Leiguhúsnæði Um 60% húsnæðis eru leigð á milli einstaklinga.
Leiguhúsnæði Um 60% húsnæðis eru leigð á milli einstaklinga. — Morgunblaðið/Þorkell
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Leiguskráin breytir mjög miklu varðandi gæði þeirra gagna sem við höfum um leigumarkaðinn. Áður en leiguskráin var tekin í notkun voru göt í þeim gögnum sem stjórnvöld höfðu til umráða um leigumarkaðinn,“ segir Drengur Óla Þorsteinsson, teymisstjóri á leigumarkaðssviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Leiguskráin breytir mjög miklu varðandi gæði þeirra gagna sem við höfum um leigumarkaðinn. Áður en leiguskráin var tekin í notkun voru göt í þeim gögnum sem stjórnvöld höfðu til umráða um leigumarkaðinn,“ segir Drengur Óla Þorsteinsson, teymisstjóri á leigumarkaðssviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, í samtali við Morgunblaðið.

Kynnt hefur verið til sögunnar svonefnd leiguskrá sem leidd var í lög í lok árs 2022 og hafa nú leigusamningar verið skráðir þar inn í rúmt ár.

Vantaði upp á gæði gagna

Þau gögn sem áður var stuðst við varðandi upplýsingar um leigumarkaðinn voru þinglýsingargögn, gögn vegna húsnæðisbóta og kannanir á leiguverði íbúðarhúsnæðis. Þá vantaði upp á gæði gagnanna sem til komu vegna leigu á félagslegu húsnæði sveitarfélaga, að sögn Drengs Óla, enda bar þeim ekki skylda til að þinglýsa slíkum samningum. Einnig hafi skort upplýsingar um vísitöluútreikning. Með hinni nýju leiguskrá séu gögnin mun nákvæmari og ætluð til að veita upplýsingar um markaðinn og þróun leiguverðs.

Samkvæmt núgildandi reglum ber þeim leigusölum skylda til að skrá sína leigusamninga sem tekjuskattslög skilgreina þannig að þeir hafi útleigu að atvinnu. Það á við um einstaklinga eða lögaðila sem eru með þrjár íbúðir eða fleiri í útleigu.

Leiga á milli einstaklinga algengust

Drengur Óla segir að á leigumarkaðinum sé algengast að einstaklingur leigi einstaklingi, en þannig hátti til um 60% leiguhúsnæðis og þeir þ.a.l. ekki skyldugir til að skrá leigusamninga í leiguskrána. Hann segir að betur gangi en við hafi verið búist að fá slíka aðila til að skrá samninga sína. Þá sé leigutökum einnig heimilt að skrá leigusamninga í skrána, en vísast séu þeir sem skrá samninga sína einkum aðilar sem þiggja húsnæðisbætur.

Drengur Óla segir að leigutekjur þeirra sem leigja út húsnæði í atvinnuskyni séu skattskyldar, en þeir sem falli ekki undir þá skilgreiningu, þ.e. leigja út 1-2 íbúðir, njóti 50% afsláttar frá skatti af leigutekjum, þannig að skattlagning ætti ekki að hindra þá aðila að skrá eignir sínar í útleigu.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson