Ístaka nefnist málverkasýning sem Sara Oskarsson hefur opnað í Hannesarholti. Þar sýnir hún verk unnin á striga og panel með olíu og vaxi. „Verkin eru úr nýrri borgar-seríu innblásin af dýnamíkinni hjá Tjörninni í Reykjavík. Titill sýningarinnar vísar til ístöku á tjörninni sem fór fram í Reykjavík á fyrri hluta síðustu aldar. Ísinn var notaður í íshúsin í Reykjavík og til að ísa fisk fyrir siglingar með glænýjan fisk. Íshúsið Herðubreið sem stendur við tjörnina hýsir nú Listasafn Íslands,“ segir í kynningu.
Sara útskrifaðist með BA-gráðu í listmálun frá Edinburgh College of Art í Skotlandi 2012 og hefur starfað sem listmálari í meira en tvo áratugi. Allar nánari upplýsingar um Söru má finna á vefnum saraoskarsson.com.