Viðtal
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
Í Flökkusinfóníu sem er 25 mínútna verk eftir myndlistarkonurnar Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur í Gjörningaklúbbnum renna myndlist, tónlist og kvikmyndalist saman í eitt en verkið verður sýnt á fimmtudaginn, 25. janúar, klukkan 19:30 í Eldborgarsal Hörpu.
„Þetta er verkefni sem byrjaði í raun fyrir fimm árum þegar fræinu var sáð að þessari hugmynd, Gjörningaklúbburinn og Sinfó, en síðan þá höfum við verið að vinna að því og farið í gegnum alls kyns tilraunir og slíkt,“ segir Eirún og Jóní bætir við að helstu þræðirnir í sinfóníunni séu að þær vinni út frá samkenndinni. „Við erum með flökkutaugina í forgrunni en sagt er að hún sé samkenndartaugin í líkama manneskjunnar og tengi saman líffærin í maganum og heilann, tengi saman alla helstu leikara líkamans, frá krúnu til kúlu,“ segir hún.
Segja þær stöllur verkið bjóða upp á abstrakt ferðalag þvert á tungumál þar sem flökkutaugin sé virkjuð og ýtt undir einstaklingsbundna og um leið hnattræna samkennd þvert á menningarheima í sífellt misskiptari heimi. „Það er svo mikilvægt að þessi flökkutaug sé í jafnvægi í líkamanum svo þessi samkennd finnist og teygi sig út á milli manneskja og um allan heim.“
Dolly Parton sameiningartákn
Talið berst að Dolly Parton-hlaðvarpinu, Dolly Parton’s America, þar sem þær Jóní og Eirún segja að komi svo vel fram hvað tónlistin, sér í lagi kántrítónlistin, tengi saman ólíka heima og fólk með ólíkar trúarskoðanir, sögur fólks og lífsviðhorf.
„Því er einmitt lýst svo vel þegar fólk er að fara á tónleika með Dolly að þá er bara einhver harðkjarna repúblikani við hliðina á einhverjum transa, bara mjög ólíkt fólk. Dolly er eiginlega þetta sameiningartákn, það er einhver svona samkennd sem hún stuðlar að á milli fólks með því að vera hún og það sem hún segir, gerir og syngur um. Hún nær einhvern veginn að tengja alla saman í smástund án þess að fólk sé endilega að hugsa um að það sé hvað á móti öðru, hún nær því að sameina fólk,“ segja þær og bæta við að mannfólkið sé jú allt á einni jarðarkúlu og öll landamæri séu í raun tilbúningur og mannanna verk. Þá sé Flökkusinfónían ferðalag í gegnum sjö heimsálfur líkamans.
„Listirnar, eins og tónlistin og myndlistin, hafa kannski ekki þessi skýru landamæri eins og fólkið ákveður að heimurinn eigi að vera. Listirnar ferðast á milli og það er ekkert sem stöðvar þær. Það eru engin landamæri í tónlist eða landamæri í myndlist,“ segir Jóní og Eirún tekur í sama streng.
Gamall draumur að rætast
Spurðar út í samspil tónlistarinnar og verksins segja þær allt skynróf líkamans virkjað á flakki um óræða heima á mörkum draums og veruleika en við gerð Flökkusinfóníunnar fengu þær til liðs við sig tónskáldin Ólaf Björn Ólafsson og Unu Sveinbjarnardóttur ásamt einvala liði kvikmyndagerðarfólks, dansara, leikara og fimleikafólks.
„Við höfum ekki unnið með Sinfóníuhljómsveitinni áður en þetta er stærsta verkefnið á okkar ferli, sem spannar bráðum 28 ár. En við höfum alltaf látið okkur dreyma um svona stórt samstarf og grínuðumst með það fyrir tuttugu og eitthvað árum að gera eitthvað með Sinfó og nú er það bara að rætast og alls konar tilviljanir, og ekki tilviljanir, sem hafa ráðið því,“ segir Eirún.
„Já, svo má gjarnan segja frá því að hljómsveitarstjóri verksins er mjög ungur, hann Ross Jamie Collins, en hann er eiginlega jafn gamall hugmyndinni um að vinna með Sinfó,“ segir Jóní. „Einmitt, hann hefur bara verið að fæðast þarna og það þurfti svo þennan tíma, einn lífaldur eins hljómsveitarstjóra, áður en hugmyndin varð að veruleika,“ bætir Eirún við svo þær skella báðar innilega upp úr.
Risastór sjón- og tónheilun
Þá segja þær áhorfendur mega búast við stórskemmtilegu kvöldi þar sem um sé að ræða risastóra sjón- og tónheilun.
„Þarna koma saman í raun allar listgreinar. Þetta eru ekki bara tónleikar heldur kvikmynd sem við erum búnar að gera og inn í það fléttast líka leiklist og dans og í raun koma allar listgreinar saman í þessu verki. Við erum sjálfar að „performera“ í lifandi flutningnum þannig að þetta er miklu meira en bara tónleikar.“
Nefna þær að tónskáldin í verkinu, þau Ólafur Björn og Una, séu lykillinn að því að samspilið gangi upp. „Við erum með alls konar hugmyndir og áherslur þegar kemur að tónlistinni en það eru þau sem við erum í sterkri samvinnu við og þau sem kunna á hljóðfæri, við kunnum ekki á nein hljóðfæri. Þau þurfa að skynja okkar sjónrænu hugmyndir en þau eru búin að vera alveg stórkostlegir vinnufélagar eins og allt teymið sem kemur að þessu með okkur.“
Fengu aðstoð miðils
Flökkusinfónían byggist meðal annars á upplifun miðils á forsögu elstu hljóðfæra Sinfóníuhljómsveitar Íslands og segja þær Jóní og Eirún að notuð séu hljóðfæri í verkinu sem hafi sjaldan og jafnvel aldrei verið notuð.
„Það kemur út frá því að við vorum með miðil með okkur, fórum í hljóðfærageymslu Sinfóníunnar og sáum allt sem var í boði þar og fundum fyrir ákveðnum sögum og myndum í gegnum miðilinn. Við sem myndlistarkonur horfum á þessi hljóðfæri allt öðruvísi en tónskáldin og þannig náum við að vinna saman með þeim eitthvað nýtt sem hefur vonandi aldrei verið gert áður. Svo er Gjörningaklúbburinn líka búinn að búa til nýtt hljóðfæri sem verður notað þarna með sveitinni,“ segir Jóní.
„Við höfum unnið með þessum miðli áður en þetta er í þriðja sinn sem við erum að vinna að svona stóru verkefni og biðjum hana að koma í upphafi hugmyndavinnunnar, þetta er svona vinnuaðferð hjá okkur sem við köllum „miðil miðil“. Í þessu tilfelli var hún svona hlutamiðlari og skynjaði tilfinninguna í hljóðfærunum en það eru mjög gömul hljóðfæri þarna, meðal annars 400 ára gamlar fiðlur, sem hún er að skynja,“ segir Eirún og Jóní bætir því við að miðillinn sjái einmitt alls kyns myndir, liti og jafnvel sögur, til dæmis í gegnum fyrri eigendur hljóðfæranna.
„Þeir sem eru búnir að vera lengi með hljóðfærið skilja eftir sig ákveðinn persónuleika í hljóðfærinu, hann kemur með eigandanum sem er ótrúlega áhugavert. Þetta mun allt tvinnast inn í þetta sjónræna og auðvitað tónlistina.“
Hvergi nærri hættar
Að síðustu leikur blaðamanni forvitni á að vita hvernig Gjörningaklúbburinn ætli að fara að því að toppa sig eftir svona viðamikið og stórt verkefni. „Það sem er svo skemmtilegt við þetta verkefni er að tónleikarnir eru teknir upp og hljóðrásin sett undir myndina. Myndin fer líka í spilun í kvikmyndahús, söfn og gallerí með hljóðrás Sinfóníunnar þannig að það er framhaldslíf þó þetta sé ekki bara lifandi flutningur. Aðrar hljómsveitir geta svo auðvitað tekið verkið upp þannig að við erum strax byrjaðar að vinna í því að koma því áfram annars staðar með öðrum sveitum. Þetta er fyrst og fremst myndlistarverk þannig að við hugsum þetta mikið inn í myndlistarsamhengið og inn í alla miðla. En já, toppa sig, við munum auðvitað toppa þetta, ekki spurning.“