Halla Sólveig Sigurgeirsdóttir fæddist 31. mars 1959. Hún lést 15. desember 2023. Halla Sólveig var jarðsungin 29. desember 2023.

Elsku Solla mín.
Það var líklega óraunhæft að ímynda sér að ég myndi aldrei þurfa að kveðja þig. Sumir eru bara eilífir í okkar huga og þú varst ein af þeim fyrir mér.

Þú varst ómetanlegur og mikilvægur hluti af minni barnæsku. Mér leið svo vel heima hjá þér og Val og börnunum ykkar. Eltandi Ingu Lind með stjörnur í augunum. Ég á svo skýra mynd af þér segja að þú værir náttúrlega „hin mamma mín“, skælbrosandi. Enda alveg eins og mamma í rauninni, þið með ykkar fallega suðræna útlit sem ég skil ekki enn hvaðan kemur.

Þú varst svo mikil fjölskyldukona og samband þitt og Vals var svo fallegt og hreint. Ástin á börnum þínum og barnabörnum fór ekki fram hjá neinum. Þótt þú ættir líklega nóg með börnin þín fjögur þá passaðir þú samt upp á alla aðra líka.

Tárin hafa verið óteljandi síðustu daga en það er auðvelt að brosa þegar ég rifja upp skemmtilegar minningar. Þegar við fórum til Spánar árið 2009 í tilefni af afmæli ömmu er ein af mínum uppáhaldsminningum. Það var svo gaman hjá okkur.

Þá var svínaflensan nýkomin til og þú eltir mig með sótthreinsandi sprey um allar trissur. Spurðir hvernig mér dytti í hug að snerta handfangið á rúllustigum og í lyftum. Allt skælbrosandi. Eins og þú varst alltaf, fyndin og stutt í grínið, þótt þér væri alvara. Svo umhugað um velferð fólksins þíns alla tíð.

Ég fór svo til Tenerife fyrir tveimur árum þegar covid var enn að plaga okkur. Ég sagði þér að ég vissi ekki alveg hvernig öryggisráðstafanirnar væru fyrst þú værir ekki með. Smá í gríni, smá í alvöru.

Þú sagðir mér að passa mig á tómatsósuflöskum og matseðlum. Einhverjir hefðu kannski bent á að vera ekki ein í húsasundum seint um kvöld – en nei, í þínum augum voru tómatsósan og matseðillinn það sem ég þurfti að spá í. Og ég spurði þig hvernig ég ætti að gera þetta án þín, og ég meinti það.

Elsku Solla mín, það var svo gaman að geta hlegið með þér og að þér og þér fannst það aldrei vandamál. Mér hlýnaði alltaf að sjá þig og vita til þess að þú passaðir upp á mig. Ég hefði ekki getað beðið um betri móðursystur og ég hugsa til þín með svo mikilli hlýju.

Þakklætið fyrir samfylgdina situr eftir. Þakklætið fyrir að fá að vera hluti af þínu lífi. Fyrir að fá að vera undir þínum verndarvæng. Ég efast ekki í stundarkorn um það að þú sért enn með okkur; börnunum þínum, Val, systkinum og öllum sem þótti svo vænt um þig.

Takk fyrir samfylgdina Solla mín. Takk fyrir allt sem þú gafst og varst börnunum þínum, Val og fjölskyldunni allri. Ég veit að við hittumst aftur, ég hef aldrei verið jafn fullviss um neitt.

Eva Björk
Benediktsdóttir.