Í fjögur ár hafa Grindvíkingar búið við jarðskjálfta og hættu á eldgosum. Enginn getur sett sig í þeirra spor.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Í lok janúar 2020 birtist frétt um að land hefði risið nokkuð hratt í Svartsengiskerfi, einu eldstöðvakerfanna á Reykjanesskaganum. Í fjögur ár hafa Grindvíkingar búið við jarðskjálfta og hættu á eldgosum. Enginn getur sett sig í þeirra spor.

Aðfaranótt laugardagsins 11. nóvember 2023 voru gefin fyrirmæli um rýmingu Grindavíkur. Í tvo mánuði ríkti síðan óvissa um hvað gerðist þar næst.

Þáttaskilin urðu skýr og öllum augljós að morgni sunnudagsins 14. janúar 2024 þegar tók að gjósa rétt við bæjarmörkin og hraun rann inn bæinn. Áður var ljóst að jarðhræringar höfðu myndað lífshættulegar gjár í íbúðahverfum. Þær hafa haldið áfram að stækka eftir að hraunrennslið stöðvaðist. Þá hefur nýr sigdalur myndast í austurhluta bæjarins.

Mikið hefur áunnist í vikunni með dugnaði þeirra sem lagt hafa hart að sér við að bjarga því sem bjargað verður.

Nú er talið sannað að varnargarðar dugi til að ráða straumi hraunsins þegar það rennur fram í því magni sem kom upp í gosinu 14. janúar. Orð sérfræðinga benda til að gos af þessu tagi kunni að verða tíð á komandi árum. Hvað sem líður gerð varnargarða getur enginn sagt með vissu hvort gos verði utan eða innan garðanna. Óvissan styrktist sunnudaginn 14. janúar þegar gos hófst innan nýs varnargarðs skammt frá byggð í Grindavík.

Þessir garðar hefðu aldrei risið nema vegna þess að ríkið ákvað að fjármagna gerð þeirra og fela verkefnið einkaaðilum. Þeir sýndu mikið áræði að morgni gosdagsins við björgun stórvirkra tækja sinna í myrkri skammt frá hraunjaðrinum.

Að fylgjast með björguninni í beinni útsendingu var meira spennandi en að horfa á leikna hamfaramynd, þarna vissi enginn hver yrði endirinn. Tækin eru mörg hundruð milljóna króna virði. Áhættan við björgunina var þó ekki tekin vegna fjármunanna heldur til að tækin mætti nýta áfram til varnar Grindavík – engar sambærilegar stórvélar eru í landinu.

Félag pípulagningameistara sendi tæplega 50 pípara þriðjudaginn 16. janúar til Grindavíkur til að koma hita á hús þar. Daginn eftir fóru um 30 píparar til bæjarins. Varúðar var gætt og er ekki farið inn í hús á skilgreindu hættusvæði.

HS Orka leiddi umfangsmikla aðgerð mánudaginn 15. janúar sem miðaði að því að koma heitu vatni á nýja stofnlögn frá Svartsengi að dreifikerfi HS Veitna í Grindavík. Pípararnir fóru til Grindavíkur eftir að heitt vatn var aftur komið á hús og skiluðu störf þeirra góðum árangri.

Hluti nýju stofnlagnarinnar liggur nú undir hrauni. Var óttast að vatn syði í lögninni undir hrauninu. Allt gekk þó að óskum og streymir vatn nú um lögnina. Framkvæmdir við þessa nýju heitavatnslögn til Grindavíkur voru á lokametrunum þegar tók að gjósa 14. janúar en gamla lögnin laskaðist í jarðhræringum árið 2022. Ekki tókst að hylja nýju lögnina áður en gosið hófst og stóð hún því óvarin gegn hrauninu.

Rafstrengur til Grindavíkur var tekinn út aðfaranótt sunnudagsins 14. janúar vegna jarðhræringa en hraun rann síðar yfir hluta þess svæðis þar sem hann liggur í jörðu. Síðdegis 15. janúar tókst sérfræðingum HS Orku ásamt HS Veitum að setja spennu á háspennustreng sem liggur frá Svartsengi til Grindavíkur.

Með útsjónarsemi allra sem komu að þessum víðtæku björgunaraðgerðum var heitt vatn og rafmagn komið í bæinn rúmlega sólarhring eftir að gos hófst. Þar með tókst að forða mannvirkjum frá miklu tjóni vegna frostskemmda.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, sem nýtur víðtæks trausts vegna varkárni sinnar segir líklegt að svipað ástand verði áfram í Grindavík og var um goshelgina. Fullkomin óvissa ríki um hvar gos hefjist, sem geri stöðuna erfiða fyrir Grindvíkinga. Hann sagði á fjölmennum fundi með þeim þriðjudaginn 16. janúar að við núverandi aðstæður væri mjög erfitt að sjá að það yrði „skynsamlegt að búa í Grindavík“. Taldi hann bæjarbúa, stjórnvöld og alla verða að búa sig undir að finna ásættanlegar lausnir til langs tíma og þar ætti hann ekki við mánuði.

Þetta er staðan þegar alþingi kemur saman eftir jólahlé en boðað hefur verið að ríkisstjórnin ætli að taka á málinu með lagasetningu. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Árnason og Óli Björn Kárason, hafa hreyft þeirri hugmynd að ríkið kaupi allt íbúðarhúsnæði í Grindavík sem Náttúruhamfaratrygging komi ekki til með að bæta og veiti íbúunum forkaupsrétt að þeim.

Við brottför bandaríska varnarliðsins árið 2006 skildi það eftir mannvirki sem höfðu þjónað allt að 5.000 manna samfélagi, íbúðarhús, iðnaðar- og þjónustuhúsnæði, sjúkrahús, skóla, félagsmiðstöð. Enginn vissi hvað yrði um þessar eignir. Sumir vildu fara með jarðýtu og jafna allt við jörðu. Þá var þróunarfélagið Kadeco stofnað til að hafa umsjón með og selja þessar eignir. Ríkið hefur nú fengið tugi milljarða króna að núvirði fyrir þær.

Nú er kjarnaverkefni Kadeco að leiða samstarf um að auka virði svæðisins í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Félagið hefur átt náið samstarf við sveitarfélög á Suðurnesjum. Þegar ríkisvaldið ákveður að taka að sér verkefni á borð við það sem nú blasir við í Grindavík á að nýta þau tæki sem til eru og þar sem fyrir er reynsla af umsjón fjölbreyttra fasteigna og sölu þeirra.

Nú eru góð ráð dýr. Reynslan af samvinnu opinberra og einkaaðila við úrlausn brýnna verkefna í Grindavík nú í vikunni sýnir að ríkisvaldinu ber að halda sig við stefnumörkun en treysta einkaaðilum fyrir framkvæmdinni.