Forsíða tímarits Photo London sem helgað er RAX.
Forsíða tímarits Photo London sem helgað er RAX.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Út er komið veftímarit á vegum ljósmyndakaupstefnunnar Photo London sem alfarið er helgað ljósmyndum Ragnars Axelssonar. Tímaritið er í tengslum við kaupstefnuna, sem er sú…

Út er komið veftímarit á vegum ljósmyndakaupstefnunnar Photo London sem alfarið er helgað ljósmyndum Ragnars Axelssonar. Tímaritið er í tengslum við kaupstefnuna, sem er sú stærsta í heimi ásamt kaupstefnunni í París, en hún fer fram dagana 16.-19. maí. Mörg hundruð ljósmyndarar munu sýna þar verk sín, þeirra á meðal Ragnar.

Á vefsíðu stefnunnar, photolondon.org, kemur fram að henni sé sannur heiður að kynna myndir Ragnars með þessum hætti en hann hafi verið óþreytandi að mynda lífið á norðurslóðum í fjóra áratugi. Fjölda mynda eftir Ragnar er að finna í tímaritinu, auk æviágrips, myndbands sem sýnir Ragnar við störf á ísnum á Grænlandi og viðtals Guðna Einarssonar blaðamanns við listamanninn.

Sjálfur er Ragnar hæstánægður með upphefðina. „Það er erfitt að berjast í þessum aðstæðum og þetta gerist ekki af sjálfu sér. Fyrir vikið er mjög ánægjulegt að menn séu alltaf að átta sig betur og betur á norðurslóðum og lífinu þar. Sjálfur er ég ekki með prestshempu að prédika en þykir mikilvægt að skrásetja lífið þarna og þær breytingar sem hafa orðið á lífi fólks og náttúru.“