Fatnaður Falsaðar vörur finnast í verslunum en netið er að taka yfir þessa sölu eins og víðar. Líklega er tap samfélaga mun meira en tölur segja.
Fatnaður Falsaðar vörur finnast í verslunum en netið er að taka yfir þessa sölu eins og víðar. Líklega er tap samfélaga mun meira en tölur segja. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er afar freistandi að sleppa því að kaupa handtösku eftir frægan hönnuð á hundruð þúsunda króna og fá sér kannski aðra, sem lítur eiginlega alveg eins út, en kostar brot af upphæðinni. Síðan er líka hægt að fá nýjustu hönnun þekktra tískuhönnuða …

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það er afar freistandi að sleppa því að kaupa handtösku eftir frægan hönnuð á hundruð þúsunda króna og fá sér kannski aðra, sem lítur eiginlega alveg eins út, en kostar brot af upphæðinni. Síðan er líka hægt að fá nýjustu hönnun þekktra tískuhönnuða eða stórra vörumerkja á slikk ef maður kaupir gerviútgáfuna. En þessar ódýru fölsuðu vörur kosta samfélagið, hönnuðina og fyrirtækin sem framleiddu vöruna ómældar fjárhæðir.

2.400 milljarðar

Hugverkastofa Evrópusambandsins (EUIPO) birti á þriðjudaginn skýrslu um áhrif fjárhagsleg áhrif falsaðra vara í Evrópu, þar sem sjónum var beint að fatnaði, barnaleikföngum og snyrtivörum á árunum 2018-2021. Þar kemur fram að fölsuð föt, leikföng og snyrtivörur kosti Evrópu a.m.k. 16 milljarða evra að meðaltali árlega, jafnvirði 2.400 milljarða króna. Langmesta tapið er af fötum og sagði talsmaður skrifstofunnar að þar væri tapið 12 milljarðar evra árlega sem væri um 5,2% af heildarsölu fatnaðar í álfunni á ári.

Margir sáttir við eftirlíkingar

Í skýrslunni kemur fram að eins og með annað ólöglegt athæfi væri erfitt að fá nákvæmar tölur, en námundun upphæða væri gerð út frá þeim falsvarningi sem lögregla legði hald á auk kannana meðal neytenda um kaup þeirra á téðum vörum. Í slíkri könnun frá því í júní í fyrra kom í ljós að þriðjungi neytenda fannst í lagi að kaupa falsaðar vörur, ekki síst ef það væri mun ódýrara en frumgerðin. Meðal yngra fólks hækkaði þessi tala í 50%. Sú tala veit ekki á gott fyrir evrópska framleiðendur, en í skýrslunni kemur fram að t.d. í Þýskalandi tapist yfir 40 þúsund störf vegna eftirlíkinga á markaðnum.

Krefjast svara frá netrisunum

Framleiðsla eftirlíkinga er ört vaxandi markaður sem virðir hugverkarétt að vettugi. Góðir hönnuðir hagnast minna á sínu starfi því eftirlíkingar af hugverkum þeirra flæða inn á markaðinn. Þá er ekkert eftirlit haft með gæðum vörunnar og engin trygging fyrir neytendur um að vörur standist eftirvæntingar.

Evrópusambandið hefur skorið upp herör gegn eftirlíkingum og alls kyns falsi á netinu. Þar hefur kínverski netrisinn AliExpress verið til rannsóknar um nokkra hríð og í nóvember sendu þeir fyrirspurn til að kanna hvernig fyrirtækið hygðist verja viðskiptavini sína gegn fölsuðum varningi, þar með talið fölskum lyfjum, sem gætu beinlínis verið hættuleg neytendum.

17 fyrirtæki í sigtinu

Framkvæmdastjórn ESB tilkynnti á fimmtudaginn að kallað hefði verið eftir upplýsingum frá 17 tæknifyrirtækjum sem hafa ráðandi stöðu á markaðnum, samkvæmt lögum sambandsins um stafræna þjónustu (DSA). Þar voru m.a. netrisarnir AliExpress, Amazon, Apple, Booking.com, Meta, Google, Microsoft, LinkedIn, Bing, Snapchat og Tiktok.

Gefinn er frestur til 9. febrúar næstkomandi að skila upplýsingum, en markaðstorg geta verið gerð ábyrg fyrir tjóni af vörum sem notendur vefsvæðisins verða fyrir ef vörurnar eru ekki í samræmi við eðlilegar kröfur, eða beinlínis hættulegar.

Hvernig það muni ganga er eftir að koma í ljós, en ljóst er að vandamálið er umfangsmikið og þyrnir í augum allra höfunda hugverka og framleiðenda og samfélaga sem tapa miklum fjármunum vegna falsana.

Eftirlíkingar lyfja

Varað við fölsuðu lyfi

Það eru ekki bara föt sem eru fölsuð. Sykursýkislyfið Ozempic hefur verið gríðarlega vinsælt, en lyfið er enn einkaleyfisvarið hjá danska fyrirtækinu Novo Nordisk. Evrópusambandið varaði við því í vikunni að eftirlíking af lyfinu gengi nú kaupum og sölum í Evrópu.

Lyfið er ætlað sjúklingum með sykursýki 2, en það hefur reynst vel við þyngdarstjórnun sem skýrir miklar vinsældir lyfsins. Eftirlíkingin er talin koma frá framleiðendum í Austurríki og Þýskalandi og er merkt á þýsku. Lögregla í samvinnu við ESB rannsakar nú málið.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir