Viðtal
Karl Blöndal
kbl@mbl.is
Giacomo Abbruzzese leikstjóri hefur fengið frábærar viðtökur fyrir sína fyrstu leiknu mynd í fullri lengd. Myndin heitir Disco Boy og segir af Aleksei frá Hvíta-Rússlandi sem dreymir um að setjast að í Frakklandi og endar í frönsku útlendingaherdeildinni og skæruliðaforingjanum Jomo sem grípur til aðgerða gegn náttúruspjöllum við ósa árinnar Níger. Annan dreymir um að sötra rauðvín í franskri sveit, hinn um að vera dansari, en báðir eru bardagamenn. Myndin fékk silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín í fyrra fyrir myndatöku og hefur verið tekin til sýningar í hátt á fjórða tug landa.
Abbruzzese er staddur á Íslandi í tilefni af franskri kvikmyndahátíð. Hann hélt í gær tíma í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, og í kvöld mun hann sitja fyrir svörum í Bíó Paradís eftir sýningu á myndinni Disco Boy sem hefst klukkan 20.
Abbruzzese kveðst hafa sótt innblástur víða að í myndina Disco Boy en þrennt hafi skipt mestu máli. „Fyrst vil ég nefna náunga sem ég hitti í næturklúbbi í Puglia á Ítalíu, svæðinu sem ég er frá,“ segir Abbruzzese. „Hann var dansari í klúbbnum og hafði áður verið hermaður. Ég var forvitinn um hvernig einn og sami maður gæti beitt líkama sínum með svo gjörólíkum hætti, í dansi og hermennsku. Svo komst ég að því að þarna væri skörun, hvort tveggja gengi út á hreyfingu, líkamsburð og aga. Þarna var kominn útgangspunktur fyrir persónu í myndinni.“
Hinir síðustu af þeim síðustu
Einhverju síðar var hann í Kænugarði í Úkraínu til að kynna stuttmynd eftir sig. Þar rakst hann á hóp andófsmanna frá Hvíta-Rússlandi, sem elskuðu myndina og buðu honum til Minsk til að sýna hana á neðanjarðarkvikmyndahátíð.
Hann þáði boðið og hitti þar fólk, sem sagði honum sögur af vinum sínum, sem hefðu farið til Frakklands, gengið í útlendingaherdeildina og þeir hefðu aldrei séð þá aftur. „Sumir þeirra höfðu líka hugmyndir um að fara til Frakklands og ná sér í franskt vegabréf með þessum hætti,“ sagði hann. „Það sem snerti mig var að þarna var fólk, sem var að skrifa bækur, horfa á kvikmyndir og var ekki svo ólíkt mér. Helsti munurinn var sá að ég var svo heppinn að vera með ítalskt vegabréf, en þau voru með vegabréf frá Hvíta-Rússlandi. Þegar við hugsum um átök og hermenn á vígvelli sjáum við fyrir okkur fasista eða fólk blint af sturlun en margir þeirra eru í raun hinir síðustu af þeim síðustu, þeir sem eru neðst í píramídanum.“
Þarna voru tvær helstu söguhetjurnar komnar og sagði Abbruzzese að sig hefði langað til að segja sögu af málaliða, sem væri í einu versta starfi, sem hægt væri að hugsa sér, en gerði það til að ná í vegabréf.
Þriðja hugmyndin á bak við myndina kviknaði þegar hann var að lesa um hóp vopnaðra umhverfisverndarsinna í Nígeríu. Það vakti forvitni hans hvernig þessi hópur á einum mengaðasta stað jarðar bar sig að og notaði sjónarspil, setti nánast á svið sýningu með því hvernig liðsmennirnir klæddust, máluðu sig og töluðu. „Þeir voru mjög meðvitaðir um vídd sjónarspilsins,“ sagði hann.
Að drepa einhvern sem þú veist ekkert um
Abbruzzese sagði að sig hefði einnig langað til að gera stríðsmynd þar sem tilvera andstæðingsins kæmi loks fram. „Í langflestum stríðsmyndum er „hinn“ ekki til, hvort sem það er fórnarlamb eða óvinur, honum bregður bara fyrir í þrjátíu sekúndur og búið. Saga hans og það sem knýr hann áfram kemur aldrei fram, „hinum“ er ekki sýnd hluttekning. Þetta var mikilvægt fyrir mig. Ég held að það sé hægt að sýna báðum hluttekningu, það þarf ekki að vera auðvelt, en það er hægt að tengja sig þeirri leið sem báðir fara og loks standa þeir andspænis hvor öðrum. Þannig að þegar kemur að viðureigninni er enginn til að halda með og hryllingur stríðsins kemur fram – að þurfa að drepa einhvern, sem þú veist ekkert um.“
Sumir gagnrýnendur hafa notað hugtakið töfraraunsæi til að lýsa mynd Abbruzzeses. Honum finnst að merkimiðar geti gert gagn, en um leið verið takmarkandi.
„Töfraraunsæi er hugtak úr bókmenntum,“ segir hann. „Merkimiðar eru notaðir til að setja hluti á bása og smætta þá. Það getur verið hjálplegt að nota merkmiða til að fólk geti áttað sig á hvað er á ferðinni, stóru myndinni, en – ég veit ekki hvað skal segja – meira að segja Dante var í töfraraunsæinu, þannig að ef hugtakið er notað í samhengi við suðuramerískar bókmenntir er það mjög takmörkuð vísun. En ég fékk meiri innblástur frá bókum eins og Innstu myrkur eftir Conrad en nokkurri töfraraunsæisbók.“
Frank Rogowski og Morr Ndiaye leika aðahlutverkin í myndinni, Aleksei og Jomo.
Abbruzzeses var farinn að velta Rogowski fyrir sér fimm árum áður en tökur hófust og þá var hann ekki orðin sú stjarna, sem hann er núna. „Ég elska hann vegna þess að hann er leikari, sem leikur með öllum líkamanum. Hans leikur er ekki bara sálrænn, heldur líkamlegur, sem er í takti við það hvernig ég leikstýri, að segja eitthvað um sálina í gegnum líkamann,“ sagði hann. „Hættan við sálfræðina er að orðin taki völdin. Ég held að í kvikmyndinni sé áhugaverðara að sýna en að segja.“
Það hafi líka tekið langan tíma og ferðalög að fá leikarana frá Afríku, heil tvö ár. Hann hefði séð Ndiaye í heimildamynd um miðstöð fyrir unglinga, sem hefðu komið með ólöglegum hætti til Ítalíu. „Hann fór frá Gambíu í gegnum eyðimörkina, var fangi í Líbíu og kom um borð í báti líkt og margir flóttamenn,“ sagði hann. „Mig langaði til að hitta hann með smærra hlutverk í huga, en smám saman áttaði ég mig á að hann gæti leikið aðalhlutverkið. Framleiðandinn minn var mjög hræddur við þetta því hann hafði aldrei leikið á hvíta tjaldinu, en hann tók þetta alvarlega og sýndi að hann gat þetta.“
Abbruzzese ólst upp í Puglia á Ítalíu, en hefur farið víða, búið í Kanada og Þýskalandi og varði tveimur árum í Ísrael og Palestínu. Í kvikmyndaskóla fór hann í Frakklandi og er nú gestur á Frönsku kvikmyndahátíðinni.
Á hárréttum tíma
„Ég kem úr verkamannastétt og við gátum aldrei ferðast, ég fór aldrei til útlanda með fjölskyldunni. Mig dreymdi því alltaf um svona líf, að uppgötva og búa á nýjum stöðum. Þannig að það varð nánast árátta hjá mér að vera á nýjum stað á hverju ári og kynnast sjálfum mér í gegnum umhverfi mitt, gegnum ólíka staði. Nú er ég með annan fótinn í París, en annars alltaf á ferðinni, alltaf með ferðatöskuna við rúmið.“
Myndin fékk silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín í fyrra. „Það er galið að vera kominn beint inn í keppnina á kvikmyndahátíð á borð við Berlinale með sína fyrstu mynd,“ sagði hann. „Það opnar mikla möguleika. En ég vissi líka hvað ég var með í höndunum með Disco Boy, þótt margir reyndu að draga úr mér. Ég vissi að myndin væri ekki í takt við tímann, hvorki fyrir mig né heiminn, en þegar hún síðan fór í sýningar var hún á hárréttum tíma.“
Hann kvaðst feginn að hafa haft þolinmæðina til að gera myndina og eins þakklátur fyrir að fólk hafi trúað á sig.
„Það var því fallegt fyrir mig að fá þessa viðurkenningu og ég er mjög sæll með að myndin skuli fara í sýningar í yfir 35 löndum.“ Fyrir sér sé mikilvægt að myndin fái hljómgrunn á ólíkum stöðum, hvort sem það sé Tyrkland, Brasilía eða Ísland.
Disco Boy er sýnd á Frönsku kvikmyndahátíðinni í Bíó Paradís. Eftir sýninguna í kvöld kl. 20 mun Abruzzese sitja fyrir svörum.