þúsundkall. Verðlaunin urðu honum til framdráttar en kenndu honum líka gildi sjálfstæðra vinnubragða.
Stærðfræði átti hug Sigurðar frá unglingsaldri en þó var þessi frændi minn svo margt annað; lukkunnar pamfíll í sínu persónulega lífi, ástríðu ljósmyndari, sjálfmenntaður píanóleikari, lestrarhestur og áhugamaður um sögu og samfélag, einkum stjórnmál í Bandaríkjunum. Sem gerðu honum reyndar oft gramt í geði, og gat hann þá orðið ansi harðorður um menn og málefni. Að öllu jöfnu var Siggi þó einstaklega lífsglaður maður, alltaf svolítið eins og ungi drengurinn frá Akureyri með þennan dásamlega glampa í augum, áhugasamur um allt það sem ég tók mér fyrir hendur. Umhyggjusamur og jafn örlátur og hann var þurfalítill sjálfur.
Í hverfulum heimi þar sem ótímabærar kveðjustundir verða sífellt fleiri var hin óhagganlega tilvist Sigga langt fram á tíræðisaldur líkt og einhvers konar boð í dýrlegt kompaní eilífðarinnar.
Sigrún Pálsdóttir.
Þegar Sigurður Helgason hálfbróðir móður minnar féll frá í byrjun desember sl. varð mér um eins og ég held fjölmörgum öðrum; að slíkum manni myndi maður ekki kynnast aftur. Við þau dapurlegu tíðindi skrifaði ég Artie konu hans nokkur orð og hún svaraði um hæl, minntist á akademískan feril Sigurðar en lagði ekki minni áherslu á hversu góður eiginmaður og faðir hann hefði verið. Þegar hann hélt upp á 90 ára afmæli sitt spurði hún mig sposk á svip: eru það ekki góð meðmæli hversu maðurinn minn lítur vel út kominn á þennan aldur? Svarið lá auðvitað í augum uppi.
Í samskiptum við annað fólk var Sigurður fyrst og fremst veitandi; hann hafði óbilandi áhuga á viðfangsefnum annarra, studdi fólk, félagasamtök og menntastofnanir og áreiðanlega margt fleira.
Sigurður og móðir mín voru samfeðra en móðir mín kynntist ekki föður sínum að ráði fyrr en síðar á ævinni; hann flutti norður í land þar sem hann sinnti atvinnu sinni. En eftir því sem árin liðu jókst samgangurinn og ég er raunar á þeirri skoðun að það hafi ekki síst verið vegna þess að systur mínar tóku sig til einn góðan veðurdag og bönkuðu upp á hjá afa sínum sem þá var fluttur í bæinn og bjó á Ægisíðunni. Kynntu þær sig fyrir þessum ágæta manni sem þær höfðu aldrei séð áður.
Sigurður var mikill áhugamaður um skák. Hversu góður hann var er ekki auðvelt að meta en Ingvar Ásmundsson staðfesti við mig sögu sem ég hafði heyrt, að hann hefði setið við hlið Sigurðar í flugvél og verið að fitla eitthvað við vasatafl sitt. Þeir þekktust ekki en eftir smá spjall tóku þeir eina bröndótta og hafði Sigurður betur. Hann var mikill vinur Guðmundar Arnlaugssonar og heillaðist af fagurfræðilegu hlið skákarinnar sem kom fram í dálæti á skákdæmum af ýmsu tagi. En þeim stóð báðum stuggur af hinu árásargjarna eðli greinarinnar, eins og það var einhvers staðar orðað.
Sigurður sendi reglulega frá sér löng bréf til vina og vandamanna þar sem hann reyndi á sinn hátt að kryfja ýmis mál sem voru í brennidepli. Ég var á löngum lista móttakenda og einnig viðtakandi sérstæðra skákdæma þar sem rekja átti aftur á bak langa atburðarás og svo dæmi rökfræðilegs eðlis.
Ég heimsótti Sigurð og Artie tvisvar þar sem þau bjuggu í Belmont sem er úthverfi Boston. Í fyrra skiptið veturinn 1988 nýkominn frá Kanada. Hann tók á móti mér á flugvellinum, eftir á þræddum við götur Boston, hann sýndi mér vinnuaðstöðu sína við MIT og um kvöldið var slegið upp veislu á heimili þeirra Artie þar sem mættir voru námsmenn ýmsir úr háskólum borgarinnar.
Í síðara skiptið fórum við Sigurborg í heimsókn síðla sumars 2001 og bjuggum á heimili þeirra hjóna. Það var gaman að virða fyrir sér bóksafn Sigurðar. Efni sem varðaði „Amerísku öldina“ sem svo hefur verið kölluð var fyrirferðarmikið í hillum hans. Þá rifjaðist enn og aftur upp fyrir manni að þessi hógværi maður hafði átt samleið með ýmsum frægustu vísindamönnum Bandaríkjanna og kynntist mörgum þeirra persónulega.
Þó að Sigurður hafi búið í Bandaríkjunum í meira en 70 ár missti hann aldrei frábær tök sín á íslenskunni né menningu okkar. Enda kom hann reglulega til landsins ýmist einn eða með fjölskyldu sinni. Þó hann næði háum aldri var hann einhvern veginn alltaf ungur í anda. Að leiðarlokum fyllist maður þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þessum frábæra manni og fjölskyldu hans.
Helgi Ólafsson.
Orðið „áhugamaður“ er hversdagslegt en lumar á fegurri merkingu ef vel er að gáð: það þýðir – ætti að þýða – maður sem einkennist af áhuga. Ekki á einhverju tilteknu, heldur almennt og í grunninn, í hugarfarinu. Breiðvirkum áhuga sem getur af sér mannskilning, ræktarsemi og drifkraft. Mikil gæfa er að vera áhugamaður í þessari merkingu, og enn meiri að haldast slíkur út langa ævi.
Í því sem öðru er óhætt að taka sér Sigurð frænda til eftirbreytni. Allir samferðamenn vita að hann var hvers manns hugljúfi, óbilandi glaðlyndur og skemmtilegur, boðinn og búinn að gera öðrum gott. Óvenjulegast var þó – og eflaust rót alls hins – hvernig sindraði af honum einbeittur og glaðbeittur áhuginn: á viðmælandanum, á tónlist, á tölvum og tækni, á skák, á ljósmyndun, á öllu mannlegu. Jákvæður og smitandi.
Hin margvíslegu afrek hans í stærðfræði voru auðvitað knúin þessum áhuga, og eins kennslugáfan: hann gaf út rómaðar námsbækur og var framúrskarandi fyrirlesari („a superb lecturer“) eins og segir í minningarorðum stærðfræðideildar Massachusetts Institute of Technology, þar sem hann var prófessor í hálfa öld. En Sigurður ræddi fræðigrein sína bara af sömu gleði og allt hitt, við þá sem deildu því áhugasviði með honum. Hann var ekki því marki brenndur að hafa fagið sitt á heilanum. Þaðan af síður afrekin og metorðin; ef ég nefndi þau sneri hann talinu óðara að stærðfræðinni sjálfri, eða einhverju allt öðru. Hann var margviðurkenndur fræðimaður, í fremstu röð á heimsvísu. Þess háttar upphefð gerir sitt besta til að stíga fólki til höfuðs, en höfuð Sigurðar var bara alltaf upptekið við eitthvað áhugaverðara.
Gott upplag laðar að sér gott fólk, og Sigurður naut þeirrar gæfu að kvænast fádæma vel fyrir 66 árum. Þau Artie tóku mér eins og aldavini þegar ég hringdi einn daginn, ókunnugur drengur á leið í háskólanám, kynnti mig og sagðist vera í grenndinni, „og við erum víst frændur!“ Upp frá því var mér alltaf boðið heim þegar ég átti leið um Boston, í gistingu og mat, fjölskyldusamveru, píanósamspil, samkomu hjá kollegum hans í MIT – alltaf var mér tekið höndum tveim og látið líða eins og hreinasta happ væri að fá mig í heimsókn. Í þessu var ég ekkert sértilfelli. Þau tóku systur minni með kostum og kynjum þegar hún bjó í Boston, og herskarar Íslendinga sem þar hafa verið við nám eða störf hafa notið gestrisni þeirra, hjálpsemi og hlýju. Svona gerðu þau bara, sómahjónin í Belmont.
Fjölskyldan er samrýnd og Sigurður skilur eftir sig mikið skarð. En þau Artie höfðu sáð vel og uppskorið ríkulega. Börn þeirra og barnabörn, sem öll hafa erft þá gæfu að vera áhugamenn í þessum besta skilningi orðsins, bera nú missinn með henni. Ég votta þeim öllum dýpstu samúð, og hrósa með þeim happi að hafa notið langrar samfylgdar hans.
Við heiðrum minningu Sigurðar best með því að gera eins og hann: rækta eigin áhugasemi, virkja hana, gefa af henni, og skila henni áfram.
Gunnlaugur Þór Briem.
Fyrir tæpri hálfri öld kom ég í fyrsta sinn á heimili Sigurðar og Artie og barna þeirra Thors og Önnu Lóu. Heimsóknina bar brátt að, en stuttu seinna flutti ég til þeirra og árin sem í hönd fóru hafði ég þar ýmist fasta búsetu eða kom og fór eins og mér sýndist.
Mér fylgdi fyrirferð, alls konar hávaði, vinir og hófleg tillitssemi. Allt var þetta umborið og gott betur því eins og ekkert væri sjálfsagðara fagnaði fjölskyldan mér og bauð mig velkomna.
Mjög var gestkvæmt á heimilinu, mannfagnaðir og margs konar veisluhöld í hávegum. Gestir komu úr ólíkum áttum; rjóminn af stærðfræðingum veraldarinnar, nemendur Sigurðar og straumur af Íslendingum. Gamlir vinir og stúdentar sem oft þurftu aðstoðar við, stemningin gat minnt á sendiráð.
Í þessu líflega umhverfi var Sigurður í aðalhlutverki og Artie sá til þess með næmni sinni að hann fengi næði. Dagana sem hann ekki mætti í háskólann flýtti hann sér upp á loft, strax eftir morgunmat, þar sem hann hélt sig þar til kallað var á hann í mat. Vinnan var honum nautn og nauðsyn.
Eftir heilabrot allan liðlangan daginn fannst Sigurði gaman að spila á píanó, sem hann hafði kennt sér að mestu sjálfur á. Oft söng Artie með honum, en líka komu vinir með hljóðfæri til að músísera og þar á meðal fjölskylduviðhengi eins og ég.
Tónlist var alls ekki eina áhugamál Sigurðar, áhugamál hans og forvitni áttu sér fá takmörk eins og bókakostur heimilisins ber vitni um.
Kornungur heillaðist Sigurður af tölustöfum. Hann mundi eftir sér með tommustokk mælandi vegalengdir, innanstokksmuni, hvað sem fyrir bar innanhúss sem utan. Um líkt leyti borgaði pabbi hans honum fyrir að læra og flytja þýðingu Matthíasar Jochumssonar á kvæðinu um Þorgeir í Vík, öll 42 erindin.
Sigurður sem ég þekkti var ekki upptekinn af vegtyllum og verðlaunum sem honum hlotnuðust á langri ævi. Hann hafði gaman af alls konar vitleysu og fíflagangi, skellihló að aulabröndurum og klæddi sig í grímubúning væri þess óskað.
Margar fagrar veislur hef ég setið á Benton rd., seinast nú í haust þegar mér óvænt barst flugmiði og boð í 96 ára afmæli Sigurðar. Fyrir það verð ég alltaf þakklát eins og allt hitt sem ekki er hægt að telja upp.
Nokkrum dögum fyrir afmælið bað ég Sigurð að segja mér frá Lie-grúppunum, einu helsta viðfangsefni hans. Hann brá snöggt við, gamalkunnur glampi birtist í augunum og af þolinmæði byrjaði hann að útskýra og teiknaði svo fyrir mig mynd sem ég tók með heim og geymi vel.
Minni kæru Artie votta ég dýpstu samúð svo og fjölskyldunni allri. Þau voru lánsöm að fá að njóta samvista við svo óvenjulegan mann.
Laufey Sigurðardóttir.
Elsku Sigurður minn er látinn. Það er ekki oft á lífsleiðinni sem við rekumst á þvílíka öðlinga og góðmenni. Í einhverri móðurlandsást fyrir um 20 árum svaraði ég kalli hans í Íslendingahópnum hér í Boston til tónlistarfólks á svæðinu um að músísera með honum á Scandinavian Living Center á íslenskum viðburði þar. Þessu kalli svöruðum við Sigríður Freyja Ingimarsdóttir sem var hér það árið og úr varð að við hittumst reglulega heima hjá honum og Artie konunni hans, fiðluleikarinn, söngkonan og hann, fullkomlega sjálflærður píanóleikarinn. Það sem við Freyja nutum þess að koma til þeirra í Belmont, spila smá, rabba mikið, og alltaf var dýrindis kaffihlaðborð eftir æfingar. Þar með upphófust æfinga- og kaffiboðsstefnumót okkar Sigurðar sem vöruðu í nokkur ár, eða þangað til einhvern tímann eftir að ég eignaðist son minn og átti ekki eins auðveldlega heimangengt.
Sigurður og Artie eiginlega ættleiddu okkur David eiginmann minn og Óskar son okkar, og þær eru ótaldar jóla- og páskaheimsóknirnar með stórfjölskyldu þeirra sem við fengum að taka þátt í. Á síðari árum voru það börnin þeirra, þau Annie og Thor, sem tóku við gestgjafahlutverkinu og þar var alltaf glatt á hjalla með spilum, tónlist, miklum hlátri, og ótrúlegri gestrisni sem virðist allri fjölskyldunni í blóð borin. Alltaf vildi Sigurður fá að setjast niður við flygilinn og músísera með öllum tiltækum gestum, og það var sama hversu ryðguð ég var í spilafingrunum, gleði hans var ávallt ómæld og einlæg á þessum stundum. Allar þessar minningar sitja fast í mér, hlýja mér og verma, því kærleikurinn í þessari fjölskyldu er allt. Foreldrar mínir og systur fengu líka að kynnast gestrisni í heimboðum til Sigurðar og Artie þegar þau komu í heimsókn til mín hingað út, og fyrir það er ég þakklát.
Sigurður var alltaf okkar helsti stuðningsmaður þegar lífið var að stríða okkur, og það er ekki hægt að koma því í orð hvaða þýðingu það hafði fyrir okkur. Fyrir honum og Artie var það gjörsamlega eðlilegt að standa eins og klettar við bakið á okkur. Artie er annáluð fyrir gjafagáfu sína, og fyrir um 13 árum þegar við vorum að ganga í gegnum erfiða tíma gáfu þau okkur vaggandi sjómannakertastjaka með þeim orðum að sama hversu stórar bylgjur lífsins yrðu, þeirra von væri að ljósið héldist stöðugt og leiddi veginn í gegnum öldudalinn. Þau eru partur af því ljósi.
Eftir situr ást hans og umhyggja í beinum mínum, forðabúr fyrir lífið. Takk elsku Sigurður minn, þú varst kannski stærðfræðiséní, en fyrir mér varstu höfðingi kærleikans og holdgervingur alls hins góða í þessu lífi.
Íma Þöll Jónsdóttir.
Mig langar að minnast með nokkrum orðum kærs vinar, Sigurðar Helgasonar stærðfræðiprófessors við MIT (Sigga).
Við Siggi kynntumst sumarið 1987, ég þá nýkomin til Cambridge í Massachusetts til þess að setjast þar á skólabekk sem Nieman Fellow við Harvard-háskóla. Sigurður, sem þá um langa hríð hafði verið okkar fremsti og virtasti stærðfræðingur um víða veröld, var ekki lengi að hafa samband við mig eftir að ég var komin til Cambridge og bauð mér út í hádegisverð. Við urðum vinir á okkar fyrsta fundi, hann var svo hlýr, skemmtilegur og leiftrandi húmor hans kom mér strax til að skellihlæja og átti eftir að gera oft. Skemmtilegast þótti mér þegar Sigurður sagði skemmtisögur af nemendum sínum, sérstaklega kínverskum stærðfræðisnillingum sem voru í doktorsnámi hjá honum við MIT. Það virtist nefnilega oft vera þannig, að þrátt fyrir stærðfræðilega snilld þeirra kínversku virtist samkvæmt sagnabrunni Sigga sem gleymst hefði með öllu að úthluta þeim svo mikið sem snefli af kímigáfu! Við slíkar frásagnir fór Siggi á kostum.
Sigurður og hans yndislega kona Artie voru einstaklega elskuleg í garð íslenskra nemenda sem lagt höfðu í nám eða framhaldsnám í Boston og Cambridge. Þau opnuðu heimili sitt upp á gátt og þangað var gott að koma og njóta gestrisni þeirra hjóna. Þegar við Nieman Fellows höfum hist svona á fimm ára fresti eða svo í Harvard hef ég á ný notið þess að hitta Sigga og Artie og eins þegar þau hafa komið hingað heim.
Raunar höfum við Sigurður verið í góðu sambandi allar götur frá því ég var við Harvard, bæði með tölvubréfum og símtölum. Hann fylgdist ótrúlega vel með öllu sem hér var að gerast og spurði mig oft út í pólitíkina hér.
Ég kveð minn góða vin með þakklæti og virðingu og votta Artie og fjölskyldu mína innilegustu samúð.
Agnes Bragadóttir.
Með nokkrum orðum langar mig að minnast Sigurðar Helgasonar og þakka hans mikilvæga framlag til Háskóla Íslands og íslensks samfélags. Þótt Sigurður hafi verið búsettur í Bandaríkjunum um 70 ára skeið ræktaði hann alla tíð tengslin við Ísland og kom hingað til lands árlega. Lét Sigurður sterkar taugar sínar til upprunalandsins í ljós af miklu örlæti og færði m.a. Landsbókasafni-Háskólabókasafni og Raunvísindadeild HÍ bóka- og peningagjafir.
Sigurður hélt utan til Danmerkur árið 1946 og lagði þar stund á nám í stærðfræði eftir árs nám við Verkfræðideild Háskóla Íslands. Lauk hann mag. scient.-prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1952, en hann hafði unnið gullmedalíu skólans árið áður með því að leysa þungt verkefni með 50 blaðsíðna sönnun. Að loknu námi í Kaupmannahöfn fluttist Sigurður vestur um haf til frekara náms við Princeton-háskóla og lauk þaðan doktorsprófi í stærðfræði 1954. Sigurður starfaði síðan við Tækniháskóla Massachusetts (MIT), Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla á árunum 1954-1960, en sneri þá aftur til MIT og varð þar prófessor árið 1965. Hann kenndi við MIT allt til ársins 2014.
Sigurður Helgason átti einstaklega farsælan og glæsilegan feril sem kennari og fræðimaður og má fullyrða að hann hafi náð lengst allra íslenskra stærðfræðinga á alþjóðlegum vettvangi. Eftir hann liggur tugur bóka og fjölmargar greinar á sviði stærðfræði. Mér er minnisstætt er ég kom í bókabúð MIT í Cambridge fyrir mörgum árum og sá þar áberandi uppstillingu á bókum hans.
Sigurður var sannarlega glæsileg fyrirmynd íslensks vísindafólks og hlaut fjölda viðurkenninga á ferli sínum. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands 1986. Hlaut hann hin eftirsóttu Leroy P. Steele-verðlaun bandaríska stærðfræðifélagsins (AMS) árið 1998 og var kjörinn heiðursfélagi AMS 2008.
Það var einstakur heiður fyrir Háskóla Íslands að Sigurður ákvað að stofna Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors og leggja honum til veglegt stofnframlag árið 2017. Á grunni þess hafa æ síðan verið veittar viðurkenningar til nemenda sem standa sig vel í grunnnámi í stærðfræði við HÍ. Er það mikil viðurkenning og hvatning fyrir nemendur að hljóta verðlaun kennd við Sigurð. Háskóli Íslands kann honum miklar þakkir fyrir rausnarskap og hlýhug í garð skólans.
Blessuð sé minning Sigurðar Helgasonar.
Kveðja frá Háskóla Íslands,
Jón Atli Benediktsson rektor.
Sigurður Helgason stærðfræðingur er látinn, 96 ára gamall. Enginn þarf að móðgast, ef sagt er að Sigurður hafi verið mesti stærðfræðingur Íslands. Ekki er djúpt í árinni tekið að segja að margir stærðfræðingar séu sérstæðir menn, sumir jafnvel furðufuglar.
Þannig var Sigurður Helgason ekki.
Sigurður var stúdent frá Akureyri og sagðist hafa fengið stærðfræðiáhugann hjá dr. Trausta Einarssyni sem þekktastur var sem jarðfræðingur. Það var lán bæði stærðfræðinnar og Sigurðar að fundum þeirra Trausta bar saman, því hugur Sigurðar hneigðist strax til stærðfræðináms. Í stað þess að fara beint til Kaupmannahafnar, sem hann taldi bestan kost, var hann eitt ár í verkfræðideildinni við Háskóla Íslands.
Svo lá leiðin til Hafnar þar sem einn kennarinn var Harald Bohr, frægur stærðfræðingur, bróðir Níelsar Bohr, eðlisfræðingsins sem flestir þekkja væntanlega fyrir atómlíkanið fræga. Eftir tvö ár var tekið próf úr öllu námsefni fyrstu tveggja ára. Þegar Sigurður þreytti prófið var hann einn af sex sem náðu, af 27 sem reyndu við það.
Í framhaldsnáminu datt Sigurði í hug að fara í verðlaunaverkefni. Er skemmst frá því að segja að Sigurður fékk verðlaunapeninginn, 50 grömm úr gulli og 1.000 krónur danskar að auki.
Að loknu námi í Danmörku fór Sigurður á Fulbright-styrk til Princeton í Bandaríkjunum. Að loknu doktorsnámi kenndi hann við marga fræga háskóla í Bandaríkjunum og hefur eflaust getað valið úr stöðum, en svo fór að hann réði sig til MIT, sem er háskóli í fremstu röð í heiminum. Þar kynntist hann fljótlega John Nash, sem síðar fékk Nóbelsverðlaun í hagfræði og varð frægur af bókinni og síðar kvikmyndinni A beautiful Mind.
Ég kynntist Sigurði árið 1982 þegar ég kom sem ungur stærðfræðingur til Boston, en ég var þá í stöðu við Université de Montréal í Kanada. Nokkrum árum síðar kom ég með hóp af háskólanemum til Boston og Sigurður skipulagði heimsókn hópsins í tölvudeild MIT og bauð okkur svo öllum í heimsókn til sín og konu sinnar Artie. Í veislunni miðri kom hann með New York Times til þess að skoða með okkur stöðumynd úr einvígisskák Kasparovs og Karpovs.
Eftir hann liggja fjölmargar tímaritsgreinar og bækur um stærðfræðileg efni, sem kenndar eru í háskólum víða um heim.
Öðru hvoru hittumst við Sigurður á Íslandi. Hann mætti á skákmót í Hörpu árið 2006, mót sem Magnus Carlsen vann. Við skiptumst svo á tölvupóstum. Þegar ég leitaði að góðum bókum í heimsklassa benti hann mér á bókina En dag i oktober eftir norska höfundinn Sigurd Hoel og fleiri góðar bækur eftir sama höfund. Sigurður var ekki maður hávaxinn, hann var með hátt enni og góðlegt yfirbragð. Hann var alltaf til í að útskýra flókna hluti, en áttaði sig kannski ekki alltaf á því að viðmælandinn var sjaldnast jafningi hans á vísindasviðinu. Hann var sannarlega afreksmaður í stærðfræði, en aldrei steig frægðin honum til höfuðs, svo laus var hann við hroka. Hann var alltaf hjálplegur þeim sem til hans leituðu og gerði sitt til þess að efla stærðfræði á Íslandi. Minning hans mun lifa.
Benedikt Jóhannesson.
Árið 2000 höfðu Norðurlönd með sér samstarf til að minnast þess, að þúsund ár voru liðin frá landafundum norrænna manna í Ameríku. Helsti samstarfsaðilinn af hálfu Bandaríkjanna og Kanada voru þjóðminjasöfn landanna í Washington D.C. og Ottawa. Farandsýning var sett upp í sjö helstu borgum meginlandsins. Fornleifa- og sagnfræðingar skrifuðu fræðirit um þessa sögulegu atburði: „Vikings – the North-American Saga“ með formála eftir sjálfa forsetafrúna, Hillary Clinton. Sagan var kynnt í heimildamyndum, sem voru sýndar í sjónvarpi og efnt var til fyrirlestra í háskólum í báðum ríkjum.
Það kom í minn hlut sem sendiherra Íslands til Bandaríkjanna og Kanada að heimsækja 35 ríki Bandaríkjanna og margar borgir Kanada af þessu tilefni. Hápunktinum var náð með fyrirlestri undirritaðs í Cosmos-Club í Washington DC, en meðal meðlima hans voru á þeim tíma 88 Nóbelsverðlaunahafar í hinum ýmsu fræðigreinum. Að loknum fyrirlestri og umræðum var efnt til eftirminnilegrar veislu. Undirritaður sat þar við háborðið, umkringdur vísindamönnum og vitringum á báða vængi. Sessunautur minn reyndist vera prófessor í stærðfræði við einn af elítuháskólum Bandaríkjanna. Þar kom í samtölum okkar, að ég spurði: „Þekkið þér Sigurð Helgason, stærðfræðing við MIT?“
Það varð djúp þögn. Loks svaraði prófessorinn með festu: „Herra Helgason er ekki stærðfræðingur. Hann er með guðunum á Ólympstindi. Allt sem frá honum kemur er þýtt jafnóðum á rússnesku.“ Í framhaldinu útlistaði prófessorinn fyrir mér, á hvaða fræðasviðum innan stærðfræðinnar Sigurður væri þessi skapandi brautryðjandi, að vísindaheimurinn legði við hlustir jafnóðum. Allt var þetta mér sem opinberun, enda komu þarna við sögu andlegir afreksmenn, sem hafa skapað heimsmynd okkar, allt frá Einstein og Örsted til minni spámanna. Ætli Sigurður sé ekki sá vísindamaður íslenskur, sem hefur borið hróður lands og þjóðar víðast í heimi vísindanna?
Kynni okkar Sigurðar hófust á árunum 1976-77. Þá var ég vistaður skamma hríð sem Fulbright scholar við Harvard-háskóla í Boston, Massachusetts. Það er næsti bær við MIT, þar sem Sigurður gerði garðinn frægan. Mitt viðfangsefni var samanburður hagkerfa, þar sem ég naut einkum leiðsagnar austurevrópskra flóttamanna, sem vissu öðrum betur af eigin reynslu, hvernig ekki ætti að byggja upp og reka hagkerfi. Og ég komst brátt að því, að þar var ekki komið að tómum kofunum hjá Sigurði. Stærðfræði er jú aðferðafræði allra vísinda. Samtölin við Sigurð urðu til þess að dýpka mjög skilning minn á bandarísku þjóðfélagi og ástandi heimsins á kjarnorkuöld.
En hann var ekki aðeins andans jöfur. Hann var líka góður maður, sem lét sér annt um þá sem til hans leituðu eins og besti faðir.
Jón Baldvin
Hannibalsson.
Sigurður Helgason stærðfræðingur og prófessor við Massachusetts Institute of Technology í Boston var einn þekktasti fræðimaður Íslendinga á alþjóðavísu. Þrátt fyrir að hann hefði starfað að mestu erlendis var hann mikill Íslendingur og hélt ávallt góðu sambandi við háskólasamfélagið á Íslandi, vini og vandamenn. Hann gleymdi ekki að hann var frá Akureyri. Við áttum það sameiginlegt að vera stúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri og var honum tamt að spjalla um gamla bæinn sinn. Frá Brekkunni á Akureyri fór hann út í heim rúmlega tvítugur og á skömmum tíma var hann orðinn prófessor í einni af virtustu menntastofnunum í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það var hann hugljúfur og hógvær hversdagslega og gleymdi ekki rótum sínum.
Kona mín og ég kynntumst Sigurði og Artie Helgason, eftirlifandi eiginkonu hans, þegar við fórum til Boston í framhaldsnám árið 1970. Tókst með okkur vinskapur sem staðið hefur vel yfir fimmtíu ár. Þau hjónin höfðu uppi á íslenskum nemendum á Boston-svæðinu á hverju hausti og var oft fjölmennt í stofunni á Benton road. Má segja að Sigurður og Artie hafi verið óopinberir sendiherrar okkar Íslendinga sem höfðu sterk tengsl við fjölskyldurnar á Íslandi. Þegar Sigrún Pálsdóttir, systurdóttir Sigurðar, hélt honum samkvæmi í tilefni 90 ára afmælis hans var húsfyllir og kom þá í ljós að marga gestina hafði ég hitt löngu áður í stofunni hjá Sigurði og Artie Helgason í Boston.
Aðrir mér fróðari eru færari um að skrifa um stærðfræðinginn Sigurð Helgason. Ég hlustaði á erindi sem hann hélt á þingi sem Háskóli Íslands stóð fyrir í tilefni af 80 ára afmæli hans. Efni erindisins voru háfleygar stærðfræðikenningar og urðu þar fjörugar umræður á meðal þeirra stærðfræðinganna. En ekkert skildi ég og flaug í hug hvort slíkar kenningar kæmu einhvern tíma að hagnýtum notum. Rifjaðist þá upp fyrir mér jólasamkoma í Boston fyrir mörgum árum. Þannig var að árið 1979 hlutu þeir Godfrey Hounsfield og Allan Cormack Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir að hafa fundið upp sneiðmyndatökuvélina, eina mestu byltingu innan læknisfræðinnar. Skömmu seinna erum við í fjölskyldusamkvæmi hjá Sigurði sem með bros á vör dregur upp búnt af bréfum og sýnir okkur. Þar kom í ljós að Sigurður hafði birt stærðfræðigreinar sem reyndust mjög gagnlegar og höfðu annar hvor þeirra nóbelshafa eða báðir staðið í bréfaskriftum við Sigurð. Þessi uppfinning og stærðfræðin sem að baki liggur olli byltingu á fleiri sviðum. Meðal annars má rifja upp þessa sögu næst þegar farangurinn í lokuðum töskum er skoðaður á flugvellinum.
Þegar við kveðjum Sigurð, piltinn sem fór ungur af Brekkunni til að leggja undir sig heiminn, er vert að minnast eftirlifandi eiginkonu hans sem stóð við hlið hans og studdi í 66 ár. Þau voru einstaklega samhent og eins og áður segir létu Ísland og Íslendinga sig miklu varða. Við vottum Artie Helgason, börnum og barnabörnum samúð okkar hjóna og þökkum þeim samveruna.
Karl H. Proppé,
Elín Jafetsdóttir.
„Hafðu bara samband við hann Sigga Helga þegar þú kemur vestur,“ sagði frænka Höskuldar við hann þegar hann var að fara til náms í Cambridge í Bandaríkjunum haustið 1974 og þekkti engan þar. Höskuldur gerði það og þannig komumst við í tengsl við þá miðstöð Íslendinga á Boston-svæðinu sem heimili þeirra Sigurðar og Artie var. Þau buðu oft til Íslendingaveislu á hátíðisdögum, eins og 1. desember til dæmis, íslenskir námsmenn bjuggu stundum hjá þeim um lengri eða skemmri tíma þegar þannig stóð á, þau geymdu búslóðina okkar meðan við vorum að skipta um húsnæði vestra, héldu upp á doktorsprófin okkar með okkur o.s.frv. Við Íslendingarnir á svæðinu reyndum stundum að launa þeim vináttu og margvíslegan stuðning, til dæmis með því að efna til óvæntrar afmælisveislu heima hjá þeim eitt sinn þegar Sigurður átti stórafmæli. Þetta gerðum við í samvinnu við börn þeirra. Þau fóru með foreldra sína í nokkuð langa ökuferð í tilefni afmælisins, en á meðan laumuðumst við inn í húsið, undirbjuggum veisluna og leyndumst þar í myrkrinu þegar þau komu heim. Það var skemmtilegt.
Sigurður var þekktur vísindamaður á heimsmælikvarða, en áhugasvið hans var mjög vítt. Hann fylgdist til dæmis vel með öllu á Íslandi og fannst sumt framandlegt og skondið, enda hafði hann ekki búið á Íslandi á fullorðinsárum. „Hæ, Stína stuð, halló Kalli og Bimbó,“ sönglaði hann stundum, nýkominn vestur úr Íslandsheimsókn, og skemmti sér vel við lag og texta þótt hann léki annars bara klassíska tónlist á flygilinn sinn. Hann lét sér annt um Háskóla Íslands og studdi hann á ýmsa lund, en hann var ekki bara hrifinn af Þjóðarbókhlöðunni heldur líka af Kringlunni.
Við viljum nota þetta tækifæri til að þakka Sigurði og fjölskyldu hans áratugalanga vináttu um leið og við sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.
Höskuldur Þráinsson og Sigríður Magnúsdóttir.
Fyrir um það bil þremur áratugum – nokkrum árum áður en ég kynntist Sigurði Helgasyni – heyrði ég þá einkennilegu fullyrðingu að tveir plús tveir væru ekki nákvæmlega fjórir, heldur þrír komma níu eitthvað. Mér fannst eitthvað ljóðrænt og heillandi við þessa hugmynd, og þótt skynsemin segði mér að tveir plús tveir væru fjórir kaus ég að halda hinum möguleikanum opnum. Enda felst fegurðin mjög oft í því sem ekki stenst skoðun.
Fyrir þrjátíu árum þekkti ég engan stærðfræðing persónulega, fyrir utan kynni mín af kennurum á námsferlinum – ferli sem einkenndist m.a. af gleðilausri baráttu við stærðfræðina. En svo kynntist ég Sigurði Helgasyni, móðurbróður eiginkonu minnar Sigrúnar, og sannfærðist um að í faginu hlyti að felast fegurð og gleði – og skáldskapur. Allt það sem ég skynjaði í nálægð Sigga. Í einni af fyrstu heimsóknum okkar til þeirra Artie í Belmont ákvað ég – í gríni – að gera að umtalsefni áðurnefnt reikningsdæmi; mig langaði til að heyra álit hins merka stærðfræðings á hinni hæpnu útkomu. Það tók mig svolítinn tíma að safna kjarki, enda var ég framan af kynnum okkar hálffeiminn gagnvart Sigga. En sá ótti var ástæðulaus. Ég man að honum fannst þetta kómískt og áhugavert; en nei, tveir plús tveir væru fjórir. Og ég sannfærðist um að sú óhagganlega niðurstaða væri ekki síður falleg en hin ranga, því fegurðin býr ekki bara í því órökrétta, heldur einnig í vísindalegri nákvæmni, og tækni og formi listarinnar, ekki síst klassískrar tónlistar; þeirrar listar sem Siggi leyfði okkur svo oft að njóta með sér þegar hann settist við píanóið, hvort sem var á hinu hlýlega heimili þeirra Artie á Benton Road eða í fríi með allri fjölskyldu þeirra í Suður-Frakklandi.
Á meðan ég skrifa þetta finnst mér eins og ég sé staddur í borðstofunni á Benton Road. Siggi situr við enda borðsins, við erum að drekka hestaskál áður en við Sigrún og dóttir okkar Líba fljúgum aftur til Íslands eftir vikudvöl í Belmont. Við tölum um Nonnabækurnar, um Mývatnssveit og Akureyri, og íslenska pólitík; um Saul Bellow – sem þau Artie hittu einhvern tíma í samkvæmi fyrir löngu; ég komst að því þegar ég tók úr hillunum þeirra eina af bókum Bellows, mína uppáhalds eftir höfundinn – og í framhaldi af því hneykslumst við á hnignun bandarískra stjórnmála. Færum okkur síðan yfir í setustofuna, en komum við í píanóherberginu, þar sem Siggi spilar Chopin eða Beethoven. Eða lag Magnúsar Blöndal, Sveitin milli sanda. Siggi bar djúpa virðingu fyrir íslenskri menningu og list.
Með kynnum mínum við þau Artie, og alla fjölskylduna, má segja að opnast hafi ný vídd í huga mínum, sem mér finnst núna óhugsandi að ég hefði aldrei upplifað. Þau eru „hin“ fjölskyldan mín, að vísu stödd „on the other side of the pond“, en alltaf nálæg. Nokkrum dögum áður en Siggi lést settist hann við píanóið – ég heyri fyrir mér eitthvert stutt og fallegt lag í lok langrar og góðrar ævi. Svo lagði hann lokið yfir nóturnar. En þögnin er ekki síður falleg; hún felur í sér það sem áður hljómaði.
Bragi Ólafsson.
Langri og farsælli lífsgöngu er lokið. Minning Sigurðar Helgasonar lifir í huga margra íslenskra námsmanna í Boston og hver og einn hefur sína sögu að segja. Ég kveð hann með þökkum og örfáum minningum frá einu hausti af þeim mörgu sem spanna samanlagt árin frá 1946, þegar leiðir þeirra föður míns lágu saman, og allt til 2023 þegar hann lést.
„Siggi is the best export of Iceland,“ sagði Artie Gianopulos Helgason, eiginkona Sigga, á fimmtugsafmælinu hans 30. september 1977 sem Siggi kallaði „gilli“ upp á danska mátann. Íslensku námsmennirnir fimm stungu svolítið í stúf meðal boðsgesta, en juku á fjölbreytnina og lækkuðu meðalaldurinn. Aðrir boðsgestir voru flestir stærðfræðiprófessorar frá frægum háskólum, gamlir vinir frá doktorsnáminu við Princeton-háskóla 1953-1954. Fimm borðræður voru haldnar, allar vel fluttar og efnismiklar, þótt við landarnir tengdum ekki alveg við þær. Ræðurnar fjölluðu nefnilega um stærðfræðinginn Sigga, en við þekktum bara manninn – ekki séníið.
Maðurinn, Sigurður Helgason, Siggi okkar allra, var í einu orði sagt yndislegur. Lifði sig inn í fjölbreytt viðfangsefni okkar landanna í Boston, þótt við vissum ekkert um stærðfræðina hans. Ég fékk Sigga í dýrmætan föðurarf. Þeir faðir minn, Ármann, urðu sem fóstbræður eftir nám við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1946-1947. Báðir voru norðanstúdentar, annar húmanisti með raunvísindaáhuga og hinn raunvísindamaður með áhuga á „humaniora“. Þeir smullu saman og hver einasta Íslandsferð þeirra Sigga og Artie varð tilefni endurfunda.
Siggi gleymdi engu, í síðustu afmæliskveðjunni til mín í fyrra spurði hann hvort ég myndi eftir flugferðinni okkar til Boston 1977 þegar við sungum saman alla leiðina úr sönghefti MR, Tummakukku. Að söngferðinni lokinni var það auðvitað Artie sem bauð mig velkomna til síns heimalands – enn einn Íslendingurinn kominn í hennar stóra faðm. Við tóku dýrðardagar hjá þeim í Belmont áður en skólinn minn, Fletcher School of Law and Diplomacy, byrjaði. Börnin þeirra, Thor og Anna Lóa, voru þá 15 ára og 10 ára, sprellfjörug og skemmtileg. Siggi vann sína stærðfræði uppi á háalofti eða risi – kom svo niður í bókastofuna og lék á flygilinn, fór með íslensk ljóð og gantaðist við okkur. Siggi og Artie eru á hverri blaðsíðu í bréfunum heim.
Haustið leið og komið að Þorláksmessu 1977 og fram undan jól hjá fjölskyldunni. Strætóferð milli borgarhverfa í Boston, hlaðin farangri; margra mánaða skammti af íslenskum dagblöðum til að gleðja.
Í minningunni eru þessi jól eins og maðurinn Siggi í hnotskurn. Spannaði öll skilningarvitin og óendanleikann í áhugasviði mannsins. Gefandi samræður, kátína, snarkið í arninum, ilmurinn af jólaglöggi og hangikjöti og tónum sem bárust frá flyglinum. Siggi lék íslensku Fjárlögin, sænsku Gluntana, norræn og bandarísk jólalög. Á kveðjustund minnist ég þess hve djúpt ég var snortin þegar hann lék „Faðir andanna“.
Blessuð sé minning Sigurðar Helgasonar. Hugur okkar er hjá Artie og fjölskyldu.
Sigríður Ásdís Snævarr.
Þegar ég kom til náms við MIT í Cambridge Mass haustið 1963 hafði ég heyrt margar góðar umsagnir um íslenskan afburðastærðfræðing, Sigurð Helgason, sem gegndi prófessorsstöðu við þennan ágæta háskóla. Jafnframt fylgdi það sögunni að hann væri hvers manns hugljúfi og mikill áhugamaður um málefni gamla landsins. Það lá því fyrir að reyna að ná tali af þessum ágæta landa við heppilegt tækifæri.
Áhyggjur af því hvernig best væri að ná sambandi við Sigurð reyndust þó óþarfar. Kvöld eitt í september 1963 var sá sem þetta ritar staddur á Harvard Square og spjallaði við bekkjarbróður úr MR, Þorstein Gylfason síðar prófessor í heimspeki. Þá gekk unglegur maður og kvikur í hreyfingum fram hjá okkur. Hann stöðvaðist þó skyndilega og sneri sér við þegar hann heyrði að þarna væru Íslendingar á staðnum. Gott spjall á þessum krossgötum við Harvard-háskóla varð upphaf að meira en sex áratuga vináttu. Í framhaldinu varð að venju að koma við á skrifstofu Sigurðar í hinni virðulegu byggingu 10 á MIT, þar sem hátt var til lofts og óviðjafnanlegt útsýni yfir grænar grasflatir með fallegum trjám, sprækum íkornum og Charles River og Prudential Tower í baksýn.
Spjallfundir okkar Sigurðar snerust mest um íslensk málefni, sem hann hafði nær takmarkalausan áhuga á að fylgjast með. Sérstaklega er mér þó einn fundur okkar minnisstæður þegar hörmulegar fréttir um morðið á John F. Kennedy bárust um miðjan dag þann 22. nóvember þetta ár. Hélt ég þá beint á skrifstofu Sigurðar þar sem aðeins eitt umræðuefni komst að.
Síðar, eftir að Anna konan mín og dóttir okkar komu til Cambridge, urðu samskiptin með öðrum hætti. Var þá ánægjulegt að kynnast betur Artie konu Sigurðar og börnum þeirra Thor og Annie. Þegar þau fluttu til Belmont varð heimili Sigurðar og Artie vettvangur þar sem íslenskir háskólanemar, sem fór hægt fjölgandi í Boston á þessum árum, komu gjarnan í heimboð, sem þau hjónin héldu af margs konar tilefni. Ekki er ofmælt að Sigurður hafi á þessum árum í raun verið kjörræðismaður Íslands í Boston, sem hefði verið maklegt að viðurkenna með formlegum hætti.
Þau sæmdarhjón, Artie og Siggi, áttu síðar eftir að verða miklar hjálparhellur fyrir Sigrúnu dóttur okkar og Þór Heiðar mann hennar þegar þau komu til framhaldsnáms í Boston í lok níunda áratugarins. Gestrisni þeirra og umhyggja verður seint fullþökkuð. Ekki sakaði að Sigurður og Sigrún nutu þess að músísera saman, en Sigurður var frábær píanisti og mikill áhugamaður um klassíska tónlist. Var ánægjulegt að heyra að hann hélt uppteknum hætti að spila á píanóið nánast fram á síðasta dag.
Frábær einstaklingur og mikill Íslendingur er fallinn frá eftir langa og hamingjuríka ævi. Hans verður lengi minnst af stórum vinahópi sem naut samvista við hann og Artie bæði í Nýja Englandi og þegar þau komu til lengri og styttri dvalar í notalegri íbúð sinni á Ægisíðunni. Við vottum Artie og fjölskyldunni innilega samúð á þessum erfiðu tímamótum.
Þorgeir og Anna.
Sigurður Helgason er látinn 96 ára að aldri. Að baki er einstaklega glæsilegur æviferill í rannsóknum og kennslu í stærðfræði. Sigurður var í fremstu röð stærðfræðinga í veröldinni og hann er án efa einn allra fremsti vísindamaður sem Íslendingar hafa átt, í mínum augum sá fremsti.
Ég hitti Sigurð á námsárum mínum 1974-78 við HÍ en kynni okkar hófust ekki fyrr en ég kom til starfa við Raunvísindastofnun Háskólans árið 1986. Þótt Sigurður byggi í útlöndum frá tvítugsaldri, fyrst í Danmörku og síðar í Bandaríkjunum, þá hélt hann alltaf góðu sambandi við vini og ættingja. Hann kom til Íslands á hverju ári, stundum oft á ári, því hann nýtti sér tækifæri til þess að stoppa hér, þegar hann átti erindi á ráðstefnur og aðra viðburði í Evrópu. Hann leit þá jafnan við hjá okkur á Raunvísindastofnun og spjallaði við okkur. Honum var mjög annt um námsbraut í stærðfræði við HÍ og Íslenska stærðfræðafélagið.
Áhugasvið okkar í stærðfræðinni sköruðust mikið, því við vorum báðir nemendur úr norræna skólanum í stærðfræðigreiningu, sem svo er nefndur, hann frá Kaupmannahöfn en ég frá Lundi, en þetta fræðasvið hefur alla tíð verið mjög sterkt á Norðurlöndunum öllum. Við skrifuðumst á reglulega í 37 ár eða þar um bil og voru öll samskipti mín við hann mér til mikillar gæfu.
Feril Sigurður er ekki hægt að rekja í stuttri grein. Hann hafði mikinn áhuga á rúmfræði frá unglingsárum og hann mat verk Ólafs Daníelssonar mjög mikils og sagði jafnan að hann hefði verið fyrirmynd sín í stærðfræði. Eftir stúdentsprófið frá MA 1945 las Sigurður stærðfræði- og eðlisfræðinámskeiðin með verkfræðinemum við HÍ veturinn 1945-46, en hélt síðan til Kaupmannahafnar haustið 1946 og settist þá inn á annað námsár. Trausti Einarsson kveikti áhuga Sigurðar á stærðfræði í MA og kenndi honum svo aftur í HÍ ásamt Leifi Ásgeirssyni við HÍ. Þessa tvo kennara sína mat hann mikils. Sigurður er þekktastur fyrir bækur sínar, en þær eru 11 talsins, gefnar út á hálfrar aldrar bili, 1962-2011, en hann á einnig margar og miklar ritgerðir sem birtar eru í fremstu stærðfræðitímaritum heims.
Íslenska stærðfræðafélagið var stofnað á sjötugsafmæli Ólafs Daníelssonar árið 1947 og gerðist Sigurður síðar félagi. Hann var ætíð tilbúinn að leggja félaginu lið og var gerður heiðursfélagi á sjötugsafmæli sínu árið 1997. Hann var fimm sinnum aðalfyrirlesari á norrænum stærðfræðingaþingum 1968-2005 tilnefndur af félaginu. Hann hélt ótal fyrirlestra á fundum félagsins og í málstofu í stærðfræði við HÍ. Ekkert verkefni var of smátt fyrir Sigurð og hann tók allri tilleitan ljúfmannlega. Mér er til efs að stærðfræðingar af hans styrk úti í hinni stóru veröld ljái máls á því að skrifa greinar í fréttabréf
stærðfræðafélaga og nemendablöð stærðfræði- og eðlisfræðinema. Sigurður færði Háskólabókasafni rausnarlegar gjafir og stofnaði verðlaunasjóð, sem veitir árlega verðlaun til stærðfræðinema við HÍ fyrir framúrskarandi árangur.
Íslenska stærðfræðingasamfélagið í öllum skólum landsins á Sigurði
Helgasyni mikið að þakka. Megi minning hans lifa!
Ragnar
Sigurðsson.