Fullt hús Gauti Páll er efstur eftir fjórar umferðir á Skákþingi Reykjavíkur.
Fullt hús Gauti Páll er efstur eftir fjórar umferðir á Skákþingi Reykjavíkur. — Ljósmynd/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skákþing Reykjavíkur virðist ætla að verða vettvangur óvæntra úrslita þessi árin. Í fyrra mátti Vignir Vatnar Stefánsson þola tap fyrir Jóhanni Ragnarssyni sem tefldi þar sennilega sína bestu skák fyrr og síðar

Skák

Helgi Ólafsson

helol@simnet.is

Skákþing Reykjavíkur virðist ætla að verða vettvangur óvæntra úrslita þessi árin. Í fyrra mátti Vignir Vatnar Stefánsson þola tap fyrir Jóhanni Ragnarssyni sem tefldi þar sennilega sína bestu skák fyrr og síðar. Í ár er það Gauti Páll Jónsson sem lætur finna fyrir sér með glæsilegum sigri yfir stigahæsta keppenda mótsins, Hilmi Frey Heimissyni, og í umferðinni þar á eftir vann hann Lenku Ptacnikovu. Þau deildu efsta sæti fyrir umferðina.

Ekki blés nú byrlega fyrir Gauta Páli í upphafi viðureignar þeirra sl. miðvikudagskvöld því að eftir sjö leiki var hann kominn með tapað tafl og lítið batnaði staðan er fram í sótti. En hann náði samt að rétta úr kútnum og virtist vera á góðri leið með að tryggja jafntefli þegar þetta gerðist:

Lenka Ptacnikova – Gauti Páll Jónsson

Gauti lék síðast 53. … gxh4 og það liggur beinast við að taka peðið til baka, 54. gxh4, en staðan er þá afar jafnteflisleg. Lenka var þá byrjuð að velta vöngum yfir öðrum möguleikum en gætti ekki að hvað klukkunni leið og féll. Þar með komst Gauti Páll einn í efsta sætið en staðan á toppnum er þessi:

1. Gauti Páll Jónsson 4 v. (af 4) 2.-4. Dagur Ragnarsson, Davíð Kolka og Jóhann Ingvason 3½ v. Í næstu sætum koma ellefu skákmenn með 3 vinninga hver. Mótið samanstendur af níu umferðum. Teflt er á sunnudögum og miðvikudögum og keppendur eru 57 talsins.

Gauti Páll, sem um áramótin tók við formennsku í Taflfélagi Reykjavíkur og er auk þess ritstjóri tímaritsins Skákar sem kemur nú út að nýju, er áræðinn skákmaður. Hann taldi það greinilega affarasælast að tefla byrjunina djarft gegn Hilmi Frey. Og eftir að hafa gefið drottninguna fyrir hrók og léttan fékk hann góð færi og það hjálpaði kannski til að jafntefli var víðs fjarri áætlunum Hilmis sem teygði sig of langt að þessu sinni:

Skákþing Reykjavíkur 2024; 3. umferð:

Hilmir Freyr Heimisson – Gauti Páll Jónsson

Benkö-bragð

1. d4 Rf6 2. c4 c5 3. d5 b5 4. cxb5 a6 5. bxa6 Bxa6 7. Rc3 d6 7. e4 Bxf1 8. Kxf1 g6 9. Rf3 Bg7 10. g3 O-O 11. Kg2 Db6 12. a4

Allt saman þekkt og fræðimenn efast um að svartur hafi einverjar raunverulegar bætur fyrir peðið.

12. … Ra6 13. He1 Hfb8 14. Rd2 Db4?!

Dálítið skrítinn leikur og nú getur hvítur leikið 15. a5, Ha4 og Rc4 með mun betri stöðu.

15. De2 Rd7 16. Rc4 Re5 17. Rxe5 Bxe5 18. Bd2?!

Það var óþarfi að taka svo mikla áhættu og gefa b2-peðið Eftir 18. Rd1! er hvítur enn með betra tafl.

18. … Dxb2!

Ekki alltaf eitrað þetta peð.

19. Heb1 Bxc3 20. Hxb2 Hxb2 21. Hd1 Rb4 22. De3?

Hér missir hvítur þráðinn. Drottningin er betri á e2. „Vélarnar“ mæla með 22. h4.

22. …Bd4 23. Da3 Rc2 24. Df3 Hxa4 25. Kh3 Ha3 26. Dg4 Hb8 27. Dd7 Bf6 28. Bh6 Hba8 29. Hb1 Rb4 30. f4 H3a7 31. Dg4 Ha2 32. Dd1 Bc3 32. Df1 Bg7 34. Bg5 f6 35. Bh4 h6 36. g4

Svartur hótaði 36. … g5 en samt var 36. e5 eini leikurinn. Nú opnast kóngsstaðan.

36. … H8a3 37. Bg3 Rd3 38. Kh4 Kh7 39. Hb7

39. … Rxf4! 40. Bxf4 g5+ 41. Kh5 Hf2!

– laglegur lokahnykkur og hvítur gafst upp. Svartur mátar eftir 42. Dxf2 Hh3+.