Kanni Japanski tunglkanninn SORA-Q sem lenti á tunglinu í gær.
Kanni Japanski tunglkanninn SORA-Q sem lenti á tunglinu í gær. — AFP/JAXA/TakaraTomy/Sony/Doshisha
Japönum tókst í gær að láta fjarstýrt könnunarfar lenda á tunglinu. Er Japan fimmta ríkið sem nær þessum áfanga. Áður hefur Bandaríkjunum, Sovétríkjunum, Kína og Indlandi tekist þetta. Japanir hafa áður gert tvær tilraunir til að senda far til tunglsins en þær mistókust

Japönum tókst í gær að láta fjarstýrt könnunarfar lenda á tunglinu. Er Japan fimmta ríkið sem nær þessum áfanga. Áður hefur Bandaríkjunum, Sovétríkjunum, Kína og Indlandi tekist þetta. Japanir hafa áður gert tvær tilraunir til að senda far til tunglsins en þær mistókust.

Ekki gekk þó allt að óskum í gær því sólarsellur farsins náðu ekki að framleiða rafmagn. Sagðist japanska geimferðastofnunin, JAXA, því einbeita sér að því að safna upplýsingum frá farinu um lendinguna áður en rafhlöður þess tæmast og sambandið rofnar.

Vísindamennirnir hafa þó ekki gefið upp alla von um að sólarsellurnar virki síðar þegar sólarljós fellur á þær.

Farinu var skotið upp frá Tanegashima-geimstöðinni í Japan í september á síðasta ári og hefur verið á braut um tunglið. Rétt fyrir lendinguna í gær átti það að skjóta út tveimur tækjum, annars vegar eins konar stökkvandi róbóta, sem vegur um 2 kg, og hins vegar kúlulaga tæki á stærð við tennisbolta, SORA-Q, sem átti að opnast eins og Transformer-leikfang en fyrirtækið Tomy, sem framleiðir þau leikföng, tók þátt í hönnun tækisins. SORA-Q er búið tveimur myndavélum og á að geta hreyft sig úr stað og hlutverk þess var að taka myndir af grjóti í Shioli-gígnum á framhlið tunglsins þar sem það lenti. Óvíst var hins vegar í gær hvort þetta gengi eftir.

Svo virðist sem tekist hafi að lenda tunglfarinu innan við 100 metrum frá áætluðum lendingarstað, sem telst mikil nákvæmni en yfirleitt getur skeikað nokkrum kílómetrum. Hitoshi Kuninaka aðstoðarforstjóri JAXA sagði á blaðamannafundi í Tókýó í gær að þetta væri mikilvægur árangur sem myndi nýtast í síðari geimferðum.