— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það er best að hafa það, eins og Grænlendingar fara að,“ sagði í slagaranum góða og menn vita út á hvað það gekk, og var talið, af vandlátum og prúðum, að liggja á mörkum þess siðlega.

Það er best að hafa það, eins og Grænlendingar fara að,“ sagði í slagaranum góða og menn vita út á hvað það gekk, og var talið, af vandlátum og prúðum, að liggja á mörkum þess siðlega.

Í bréfinu var á dögunum rifjað upp hvernig að þeir Pútín og Medvedev höfðu það austur í Moskvu, þegar reglur þar eystra miðuðust við, að valdamesti maður landsins sæti ekki á sessi, nema í hæsta lagi í átta ár og þá skuli koma nýr maður, hugsanlega með önnur sjónarmið og tök. En þeir Pútín og Medvedev, sem voru samvaxnir pólitískir tvíburar, töldu sjálfsagt að fylgja stjórnskipunarreglunum varðandi lengd kjörtímabils út í æsar. Nema hvað. Eftir að fyrstu átta forsetaárum Pútíns lauk varð Medvedev forseti og Pútín tók við forsætisráðherraembættinu.

Krókurinn og bragðið

En fljótt varð það ljóst, að þeir félagarnir samhentu áttu krók á móti bragði, þegar stjórnskipunarreglur voru annars vegar. Völd forsetans fluttu í raun á fyrsta degi til forsætisráðherrans og átta árum síðar svo aftur heim. Og þá var talið óhætt að láta af þessum sniðugheitum, sem dugðu svo vel, og reglum breytt í samræmi við veruleikann. Hikstalaust segja menn þar eystra, að valdaskeið Pútíns sem forseta, sem nálgast nú aldarfjórðunginn, sé traust og ekkert fararsnið á honum. Enginn nefnir að Medvedev hafi verið skotið inn á milli valdaskeiða, svona bæði til gamans og hentugleika. Medvedev getur hins vegar glaðst yfir því, að hann er enn innsti koppur í búri Pútíns og gegnir nú sömu verkefnum og hann gegndi sem forseti og er því á hlaupum hvenær sem Pútín hringir bjöllunni. Þegar þeir Pútín skiptu um hatt í fyrsta sinn þar eystra, þá slógu þeir upp þremur hátimbruðum veislum til að fagna því, að ekkert hafði í rauninni gerst, og þótti Pútín og þeim báðum rétt að gera sér glaðan Dag.

Eldurinn enn

Fyrir rúmri hálfri öld hrökk þjóðin illa upp um nótt og var mjög brugðið er það spurðist, að „útdauð“ eldstöð hefði opnast á Heimaey og ógnaði nú byggð og mannslífum. Gríðarlegt tjón varð, en þrátt fyrir þau ósköp öll sló birtu yfir þau við þær blessunarfréttir að flotinn hefði allur verið í höfn og að þau ólíkindi yrðu við þessar aðstæður að mannskapurinn allur næði til meginlandsins og það þótt allstór hluti kaupstaðarins viki fyrir ösku og hrauni!

Þótt færri búi nú í Heimaey en var þar fyrir gos er þar myndarlega að öllu staðið. Þeir sem horfðu um hánótt á að eldstöð opnaðist í örskotsfjarlægð frá fólkinu máttu allir gefa sér að einungis kraftaverk gæti látið þessa hryllilegu atburði enda vel. Þrátt fyrir ógnandi upphaf, áhyggjur og nagandi kvíða, þá gerðist það, á móti öllum líkum, að manntjóni var forðað. Því hefði varla nokkur maður getað trúað í upphafi þessara hamfara. Mörgum verður að vonum hugsað til þessara atburða eftir að gostíð hófst á Reykjanesi og þeir, sem best þekkja til, virðast telja að sú þróun geti verið fyrirboði langvarandi eldsumbrota á þessu svæði, þótt mishætt sé eftir svæðum, og jafnvel sé varlegast að ætla, að það ástand geti orðið með stuttum hléum og staðið um aldir.

Þau gos sem orðið hafa síðan þessi hrina hófst þótti ýmsum allt að því skemmtiefni, „túristagos“ sem gæti gert ferðamannastraumi hingað gagn. Það er óþarft að agnúast eða amast við því, að fólk kjósi að horfa á björtu hliðarnar á meðan það sé fært. Þau sjónarmið hafa þó ekki dregið úr tilraunum manna til að búast til varna, og gera sitt til að minnka eitthvað það tjón, sem orðið er ljóst að verður, ef atburðarásin fer á versta veg.

Grindavík í sigti

Við höfum fengið smjörþefinn af þeirri atburðarás í Grindavík. Jarðskjálftarnir einir hafa valdið þar miklu tjóni, manntjóni einnig. Það er því ekkert undarlegt að brottreknir íbúar þaðan af náttúrunni séu ekki aðeins uggandi um sinn hag, þegar til næstu tíðar er horft. Sérfræðingar þeir, sem einkum er horft til núna, hafa á síðustu árum og áratugum aflað sér haldgóðrar menntunar, sem kemur mjög við sögu þessara atburða. Er til efs að margar, ef þá nokkrar, þjóðir búi jafn vel hvað þessa sérþekkingu snertir, og hér er tiltæk. Þessi vísindi eru ung og er iðulega horft til skáldsins góða, sem upphafsmanns innlendrar þekkingar á þessu sviði. Þó er ekkert að því að viðurkenna að skáldið sem mest vissi þá hefur augljóslega vitað næsta lítið, en þó mun meira en landarnir. Og þótt Jónas eigi margvíslegan heiður inni, sem helsta skáld þjóðarinnar, fyrr og síðar, þá á hann aðdáun skilið fyrir að skynja að þarna væri verkefni sem Ísland yrði að fóstra umfram aðra.

Það fer ekki fram hjá neinum að íslenskir jarðfræðimenn eru þar nú í fremstu röð, enda, eins og einhver þeirra sagði fyrir allnokkru, hjálpaði auðvitað að búa á tilraunastofunni sjálfri. En hvað sem því líður, þá er einnig til fyrirmyndar, að þeir sem fengnir eru hverju sinni, til að upplýsa almenning um helstu þætti og líklega þróun, minna gjarnan á, að þótt vitneskju hafi fleygt fram og margt sé vitað nú, sem var ekki áður, skuli ítreka að enn sé margt á huldu varðandi stóra þætti og smáa. Og við líkjumst mörg Ara litla: „Hvenær lýkur gosi? Hvenar gýs á ný? Og þá hvar?“ Vísindamennirnir eru auðvitað nær því að svara slíkum spurningum en aðrir, en stundum verða þeir að geta í eyður.

Fulltrúar ríkisstjórnar áttu opinn fund með þeim Grindvíkingum, sem gátu mætt, og var hann að vonum fjölsóttur. Óneitanlega var þungt hljóð í flestum sem tjáðu sig. Það gerði allt gagn. Þar lá ekki í þagnargildi hverjar helstu áhyggjurnar væru og hve óvissan um framhaldið er þrúgandi. Mörgum þótti fátt vera um svör frá ríkisstjórninni. En meginerindi hennar var þó auðvitað það að hlusta og hún fór með mikið veganesti af fundinum. Athugasemdir beindust auðvitað í ýmsar áttir, enda hagur um 4.000 Grindvíkinga misjafn, þótt eldurinn undir sé sameiginlegur óvinur. Og auðvitað kom í ljós að vandi einstaklingana er ólíkur mjög. Þótt þeir séu allir að horfa framan í sömu hamfarirnar, þá er persónulegt tjón þeirra mismikið. En það kann allt að breytast við þær ákvarðanir sem ríkisstjórnin tekur áður en langt um líður.

Suðurlandsskjálftarnir gengu yfir 17.-21. júní árið 2000, en þá höfðu ekki orðið meiriháttar skjálftar þar í 88 ár eða frá árinu 1912. Átta árum síðar varð mikill jarðskjálfti 29. maí 2008. Báðir þessir skjálftar voru miklum mun stærri en þeir í Grindavík nú. En þó eru það ekki síst skemmdir í skjálftunum þar, sem vekja efasemdir með íbúunum og þeir efast um, hvort þangað geti þeir aftur horft sem framtíðarheimilis. Við það allt bætist svo sú tilfinning, sem fylgir nagandi óvissu um það hversu öruggt fólkið geti orðið í sinni gömlu heimabyggð. Auk skemmdanna, sem skjálftarnir unnu í samfélaginu og þar með talið sláandi dauðaslys, sem dregur athygli á að gildrur leynast nú víða um bæinn. Gefum okkur það, að takast megi að staðsetja og skrá allar þær sprungur og jafnvel gera þær hættulausar, er svo stóra atriðið sem ekki gleymist. Eldgos hefur þegar bankað á dyr byggðarlagsins. Er það eitthvað annað en er í Eyjum? Það eru ekki síst spárnar um það, að nú sé ballið, sem enginn sér fyrir enda á, loksins hafið.

Viðvörunarbjöllur ólmast

Almannavarnir og lögregla höfðu rýmt svæðið í tæka tíð. Þeir aðilar höfðu ætlað sér að geyma þá aðgerð í tvo daga eða svo, en þá lásu sérfræðingar okkar nýjan veruleika úr skjálftahrinum, og að ekki væri til setu boðið. Sérhver, sem að kom, eins og svo oft áður, á miklar þakkir. Gosið lét ekki bíða eftir sér lengur í þetta sinn. Það kom upp á tveimur stöðum, þar á meðal nánast inni í mannlausu byggðarlaginu.

Þannig gos höfðu sýnt sig fyrir hálfri öld í Vestmannaeyjum og stór hluti eyjarskeggja ákvað síðar að hverfa heim á ný. Vandinn núna er hins vegar sá, að þeir, sem best þekkja til sögunnar og eðlis þessara mála, telja að með fyrstu gosunum á Reykjanesi, fyrir fáeinum árum, væri þeirra tími hafinn og að hann gæti staðið lengi. Jafnvel í hundruð ára. Enginn getur þó sagt nákvæmlega hversu langur tími muni líða á milli einstakra gosa eða um hvert og eitt þeirra, um komutíma þeirra eða nákvæma staðsetningu. Þau gos, sem urðu á undan þeim tveimur sem síðast lauk, vöktu með mörgum falskar vonir og elskulega óskhyggju. Þangað flykktust menn í hrönnum, fótgangandi dugnaðarforkar og ferðalangar sem sumir komu langt að. Kannski voru svona gos allt að því upplögð nýjung í tilveruna og jafnvel búhnykkur. Gosin, sem bar við Keili úr Ægisíðunni, hefðu glatt fleiri en Kjarval, sem mundað hefði pensilinn. En gosið í Grindavík hefur kippt okkur öllum inn í nýjan veruleika. Og út úr honum sleppum við ekki svo létt. Stjórnmálamenn vöknuðu eins og aðrir.

Nú þarf að kaupa íbúðir

Af hverjum? Höfuðborgin hefur verið skammarlega rekin að undanförnu, er skuldug upp í rjáfur og vegna þráhyggju um „þéttingu byggðar“, sem hentar einungis efnafólki, og andúðar á bifreiðum, þá hefur sáralítið verið hugað að nýjum lóðum. Ríkisstjórnin hefur fyrir löngu gefið málefni „flóttamanna“ frá sér í hendur sérlegra áhugamanna um þann málaflokk og hafa fyrir löngu misst tök á málinu, sem hefnir sín núna. Það er búið að reyta upp hvern kima til þess að bregðast við. Stöðva verður þennan flaum, ekki síðar en strax, og taka hann úr höndum áhugamanna og sérvitringa.

Bandaríkin engjast öll vegna „löglausra“ flóttamanna í tíð Joes Bidens og verður það mál forsetanum erfitt í haust. Það mál hefur aldrei farið svo mjög úr böndunum þar vestra eins og nú. En miðað við íbúafjölda á hvorum stað munar furðulitlu. Það er enginn slíkur straumur með flugvélum vestur. Ekki neinn. Það er aðeins á suðurlandamærum, þar sem vaða má yfir ár, úr Suður- og Mið-Ameríku og inn í Bandaríkin. Flugfélögin eru sektuð vestra flytji þau „flóttamenn“. Það er ekki gert hér og vekur furðu. Við álpuðumst í Schengen-samstarfið. Það voru meginmistök. Um það var ágreiningur í ríkisstjórn, en tveir fagráðherrar þar lögðu á það ofurkapp. Svo kom á daginn hvað að baki bjó. Þessir tveir áttu leynda drauma um að þrengja Íslandi inn í ESB hveð sem tautaði og raulaði.

Danir voru komnir í ógöngur, en höfðu manndóm til að streitast á móti. Svíar eru í hreinum ógöngum sem þeir munu lengi súpa seyðið af. Bretar hafa einnig misst sín tök og berjast um að fá málið lagfært. En Frakkar, í hefndarskyni vegna Brexit-útgöngu Breta, gera ekkert til að stemma stigu gegn því að „bátaflóttamenn“, sem glæpaklíkur stjórna, leggi yfir Ermarsundið og það þótt fjöldi manna hafi farist í þessum leiðöngrum. Í nágrannaríkinu Írlandi, sem er lítið land og fámennt, eru íbúar í bænum Rosslarce Harbour komnir með upp í kok. Þegar fjórða hótelið í bænum var tekið undir flóttamenn brugðust þeir loks við. „Nú er komið nóg.“ Írland hefur tekið á móti 100 þúsund flóttamönnum frá Úkraínu einni! Þeir sem andæfa því hvernig komið er og hvetja til stillingar vonast til að hófstillt kjörorðið: „Nú er komið nóg“ dugi til þess að ríkisstjórnin, sem misst hefur vitið í þessum efnum, finni að minnsta kosti brot af því aftur.

Ekkert bendir hins vegar til þess að íslensk yfirvöld sjái að sér, áður en það verður um seinan. Það er af mörgum talin meginástæða þess, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur vindinn í fangið um þessar mundir og er hann smám saman að breytast í storm.