Tungutak
Ari Páll Kristinsson
ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is
Nú hafa Grindvíkingar mátt þola afleiðingar jarðelda og landskjálfta og þurft að kveðja heimili sín, að minnsta kosti um sinn. Meðan ekki er vogandi að búa í bænum leita íbúarnir annars dvalarstaðar. Sjálf hefur Grindavík verið griðastaður fólks sem þurft hefur að finna sér ný heimili vegna eldsumbrota; og það raunar þegar á 10. öld, samkvæmt Landnámu, löngu fyrir Skaftárelda og Heimaeyjargos.
Gnúpur Hrólfsson kom frá Noregi „fyrir víga sakir“. Bær föður hans á Norðmæri hét Moldatún og var Gnúpur því auknefndur Molda-Gnúpur. Hann nam land „milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á. Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar.“ Svo segir í Sturlubók Landnámu. Hauksbókargerðin segir raunar að Gnúpur hafi sjálfur fallið þarna í Mýrdalnum, en Björn sonur hans, síðar auknefndur Hafur-Björn, hafi náð að hefna föður síns og komið sér svo fyrir í Grindavík.
Jarðeldurinn sem „rann“ gæti sem best verið hraun úr Eldgjárgosinu mikla um eða eftir 934. Þá flæddi hraun alveg til sjávar í Álftaveri. Gossprungan náði einnig undir Mýrdalsjökul með tilheyrandi gjóskufalli.
Um eldgos voru í fornu máli notuð orðin eldur og jarðeldur. Á nokkrum stöðum segir frá eldi t.a.m. í Heklu(felli) og þá gjarna tekið svo til orða að eldur komi upp; svo sem í kristnitökufrásögnunum þegar tíðindamaður segir jarðeld upp kominn í Ölfusi sem rynni að bæ Þórodds goða. Af orðalaginu sprettur eldsuppkoma; „elds uppkváma í Heklu[felli]“. Einnig var talað um að (jarð)eldur væri uppi. Í Sturlungu er „Sandsumri“ lýst: „þá var uppi eldur í sjónum fyrir Reykjanesi og var grasleysi mikið“. Nafnorðið eldgos, eða gos (af sögninni gjósa), er kunnugt frá 18. öld, en orðalagið gjósa upp er gamalt, bæði haft um eld almennt og jarðeld. Í frásögn Njálu um brennuna segir: „Þar gaus stundum upp eldurinn en stundum slokknaði niður.“ Í annál aftast í Flateyjarbók segir svo frá dauða Hinriks „fuglara“, konungs í Þýskalandi, 936: „Andaðist Heinrekur keisari ok var grafinn í fjalli einu og úr því sama fjalli gaus upp jarðeldur í mörgum stöðum með ógurlegum loga.“
Hinrik hvílir í Quedlinburg á Saxlandi þar sem er engin eldvirkni. Reynt hefur verið að skýra rót þessarar sögu út frá samtímaheimildum um „blóðrauða“ móðu um þetta leyti sem byrgði sól og lagði inn í hús, og hafi þar verið öskuský úr Eldgjárgosinu. Þannig gætu sögur Hinriks og Molda-Gnúps tengst.