Unnur Níelsína Jóhannsdóttir fæddist 13. ágúst 1927. Hún lést 22. desember 2023.

Útför fór fram 4. janúar 2024.

Elsku amma mín hún Unnur er fallin frá. Ég hef verið að rifja upp allar góðu minningarnar sem ég á um hana. Þau voru ófá matar- og kökuboðin sem hún bauð okkur í og alltaf var maturinn yndislegur en félagsskapurinn og andrúmsloftið heima hjá ömmu og afa var alltaf svo gott.

Ég man eftir því að hafa fengið að gista hjá þeim og á meðan amma sat og prjónaði og sjónvarpið sýndi einhverja gamla mynd á RÚV þá var ég að prjóna, hekla eða mála eitthvert föndur líka og það var eins og ekkert annað í heiminum skipti máli. Stundum var bara útvarpið í gangi með rólegri klassískri tónlist og maður dundaði sér út í eitt við eitthvert föndur, hún amma kenndi mér að prjóna og hekla. Ég gæti trúlega ekki gert það í dag en undirstaðan er þarna einhvers staðar í hausnum á mér og það er henni að þakka.

Húsið hjá ömmu var eins og eitt ævintýraland á þremur hæðum en kjallarahæðin var reyndar ekki hluti af íbúðinni hennar með stiga upp á 3. hæð sem stenst engar reglugerðir í dag og geymsluloft ásamt skriðrými á milli útveggja sem höfðu hina ýmsu leyndardóma að geyma.

Ég var oft sendur inn í þessi rými til að sækja hina ýmsu kassa með jóla- og páskaskrauti eða annað fyrir ömmu þar sem ég var yngstur af mínum systkinum sem var auðvitað svakalegt ævintýri, þó var það ekki alltaf tilfinningin þegar rykvefurinn þakti andlit mitt í þröngu rými.

Það var árlegur viðburður að við færum í kartöflugarðinn hjá ömmu og afa og settum niður kartöflur, síðan var auðvitað kaffitími og allir fengu kakó og kökur. Seinna fórum við auðvitað líka og tókum upp kartöflurnar og síðan var uppskerunni fagnað með kaffiveislu. Í minningunni var ég svakalega duglegur við þetta allt saman. Hvort það var raunin er ég ekki viss um en hún var samt sem áður alltaf þakklát fyrir aðstoðina og þannig var það alltaf.

Ég man að eitt árið þegar ég var unglingur og amma átti afmæli þá fór ég í blómabúðina og þar sem ég vissi að amma hefði mikið dálæti á blómum keypti ég stærsta blómvönd sem ég hef keypt á ævinni og fór með hann til hennar ásamt platta sem stóð á „Besta amma og afi í heimi“. Hún varð hálfklökk þegar ég kom með þetta til hennar og sagði mér að þetta væri flottasti blómvöndur sem hún hefði fengið og svo fékk plattinn að hanga uppi hjá henni í mörg ár enda þótti það við hæfi.

Alltaf þegar ég hugsa um hana ömmu mína finn ég fyrir miklum kærleik, hún var yndisleg, gjafmild og hjartahlý. Ég á eftir að sakna hennar en ég veit að hún gerði okkur öll að betri manneskjum og ég ætla að gera mitt besta til að vera eins og amma mín.

Takk fyrir allt amma, hvíldu í friði.

Guðmundur Karl Atlason.

Amma Unnur, eins og ömmur eiga að vera.

Ég kemst ekki hjá því að skrifa nokkur orð um ömmu mína. Hún lést rétt fyrir jól, 96 ára að aldri. Ég hitti hana síðast þar síðustu verslunarmannahelgi þar sem hún sagði (lesist með ömmurödd) þetta er nú í síðasta skiptið sem við hittumst. Ókei amma.

Talandi um verslunarmannahelgar, það var þá sem við hittumst fyrir austan. Þá fórum við fjölskyldan á Neskaupstað. Við dorguðum á bryggjunni, fórum í bátinn hans afa Einars (seinna, bátinn Einar afi), fórum á hestbak hjá Villa frænda og fengum piparkökur hjá ömmu (hver bakar piparkökur í ágúst?!).

Þau sem þekkja mig vita að ég elska þrennt: blóm, húðflúr og Star Wars (og manninn minn auðvitað). Ég veit ekki hvort amma hafi verið Star Wars kona en blómakona var hún, og ég vil meina að ef hún hefði lifað aðra ævi hefði hún splæst í að minnsta kosti eitt flúr.

Fyrir einhverjum árum fékk ég bakþanka varðandi flúrin mín, það væri kannski komið of mikið af því góða. Ég var á leiðinni austur með pabba og ætlaði auðvitað í heimsókn til ömmu. Hvað myndi amma segja? hugsaði ég. En hún klappaði mér á handlegginn og sagði: þú ert með svona mikið af fínum blómum. Því það eru auðvitað flest flúrin mín, blómin. Það er nefnilega ágætt að taka fólki bara eins og það kemur. Amma vissi það örugglega en ég er enn að læra það.

Fyrir mér var amma Unnur falleg sumur fyrir austan, bátsferðir, húsfylli af blómum, piparkökur og rauðar krullur. Ég hef alltaf hugsað með mér að ef hún ætti slagorð þá væri það eins og ömmur eiga að vera. Ég er þó ekki hér til að dæma um ágæti amma yfirhöfuð.

Nú er hún farin og heimurinn er öðruvísi, en ég er glöð fyrir hennar hönd því ég veit að hún er í paradís með afa Einari, Unni frænku og öllum hinum.

Hvíldu í friði elsku amma, við munum sakna þín.

Bryndís Lilja.