Kristín Magnúsdóttir
Kristín Magnúsdóttir
Bændasamtökin voru sammála því að skerða með lögum eignarrétt bænda, í þágu þeirra sem ættu kindur á flækingi í byggð.

Kristín Magnúsdóttir

„Ef maður vill stela í þjóðfélagi, þá verður að stela samkvæmt lögum; og helst að hafa tekið þátt í því að setja lögin sjálfur.“ (Organistinn í Atómstöð Halldórs Laxness.)

Vandamálið

Lengi hefur verið vitað að hagkvæmni landbúnaðar eykst ef tekst að stunda hann í löndum annarra. Vandamál kindaeigenda, sem hvorki eiga land né beitarrétt fyrir dýrin sín á sumrin og vilja nýta lönd annarra sem beitarlönd, er að ágangur, þ.e. heimildarlaus beit búfjár, er ólöglegur og skaðabótaskyldur í siðuðum löndum. Hér á landi hefur það verið ólöglegt frá Þjóðveldisöld.

Lausnin („lauman“)

Árið 2002 var gengið í að leysa vandamálið. Sett var ákvæði í frumvarp um búfjárhald þess efnis að ef land væri auglýst friðað í Stjórnartíðindum, og girt árlega vottaðri girðingu, ætti búfé (les: kindur) á flækingi þar ekki beitarrétt. Með gagnályktun ætti búfé (les: kindur) beitarrétt í öllum ógirtum löndum og girtum „ófriðuðum“ löndum. Varaformaður Bændasamtakanna, sauðfjárbóndi, sat í nefndinni sem samdi frumvarpið. Ráðherrann, sem lagði frumvarpið fram, var einn helsti talsmaður sauðfjárbænda hér á landi. Formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, sauðfjárbóndi, leiddi vinnuna við að greina og skýra frumvarpið fyrir öðrum þingmönnum.

Sammála

Bændasamtökin voru sammála því að skerða með lögum eignarrétt bænda, í þágu þeirra sem ættu kindur á flækingi í byggð. Eina athugasemd samtakanna við friðunarákvæðið var að árlegri vottun girðinga friðaðra landa skyldi lokið 15. júní, frekar en 15. maí! Aðrir umsagnaraðilar gerðu alvarlegar athugasemdir við friðunarákvæðið og lögðu til að það yrði fellt úr frumvarpinu. Í þinglegri meðferð frumvarpsins tókst með lagni að minnast aldrei á friðunarákvæðið og varð það að lögum í maí 2002.

Umboðsmaður Alþingis

Eftir að stjórnsýslan hafði úrskurðað að vegna friðunarákvæðisins ættu kindur á flækingi í byggð nú beitarrétt nánast alls staðar kom til kasta Umboðsmanns Alþingis. Í áliti hans, 11. október 2022, segir m.a.:

„Hafi ætlunin verið að gera breytingar á þessari réttarstöðu umráðamanns lands með yngri lögum, s.s. með þeirri takmörkun á eignarrétti hans að hann verði að þola ágang búfjár annarra á eign sinni eða njóti ekki fyrrgreinds verndarréttar, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 6/1986, verður að gera kröfu um að það verði skýrlega ráðið af orðalagi og efni þeirra lagaákvæða sem til álita koma. Er þá höfð í huga sú krafa um lagaáskilnað sem leiðir af stjórnskipulegri vernd eignarréttinda og áður hefur verið gerð grein fyrir.“

Niðurstaða umboðsmanns var að vegna friðhelgs eignarréttar landeigenda, sem mælt er fyrir í grundvallarlögum þjóðarinnar, ættu lögin um afréttamálefni nr. 6/1986 áfram að gilda um „ófriðuð“ lönd. Lögin byggjast á þeirri yfir þúsund ára gömlu grunnreglu að landeigendur þurfi ekki þola umgang og beit búfjár í annarra eigu í löndum sínum. Þá ættu landeigendur, eins og mælt er fyrir í sömu lögum, rétt á aðstoð stjórnvalda við heimildarlausri beit búfjár.

Ósammála

Ný og breið Bændasamtök Íslands brugðust ókvæða við áliti umboðsmanns. Formaður og framkvæmdastjóri skrifuðu langt bréf til sveitarstjórna landsins, til að uppfræða sveitarstjórnarmenn um að þrátt fyrir álit umboðsmanns fælist í íslenskum landbúnaði lagalegur réttur sumra, til að nýta sér eigur annarra, í orðinu „lausaganga“. Því ættu sveitarstjórnir ekki að láta smala ágangsfé, þó svo 33. gr. laga um afréttamálefni nr. 6/1986 mælti fyrir um það.

Árið 1991; „lausaganga“

Vegna linnulauss áróðurs þeirra sem vilja fá að stunda landbúnaðinn sinn í löndum annarra halda sumir að „lausaganga“ búfjár sé ævaforn og helgur réttur kindaeigenda. Það er þó fjarri sanni, því orðið kom fyrst fyrir í lögum árið 1991! Lagagreinin hljóðaði þannig:

„Landbúnaðarráðherra hefur á hendi æðstu stjórn þeirra mála er lúta að meðferð búfjár og eftirliti með búfjárhaldi sem kveðið er á um í lögum þessum. Með búfé er í lögum þessum átt við alifugla, geitur, hross, kanínur, loðdýr, nautgripi, sauðfé, svín og önnur dýr sem haldin verða til nytja. Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtakið búfé sker landbúnaðarráðherra úr þeim ágreiningi. Með vörslu búfjár er í lögum þessum átt við að búfjáreigandi haldi því búfé sem varslan tekur til innan ákveðins afmarkaðs svæðis, en með lausagöngu búfjár að búfé geti gengið á annars manns land í óleyfi.“

Greinin var skýrð í frumvarpinu með eftirfarandi hætti:

Um 2. gr.

Hér er kveðið á um yfirstjórn þessa málaflokks og gildissvið, þ.e. til hvaða búfjártegunda ákvæði frumvarpsins ná.

Fráleitt er að orðið „lausaganga“ hafi búið til einhvern íveru- eða beitarrétt fyrir búfé í annarra manna löndum, eða afnumið ábyrgð eigenda á búfé sínu í byggð, fyrst tiltekin í Grágás á Þjóðveldisöld, síðar í Jónsbók og Réttarbót Eiríks konungs Magnússonar, en nú í IV. kafla laga um afréttamálefni nr. 6/1986. Þvert á móti stóð vilji löggjafans til að auka vörslu á búfé, vegna breytinga í sveitum og til að auka öruggi vegfarenda, eins og glöggt kemur fram í skýringu við 5. gr. frumvarpsins.

Haldlaus málflutningur

Að ákvæði grundvallarlaga um eigendaábyrgð á búfé og úrræði landeigenda við heimildarlausri beit, sem eiga sér svipað langa sögu og byggðin í landinu, hafi breyst í merkingarlausa bleksvertu í lagasafni þjóðarinnar, þegar orðið „lausaganga“ hrasaði í lög um búfjárhald árið 1991, er haldlaus málflutningur. Þeir sem efast um það mættu lesa aftur tilvitnunina í álit umboðsmanns Alþingis.

Eignarréttur til vandræða?

Í stað þess að standa vörð um eignarrétt allra félagsmanna sinna vinna Bændasamtökin stöðugt að því að rýra verðmætustu eignarréttindi flestra þeirra. Tilgangurinn, sem helgar meðalið, er að kindur á flækingi í byggð fái vaðið yfir friðhelgan eignarrétt allra sem fyrir þeim verða. Að félagar samtakanna borgi fyrir vinnu stjórnenda og aðkeypt lögfræðiálit í þeim furðulega leiðangri er öfugsnúið – enda félagarnir fullfærir um að hýða sig sjálfir.

Höfundur er lögfræðingur og félagi í Bændasamtökum Íslands.

Höf.: Kristín Magnúsdóttir