Margrét Ágústa Arnþórsdóttir fæddist 17. ágúst 1938. Hún lést 21. desember 2023.

Útför Margrétar fór fram 6. janúar 2024.

Elsku Magga.

Ég trúi ekki að þú sért farin frá okkur, þessi fregn var mér þungt högg. Þú varst mér sem önnur mamma og vinkona, börnunum mínum sem yndisleg amma og meira en það. Ég var ekki gömul þegar ég kynntist Guðmundi þínum en varð strax ein af stelpunum þínum. Við Jónína áttum margar góðar stundir hjá ykkur í Pálmalundi þegar við vorum ófrískar að okkar fyrstu börnum, þessara stunda minnist ég með gleði og hlýju. Á meðan við byggðum húsið okkar bjuggum við í Árnesi og þá fóru krakkarnir oftar en ekki í garðinn til ömmu að leika og í pössun á meðan unnið var í húsinu. Þú varst alltaf að baka og ósjaldan komstu með brauð með kaffinu fyrir okkur og smiðina og athugaðir hvort það væri ekki eitthvað sem þú gætir gert okkur til aðstoðar. Þú varst alltaf svo glæsileg, hvort sem þú varst heima að brasa eða að fara eitthvað fínt. Þú hafðir einhvern extra ljóma og varst mikil smekkkona sem gott var að leita til með álit á hvað væri betra en annað. Börnin mín elskuðu að fara yfir í pönnukökukaffi til Möggu ömmu og var það ósjaldan sem þú bakaðir pönnsur ef allir voru heima og komst með í kaffinu eða þegar afmæli eða veislur voru á heimilinu.

Elsku Magga mín, mikið á ég eftir að sakna þess að fá þig í heimsókn í spjall yfir kaffibolla og fá þig með mér í garðinn að gleðjast yfir vorinu, blómunum og fuglasöngnum. Mikið var gaman að koma til ykkar í Lundskóg og dvelja með ykkur í þeirri paradís, þú búin að tína lúpínur og önnur skógarblóm og setja í vasa, úti sem inni, og Hermann búinn að setja út luktir og ljós, það voru góðar stundir. Það sem ég á eftir að sakna þess að fara með þér og Hermanni á rúntinn í kaffihlaðborð og á markaði. Ferðalagið okkar vestur var alveg dásamlegt, þið frædduð okkur Hafrúnu um allt sem fyrir augu bar, þið voruð bæði tvö full af fróðleik og gátuð kennt okkur ansi mikið. Það er svo ótal margt sem ég myndi vilja setja hér á blað en ég geymi það í huga mér og minnist þess með hlýju í hjarta.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig og mína fjölskyldu þegar elsku Gummi okkar kvaddi þennan heim. Ég verð ykkur Hermanni ævinlega þakklát fyrir það hvernig þið hugsuðuð um okkur á þessum erfiðu tímum.

Hjartans þakkir fyrir að vera sú rós og það ljós sem þú varst í lífi mínu og annarra.

Elsku Magga mín þín verður sárt saknað.

Þín

Anna Guðrún (Gunna).

Elsku yndislega amma.

Það er ákaflega sárt að hugsa til þess að samverustundirnar og símtölin verði ekki fleiri í bili. Þú varst okkur ómetanleg. Það geislaði af þér hlýjan og góðmennskan. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst þér alltaf að vera heimilisleg og stórglæsileg á sama tíma. Þú hafðir einhvern aukaljóma þegar þú vaknaðir á vorin, sólin fór að skína og fyrstu blómin brutu sér leið í gegnum það sem eftir var af snjónum. Þá fórstu í sumarblómaleiðangur og keyptir blóm í öllum litum til að fegra garðinn þinn.

Frá því að við systkinin munum eftir okkur hefur þú verið stór partur af okkar lífi. Við systkinin nutum þeirra forréttinda að alast upp í næsta húsi við ykkur afa.

Það var alltaf voðalega gott að koma til ykkar í Pálmalund, eins og tíminn stæði í stað. Ekkert stress, engin tilgerð, aðeins væntumþykja og góðvild.

Þar var alltaf hægt að ganga að þér vísri með svuntuna inni í eldhúsi, eiga góða stund með þér og afa yfir rjúkandi kaffibolla og tala um allt milli himins og jarðar. Heimsóknirnar einkenndust alltaf af léttleika og glensi, líkt og þér einni var lagið. Þú skaust á afa, hnipptir í okkur hin og glottir. Þú varst alltaf í góðu skapi.

Þú varst svo góð og vildir allt fyrir okkur gera. Þegar við komum heim bakaðir þú ýmist eða eldaðir það sem okkur þótti allra best. Þegar Hafrún fékk covid varst þú svo hrædd um að hún borðaði ekki nóg af ávöxtum svo þið afi gerðuð ykkur ferð í bæinn til að kaupa fullan haldapoka af ávöxtum og nammi. Þetta skilduð þið eftir fyrir utan hjá henni ásamt bestu upprúlluðu pönnukökunum með miða sem á stóð „kveðja amma“.

Þú varst yndisleg amma, alltaf að hugsa til okkar, hvernig okkur öllum liði og hvort eitthvert okkar vanhagaði um eitthvað. Það speglast vel í því að það voru þín síðustu verk að gleðja aðra.

Berjakerlingin elskaði að fara á gömlu góðu staðina frammi í dal og víðar. Sitja á blárri þúfunni og hlusta á vatnsniðinn i ánni. Ógleymanlegir eru allir skemmtilegu leiðangrarnir í leit að besta rabarbaranum í sultuna, sultuna sem fór svo í heimsins bestu randalínu. Allir dásamlegu dagarnir í Sælulundi, ferðalögin, kvöldsundið á Þelamörk og markaðsferðirnar. Ferðirnar með þér voru alltaf ævintýri.

Þú hafðir ótrúlega gott auga fyrir fallegum hlutum og fötum. Best kunnir þú samt að meta gamla, vel gerða og fallega hluti.

Elsku amma, vinkona og límið okkar, það er því miður komið að kveðjustund að sinni.

Okkur langar að þakka þér fyrir svo margt elsku amma. Við verðum þér ævinlega þakklát fyrir allt það sem þú gerðir fyrir okkur þegar pabbi kvaddi og allt það sem þú hefur gert fyrir mömmu síðan þá. Það er okkur ómetanlegt. Takk fyrir allar þær gleðistundir sem við höfum átt saman, fyrir allt sem þú kenndir okkur, fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og alla hlýjuna.

Elsku amma, takk fyrir að vera þú sjálf og sýna okkur hinum hvernig á að tækla lífið með húmor og manngæsku. Þú settir standardinn hátt.

Lífið verður ekki eins án þín.

Sigurlaug, Hermann, Hjörvar og Hafrún.