Arndís Hauksdóttir
Arndís Hauksdóttir
Nú hefur tekið við borgarstjórastólnum maður sem komst þangað vegna þess að hann boðaði breytingar á stjórnarháttum borgarinnar. Þær breytingar hafa ekki sést enn, en lengi má vona.

Arndís Hauksdóttir

Dagur B. Eggertsson lætur nú af völdum. Mikill fögnuður hefur heltekið borgina og er haldin veisla eftir veislu. Ekki duga færri en þrjár veislur með ágætum viðurgerningi til að fagna. Menn og konur mæra hinn mikla mann með ræðum og tölum um ágæti stjórnarhátta hans í gegnum árin. Vafalítið (án þess að ég viti það) verður hann leystur út með góðum gjöfum. Sjálfur er hinn fráfarandi borgarstjóri harla ánægður með sig og sín störf. Telur sig skila af sér góðu búi. Ítrekað birtist yfirlit yfir fáránlegar skuldir Reykjavíkur sem komið hafa til í setu þessa manns í borgarstjórastólnum. Svo staðhæfingar hans um gott bú eru undarlegar. Trúlega fer hrollur um margan manninn við tilhugsunina um að nú stefni borgarstjórinn fyrrverandi í landsmálin.

En á meðan hann og viðhlæjendur hans fagna sitja þeir sem neyðast til að reiða sig á þjónustu borgarinnar eftir með sárt ennið. Flestir vita hvernig leikskólamálum er háttað hjá borginni. Langir biðlistar og það nýjasta er að stytta viðveru barnanna. Á Íslandi verða báðir foreldrar að vinna til að eiga í sig og á. Og Guð hjálpi einstæðum foreldrum.

Eitt síðasta embættisverk Dags var að skera niður hjá félagsþjónustu borgarinnar og minnka innlit til veikra og aldraðra. Þrif hjá þeim sem geta það ekki sjálfir voru skorin niður í eitt skipti í mánuði (var tvisvar). Fólk sem er búið að skila 50 ára starfsævi má nú sitja í skítnum. Alzheimersjúklingar sem ekki fá pláss á dagdeildum fá aukna þjónustu þeirra er áður voru í þrifum. Er ekki gott að þeir fái meiri þjónustu? Vissulega. En það er á annarra kostnað. Og vegna vöntunar á dagdeildum. Það er undarlegt að heyra fráfarandi stjórann hrósa sér af aukinni þjónustu við hóp sem hann hefur fært frá öðrum. Sannarlega er ekki við starfsfólkið hjá félagsþjónustunni að sakast. Þeim er gert að vinna við aðstæður sem sífellt verða erfiðari. Og þau eiga þakkir skildar fyrir að reyna að veita eins góða þjónustu og þeim er unnt. En það sjá það allir að með sífelldum niðurskurði gengur það ekki til lengdar.

Sorpmálin eru sérkafli. Nú hefur tekið við borgarstjórastólnum maður sem komst þangað vegna þess að hann boðaði breytingar á stjórnarháttum borgarinnar. Þær breytingar hafa ekki sést enn, en lengi má vona. Nú bíð ég spennt eftir að kynna mér verk hins nýja borgarstjóra. Munu borgarbúar líta bjartari (og hreinni) daga – eða ekki?

Höfundur er pastor emerítus.

Höf.: Arndís Hauksdóttir