„Verkefnið er að finna sanngjarnar og skynsamar leiðir til að fólk geti ráðið örlögum sínum,“ skrifar Þórdís Kolbrún. „Það verkefni munum við leysa.“
„Verkefnið er að finna sanngjarnar og skynsamar leiðir til að fólk geti ráðið örlögum sínum,“ skrifar Þórdís Kolbrún. „Það verkefni munum við leysa.“ — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En þótt náttúran sé við völd er það líka í okkar náttúru að takast á við svona áföll og byggja upp.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Stjórnvöld og íslenska þjóðin öll munu standa með Grindvíkingum í að takast á við þá stöðu sem komin er upp vegna eldsumbrotanna á Reykjanesskaga. Sú staða birtist annars vegar í því hrikalega tjóni sem nú þegar hefur orðið, og hins vegar í því að horfast í augu við mikla óvissu um hver verði þróunin á næstu árum og jafnvel áratugum. Við þetta bætist að örvænting margra íbúa Grindavíkur er mikil og ákall eftir lausnum er bæði eðlilegt og skiljanlegt. Það er mikilvægt að hafa hugfast að fólk hefur ólíkar þarfir og mun hafa ólíkan vilja til þess að snúa aftur til Grindavíkur, hvenær sem sá tími kann að koma. Verkefnið er að finna sanngjarnar og skynsamar leiðir til að fólk geti ráðið örlögum sínum. Það verkefni munum við leysa.

Reynslan úr Eyjum

Þegar gaus í Vestmannaeyjum árið 1973 fóru á fimmta hundrað húsa undir hraun og svipaður fjöldi varð fyrir umtalsverðu tjóni. Á fyrstu stigum gossins var óvissan um örlög Heimaeyjar algjör og ekki ósvipuð því sem nú er. Enginn gat vitað hversu lengi gosið kæmi til með að standa, hversu stór hluti færi undir nýtt hraun, eða hvort hraunrennslið myndi loka höfninni, fjöreggi Vestmannaeyja og mestu uppsprettu efnahagslegra verðmæta í íslensku samfélagi. Þessi óvissa var álitin afstaðin þann 3. júlí 1973 þegar goslokum var lýst yfir. Þá var ljóst að Vestmannaeyjar yrðu byggðar aftur.

Sá stóri og augljósi munur er þó á aðstæðum þá og nú að þegar goslokum í Eyjum var lýst yfir gat fólk leyft sér að finna til léttis og uppbygging gat hafist. Miðað við núverandi mat sérfræðinga hefur hins vegar ekki verið gefin mikil von um að hægt verði að finna til slíks léttis varðandi Grindavík á næstunni. Gosið sem grandaði þremur húsum um síðustu helgi er ekki nema hluti af mun stærri jarðsögulegum viðburði sem ekki er vitað hvernig kemur til með að þróast. Atburðirnir undirstrika ekki aðeins þá óvissu og ógn sem hafa sett líf Grindvíkinga í algjört uppnám heldur minna þeir okkur öll á að á Íslandi er náttúran við völd. Við hana er hvorki hægt að semja né þekkja fyrirætlanir hennar til hlítar. En þótt náttúran sé við völd er það líka í okkar náttúru að takast á við svona áföll og byggja upp.

Lærum af sögunni

Eitt af því sem við þurfum að takast á við er efnahagslegi veruleikinn sem blasir við. Í kjölfar eldgossins 1973 fór af stað tveggja áratuga tímabil óðaverðbólgu og óstöðugleika. Orsakirnar voru margslungnar, en þegar kemur að verðbólgu er ekki hægt að líta framhjá þætti hagstjórnar. Ísland skar sig enda mjög úr í alþjóðlegu samhengi sem bendir til heimatilbúins vanda. Jóhannes Nordal, sem þá var seðlabankastjóri, ritaði um þetta í sjálfsævisögu sinni, Lifað með öldinni. Hann bendir á að í umræðum um Viðlagasjóð í febrúar 1973 hafi öllum þensluhamlandi tillögum verið hafnað og vill meina að menn hafi lokað „augunum fyrir hættu á vaxandi verðbólgu og jafnvægisleysi þegar á árið liði.“

Þó að sagan endurtaki sig ekki, þá rímar hún oft. Hluti af því að standa með Grindvíkingum þýðir auknar byrðar á okkur öll, enda er tjónið til staðar, líka þegar ríkissjóði er beitt. Við höfum val um að fara aðra leið en 1973 með skynsamlegri peningastefnu, farsælum kjarasamningum og ábyrgum ríkisfjármálum. Þannig stöndum við raunverulega saman.

Stöndum saman

Íslenskt samfélag er bæði öflugt og farsælt. „Ég veit hvernig lífi þið lifið í landi ykkar. Það sem hrífur mig mest er að ykkur skuli takast að búa ykkur farsælt þjóðlíf þrátt fyrir válynd veður og hrjúfa náttúru, og að þjóð ykkar njóti öryggis og búi við lýðræði. Þegar þið virðið fyrir ykkur bæi ykkar og byggðir, þegar þið virðið fyrir ykkur fólkið ykkar, þá sjáið þið að þar fer raunverulegt frelsi, þar fer raunveruleg menning, og þið sjáið hinn góða ávöxt sem sérhver dagur færir ykkur í skaut.“ Þessi lýsing á íslensku samfélagi er úr ræðu Selenskís forseta Úkraínu þegar hann ávarpaði Alþingi Íslendinga á síðasta ári. Hún á vel við og sérstaklega núna.

Við ráðum við verkefnin þegar við stöndum saman og það munum við gera, fyrir okkur öll.