Ágústa Hjálmtýsdóttir fæddist 6. mars 1937. Hún lést 12. desember 2023.

Útför Ágústu fór fram 12. janúar 2024.

Nú hefur Gústa nágrannakona okkar fjölskyldunnar úr Vesturberginu kvatt þessa jarðvist.

Gústa var ein af þessum góðu manneskjum sem maður hittir á lífsleiðinni. Gústa var einstaklega barngóð og þegar ég var lítil stelpa fannst mér svo afskaplega gaman að hitta hana. Hún var svo skemmtileg, glöð og hláturmild og lék alltaf forvitni á að vita hvað ég tók mér fyrir hendur hverju sinni. Gústa eignaðist yndislegan mann, Hafstein, og góðan og hæfileikríkan barnahóp. Þegar ég komst á fullorðinsár var sömuleiðis alltaf jafn gaman að hitta þau Gústu og Hafstein. Þau hjónin tóku þátt í sjónvarpsverkefni sem ég leikstýrði og betri leikara gat ég ekki fengið. Þau voru listagóðir samkvæmisdansarar og kenndu okkur hjónum brúðarvalsinn sem okkur þótti afskaplega vænt um. Gústa var einstaklega góð hannyrðakona og eftir hana liggja mörg meistarastykkin. Húsmóðir var hún á heimsmælikvarða. Það lék allt í höndunum á henni. En umfram allt var Gústa einstaklega hlý og góð manneskja sem mér þótti afskaplega vænt um.

Elsku Hafsteinn og börn, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um yndislega konu lifir.

Linda Ásgeirsdóttir.