Viðtal
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Það mikilvæga hlutverk sem hátíðin hefur er að gefa samtímatónlist hljómgrunn og athygli í okkar samfélagi. Þrátt fyrir að þessi tegund tónlistar, samtímatónlistin, sé vissulega jaðarmenning þá er hún gífurlega fjölbreytt og full af mikilvægum skilaboðum. Þarna erum við að upplifa nýsköpun og það sem er kannski mjög mikilvægt í þessu í dag er að íslensk samtímatónlist hefur vakið mikla athygli alþjóðlega og kannski aldrei verið eins áberandi á þeim vettvangi. Ég vil líka meina að íslensk tónlistarkennsla og nám hafi verið á háum staðli og skilað miklu út í samfélagið. Sú gerjun og sköpun sem er í gangi í dag, hún er framtíðin og við þurfum að hlúa að henni,“ segir Ásmundur Jónsson, listrænn stjórnandi Myrkra músíkdaga, sem verða nú haldnir í 43. sinn dagana 24.-28. janúar.
Stór hluti af tónlistarlífinu
Hátíðin hefur verið haldin árlega frá stofnun hennar árið 1980 en þar er boðið upp á rjómann af íslenskri samtímatónlist auk þess sem fjöldi erlendra gesta kemur fram. Segir Ásmundur tilhlökkunina mikla og dagskrána bæði fjölbreytta og spennandi enda sé hátíðin orðin rótgróin og stór hluti af íslensku tónlistarlífi. „Þetta er að ég held elsta tónlistarhátíð sem starfrækt er hér á landi en hún var stofnuð af Tónskáldafélaginu á sínum tíma. Ég geri ráð fyrir því að þar hafi hugsunin verið að búa til nýjan vettvang til að styrkja fókus og áherslu á íslenska samtímatónlist. Vissulega hefur hátíðin þróast svo töluvert í gegnum tíðina og farið í ýmsar áttir en kjarninn og lykilatriðið hefur þó alltaf verið að íslensk tónlistarsköpun sé í forgrunni,“ segir hann.
Yfir tuttugu viðburðir
Viðburðir hátíðarinnar í ár eru yfir tuttugu talsins og fara flestir þeirra fram í tónlistarhúsinu Hörpu en einnig í Salnum í Kópavogi, Hallgrímskirkju og Norræna húsinu. Segir Ásmundur að því geti bæði innlent og erlent áhugafólk um samtímatónlist sem og fagfólk notið hátíðarinnar en spurður út í hápunkta hennar svarar hann því til að margt megi nefna. „Það eru til að mynda tónleikarnir og barnadagskráin, samtal við tónlistarskólana og Listaháskólann en þar er hópur sem kallar sig Skerplu og samanstendur af kennurum og nemendum sem eru komnir langt í námi en það hefur mér fundist til dæmis mjög spennandi verkefni. Síðan erum við með verkefni í samstarfi við Menntaskólann í tónlist og svo má nefna „Gleðilega geðrófsleikinn“ eftir Guðmund Stein Gunnarsson en það er samstarfsverkefni við Söngskólann í Reykjavík og byggt upp á svipaðan hátt og verkefnið við Listaháskólann,“ segir hann.
„Maður fer inn í hátíðina sem er oft og tíðum svolítil óvissuferð en mjög spennandi sem slík eins og þessir viðburðir sem hún Ragnhildur Gísladóttir er að gera með Cauda Collective. Hvað mun gerast og hvað hafa þær verið að bralla síðustu átta mánuðina eða svo á meðan verið var að undirbúa þessa tónleika? Svo finnst mér líka gaman að Gyða Valtýsdóttir og Úlfur Hansson séu til í að koma á hátíðina í ár en hún er náttúrulega handhafi Norrænu tónlistarverðlaunanna og á sterkar rætur í þessum heimi þó hún hafi farið mjög víða.“
Eitthvað fyrir alla
Einn af fastapunktum hátíðarinnar eru tónleikar með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem býður upp á alíslenska efnisskrá. Mun hún að þessu sinni frumflytja „Flökkusinfóníu“ með Gjörningaklúbbnum sem er að sögn Ásmundar sannkölluð veisla fyrir bæði augu og eyru. Þá eru höfundar „Flökkusinfóníunnar“ Gjörningaklúbburinn, Una Sveinbjarnardóttir og Ólafur Björn Ólafsson. Þar fyrir utan eru á efnisskrá tónleikanna verk eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur og Þuríði Jónsdóttur auk þess sem Jónas Ásgeir Ásgeirsson leikur „Harmonikkukonsert Finns Karlssonar“ með hljómsveitinni.
„Þetta verða mjög spennandi tónleikar en þess má geta að Jónas Ásgeir var einna mest áberandi á Íslensku tónlistarverðlaununum núna síðast með plötu ársins og fleira. Svo má einnig nefna innsetningu í Glerhúsinu þar sem Atli Ingólfsson er að taka fyrir sína tónlist og setja hana í einhvern búning og svo á Kammersveit Reykjavíkur líka sinn fasta sess í dagskránni,“ segir hann og tekur fram að dagskráin í ár sé að mörgu leyti breiðari en áður.
Mikilvægt samtal
Eins og áður sagði verður fjöldi erlendra gesta á hátíðinni og í ár ætlar til dæmis hið breska Fidelio Trio að heimsækja hátíðina og frumflytja verk eftir írsk og íslensk tónskáld. „Þetta er viðburður sem kemur í framhaldi af því að Una Sveinbjarnardóttir fór til Írlands og var að vinna með þeim í fyrra. Það var því við hæfi að þau kæmu þar sem þau sóttust líka mikið eftir því. Þetta tríó mun vera með masterklass í Menntaskólanum í tónlist og í Listaháskólanum,“ segir Ásmundur. Þá stendur hátíðin einnig fyrir kynningardagskránni Podium í samstarfi við Tónlistarmiðstöð, Tónlistarborgina Reykjavík og Íslandsstofu. Boðið er sérstaklega til þátttöku í Podium og fer dagskráin fram í húsnæði Tónlistarmiðstöðvarinnar við Austurstræti.
„Þá mæta 6-8 manns og kynna þeim aðilum íslensk verkefni sem eru komnir til Íslands, eins og Tónlistarhátíðinni í Danmörku, Bretlandi, bandarískum útgefanda, blaðamönnum og fjölmiðlum, eins og BBC og SWR frá Þýskalandi. Þannig að það er mjög mikilvægur þáttur í hátíðinni að eiga þetta samtal við alþjóðasamfélagið, sérstaklega þegar við erum að upplifa mikinn áhuga á íslenskri samtímatónlist,“ segir hann og bætir að lokum við að þó taki oft langan tíma að skipuleggja einstaka viðburði þar sem sköpunin, fjármögnunin og undirbúningurinn gerist ekki á einni nóttu og hugmyndir sem upp komi raungerist því mögulega ekki fyrr en mörgum árum síðar.