Sandra Björg Helgadóttir veit hvað hún syngur þegar kemur að markmiðum, hreyfingu og mataræði.
Sandra Björg Helgadóttir veit hvað hún syngur þegar kemur að markmiðum, hreyfingu og mataræði.
Við eigum það svo til að fara út í öfgar, hvort sem það er í hreyfingu eða mataræði. Litlu skrefin eru dýrmætust.

Sandra er hámenntuð ung kona með skýr markmið, en eftir verkfræðinám hér heima og meistaranám í viðskiptum í Los Angeles er hún flutt heim og nýtir nú krafta sína á ýmsum vettvangi. Þegar hún er ekki að sinna dagvinnunni í markaðsmálum og vörugreiningu hjá Rammagerðinni er hún að kenna fólki barre, dansa á Tina Turner-sýningum og kenna markmiðasetningu hjá Kvan. Sandra heldur einnig úti heimasíðunni absolutetraining.is þar sem hún býður upp á netnámskeið fyrir líkama og sál.

Missti aðeins tökin

Sandra mætti í vikunni í Dagmálsmyndver Árvakurs til að spjalla um heilsu, hreyfingu og markmiðasetningu, en þátturinn verður opinn áskrifendum mánudagsmorguninn 22. janúar.

Hreyfing og heilsa er nokkuð sem Sandra hefur haft áhuga á frá unglingsárum.

„Í grunnskóla féll ég fyrir dansi og er það mín ástríða. Þegar ég fór í Versló fann ég að ég missti aðeins tökin á heilsunni; ég verð að viðurkenna það. Ég fór svolítið í djammið og skyndibitann,“ segir hún og hlær.

„Ég fór að finna að það hafði ekki góð áhrif á mig og langaði að vera í góðu formi og hraust; sérstaklega fyrir dansinn, þannig að ég tók aftur stöðuna eftir fyrsta árið í Versló og setti mér mjög skýr markmið hvað varðar heilsu,“ segir Sandra og segist hafa farið í einkaþjálfun þar sem hún lærði margt um hreyfingu og mataræði.

„Ég hef stundað það markvisst síðan. Ég fæ oft æði fyrir einhverju og fer djúpt í það og svo tekur eitthvað annað við.“

Sandra hefur sýnt víða um land á vinsælum Tina Turner-sýningum, en byrjað var á sýningum árið 2015 og eru þær enn í gangi af og til.

„Ég mun dansa svo lengi sem einhver vill horfa! Og eftir það mun ég dansa heima í stofu.“

Með æði fyrir barre

Absolute training er hugarfóstur Söndru en þar býður hún upp á æfingakerfi fyrir andlega og líkamlega þjálfun.

„Barre er æðið mitt núna en á undan því var ég að sinna Absolute training. Svo flutti ég til Los Angeles þar sem ég stundaði nám en LA er frábær staður til að stunda hreyfingu, enda alltaf gott veður. Þar kynntist ég barre-tímum, en barre á sinn uppruna í ballett og þaðan kemur nafnið,“ segir Sandra og nefnir að oft er notuð stöng í æfingum sem sé þó alls ekki nauðsynleg.

„Í World class erum við ekki með stöng en það er engin hindrun. Þetta eru mjúkar æfingar og tíminn byrjar alltaf á mjúkum teygjum til að vekja líkamann,“ segir hún og segir tímana gjarnan vera haldna í heitum sal og er tónlist alltaf notuð.

„Síðan taka við eins konar marseringar, æfing sem kallast „march“ en þá er hnjám lyft hátt. Næst taka við æfingar sem reyna mest á maga og rassvöðva en það er mikil áhersla lögð á jafnvægi og öndun,“ segir Sandra og segir að barre henti öllum.

Mæta karlar?

„Í LA mæta þeir. Ég hef þá kenningu að þetta verði eins og með hot jóga fyrir tíu árum þar sem konur mættu fyrst en karlarnir fóru svo að sjá ávinninginn og fóru að mæta.“

Markmið verða að vera skýr

Hvernig á fólk að setja sér markmið til að ná betri heilsu?

„Ég tala alltaf fyrir Smart-markmiðaformúlunni sem er kennd í Kvan og ég innleiddi líka í Absolute training. Við setjum oft of óljós markmið því það er þægilegt,“ segir Sandra og nefnir að það að segjast ætla að vera duglegri í ræktinni sé gott dæmi um óljós markmið.

„Fyrsta skrefið er að setjast niður og ákveða hvernig markmið þú vilt setja þér, en Smart stendur fyrir skýr, mælanleg, aðlaðandi, raunhæf og tímasett. Langar þig að ná fleiri hnébeygjum eða langar þig að hlaupa maraþon? Markmiðin verða að vera skýr og ég hvet fólk til að velja eitthvað sem það hlakkar til að gera,“ segir hún.

„Það er algengt að fólk sem er að byrja í hreyfingu setji sér of há markmið og ég mæli þá með að fólk byrji rólega. Við eigum það svo til að fara út í öfgar, hvort sem það er í hreyfingu eða mataræði. Litlu skrefin eru dýrmætust,“ segir hún og segir að hvert lítið skref séu framfarir.

„Þá erum við að tryggja að markmiðin endist miklu lengur.“

Engin boð eða bönn

„Margir upplifa markmið sem einhvers konar kvöð. Mín ástríða er að hjálp fólki að nýta sér markmið sem jákvætt tól, bæði til að kynnast sjálfu sér og ná árangri,“ segir Sandra og nefnir að um þrjú þúsund manns hafi nú þegar nýtt sér námskeiðin hennar.

Hefur þú sjálf lent í því að setja þér markmið og ná þeim ekki?

„Endalaust. Ég hef sett mér markmið að lesa fleiri bækur og elda meira sem tók langan tíma að ná. Þegar ég sótti um MBA-nám tók það mig þrjú ár að komast inn því ég náði aldrei prófi sem ég þurfti að ná,“ segir Sandra og segist ekki hafa gefist upp.

„Það hjálpaði mér mikið að fara ekki í niðurrif heldur finna leiðir til að ná þessu markmiði og vita að ég myndi ná því.“

Hvað varðar markmið sem snúa að breyttu mataræði, hvetur Sandra fólk til að setja sér ekki boð og bönn.

„Ég set mér frekar markmið um hvað ég ætla að borða, eins og að borða fisk einu sinni í viku og borða tvo ávexti á dag. Settu þér markmið hvað þú ætlar að borða; ekki hvað þú ætlar ekki að borða.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir