Fannar Jónasson
Fannar Jónasson
„Það eru gleðileg tíðindi að maður sem á ættir að rekja til svæðisins og þekkir þar vel til skuli hugsa hlýtt til átthaganna

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það eru gleðileg tíðindi að maður sem á ættir að rekja til svæðisins og þekkir þar vel til skuli hugsa hlýtt til átthaganna. Það er ánægjulegt á þessum tímum að fá svo jákvæða sýn,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík.

Fannar vísar til viðtals Morgunblaðsins í gær við Ómar Smára Ármannsson, fornleifafræðing og fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjón, sem kvaðst hafa hug á að sækja um lóð til nýbyggingar í óskiptu landi Þórkötlustaða í nágrenni Grindavíkur.

Ómar Smári er fæddur í næsta nágrenni við Þórkötlustaði og hefur í seinni tíð rannsakað sögu svæðisins náið. Fannar segir að heimasíðan Ferlir.is, sem Ómar Smári hefur haldið úti, sé stórmerkileg.

Bæjarstjórinn segir að síðustu ár hafi uppbygging verið í svokölluðu Hlíðahverfi en Þórkötlustaðahverfið hafi legið óhreyft. Hann segir að umrætt land sé í eigu nokkurra aðila og Grindavíkurbær eigi fjórðung þess. „Þetta er í hekturum mjög stórt land, að mestu leyti hraun sem teygir sig í átt að mörkum sveitarfélagsins Voga. Þórkötlustaðahverfið er mjög sérstakt og nýtur ákveðinnar verndar. Það eru þarna lóðir sem hægt væri að byggja á en samkvæmt byggingarskilmálum yrðu það að vera hús í svipuðum anda og eru þar fyrir.“

Erfitt að sjá fram á veginn

Fannar segir að erfitt sé að segja til um framtíðaruppbyggingu í og við Grindavík. Óbyggðar lóðir séu enn í Hlíðahverfi og sumum þeirra hafi verið skilað aftur. En er raunhæft að Ómar Smári fái að byggja?

„Það er alveg jafn raunhæft eða óraunhæft og að byggja í bænum. Við getum lítið sagt um framtíðina. Það verður bara að koma í ljós hvernig til tekst með enduruppbyggingu.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon