Ríkisstjórn Íslands er í andarslitrunum. Öll stóru orðin um að brúa bilin í samfélaginu, leita sáttaleiða, koma í veg fyrir skautun í stjórnmálaumræðunni og skapa stöðugleika í efnahagslífinu, eru nú marklaus – fokin út í buskann.
Ég ætla ekki að gera lítið úr því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur fengið nokkur óvænt og stór verkefni í fangið á líftíma sínum. Heimsfaraldurinn sem geisaði í tæp þrjú ár reyndi á en hann reyndi líka á heimsbyggðina alla á sama tíma. Forystufólk ríkisstjórnarinnar gaf sérfræðingum eftir sviðið og upplifun almennings var að það góða fólk bæri ekki síður ábyrgð á nauðsynlegum og erfiðum ákvörðunum en ráðherrarnir. Á pólitíska sviðinu skapaðist því skjól sem vandfundið er á þeim berangri. Og í því skjóli endurnýjuðu formenn Vinstri grænna, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins heitin haustið 2021 á meðan talið var upp úr kjörkössunum í Borgarnesi.
Efnahagsaðgerðirnar sem gripið var til á heimsfaraldursárunum reyndust þegar allt kom til alls eldsmatur þenslu, verðbólgu og nær endalausra vaxtahækkana. Afleiðingarnar má sjá í lífskjaraskerðingu þeirra efnaminni í samfélaginu. Ungt fólk er fast heima hjá foreldrum sínum. Leigjendur búa við okurkjör og þau sem festu kaup á húsnæði með lánum á breytilegum vöxtum glíma nú við þunga greiðslubyrði. Neyðarástand hefur í raun ríkt á húsnæðismarkaði árum saman og fátt bendir til þess að þessi stjórn hafi í sér dug til að grípa til ráðstafana sem duga til að efla húsnæðisöryggi fólksins sem byggir Ísland.
Fyrir helgi skrifaði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sig út úr ábyrgri og lýðræðislegri umræðu um málefni útlendinga hér á landi með ósmekklegri samsuðu útlendingaandúðar og hræðsluáróðurs. Þar fór fyrir lítið málflutningur forsætisráðherra um að þetta stjórnarsamstarf henti svo vel til að koma í vel fyrir skautun og öfga í stjórnmálaumræðunni.
Þá kem ég að jarðhræringum og eldgosum á Reykjanesskaga. Samfylkingin hefur frá upphafi lýst því yfir að hún muni styðja nauðsynlegar aðgerðir vegna náttúruhamfaranna og hrikalegra afleiðinga þeirra fyrir Grindvíkinga, heimili og fyrirtæki. En þær ákvarðanir þarf að taka í samstarfi við stjórnarandstöðuflokkana og það þarf að formgera eins og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar benti á í gær. Við öxlum þessar byrðar saman sem samfélag og skiljum engan eftir. Það gerist best í samstarfi meiri og minni hlutans á Alþingi. Samfylkingin mun ekki liggja á liði sínu í þessu mikilvæga verkefni.
Erindi þessarar ríkisstjórnar er þrotið. Verkefnin sem leysa þarf verða aðeins leyst í samvinnu allra flokka á Alþingi Íslendinga. Því fyrr sem boðað er til alþingiskosninga, því betra.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar – jafnaðarflokks Íslands.