Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir
Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir
Orð hafa svo mikil áhrif að það er jafnvel hægt að hvetja þjóðir og samfélög manna til dáða á erfiðum tímum með orðum einum saman.

Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir

Án efa var einn besti ræðumaður íslenskra stjórnmála fyrr og síðar Bjarni Benediktsson eldri. Hann ritaði ræðurnar sínar sjálfur, lagði mikið upp úr setningaskipan og valdi orð sín af mikilli kostgæfni. Heimildir eru fyrir því að iðulega tóku ræður hans breytingum eftir að hann var búinn að „lesa salinn“ og þar með öðlast tilfinningu fyrir því hvað fólk vildi í raun og veru heyra hann segja. Þingmennskan hefur alið af sér marga góða stjórnmálamenn, ræðuskörunga sem búa yfir miklum sannfæringarkrafti og tala af ástríðu. Orð hafa áhrif og með orðum er hægt að hreyfa við skoðunum fólks. Með orðum er hægt að hafa áhrif á líf fólks. Orð hafa svo mikil áhrif að það er jafnvel hægt að hvetja þjóðir og samfélög manna til dáða á erfiðum tímum með orðum einum saman. Þau sem á hlýða búast ætíð við því að orðum fylgi efndir, þess vegna er svo mikilvægt að velja orð sín af fádæma kostgæfni. Það er í senn hæfileiki og list.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir að: alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Það þýðir í raun að alþingismenn eru eingöngu bundnir af orðum sínum og kjósendur geta ekki sett þingmanni sínum neinar reglur um það hvaða afstöðu hann skuli taka í þingmálum, hvorki almennt né í einstökum málum. Alþingismenn geta því í raun notað orð sín í hvaðeina sem er; afhjúpað afstöðu sína, sýnt styrk sinn, samkennd, skilning og jafnvel tjáð sig óháð flokkslínum. Þingmanni er nefnilega ekki skylt að hlíta neinum fyrirmælum frá ríkisstjórn, enda er það hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með ríkisstjórninni. Alþingismaður er umboðsmaður þjóðarheildarinnar en ekki fulltrúi tiltekins kjördæmis, ákveðins stjórnmálaflokks eða ríkisstjórnar. Hann er einungis bundinn af sinni eigin sannfæringu og þar af leiðandi sínum eigin orðum. Að vera hluti af þingliði stjórnarþingmanna eða stjórnarandstöðu skiptir hreinlega ekki máli í lok hvers dags.

Orð geta einnig verið til einskis og fyrir þau sem á hlýða er það iðulega upplifunin, ef ekki er hægt að fylgja þeim eftir með gjörðum. Alþingismenn hafa mikil tækifæri til að setja mark sitt á þingmennsku sína með orðum, hvort sem er með greinaskrifum, þingmálum eða þingsályktunum. Þeir hafa tækifæri til þess að koma orðum sínum í framkvæmd því stjórnarskráin tryggir þeim öryggi í starfi og óskoraðan sjálfsákvörðunarrétt að lögum því þingmenn halda umboði sínu til kjördags, þrátt fyrir þingrof.

Þetta er engu að síður svo áþreifanlega fjarri raunveruleikanum. Ég hef látið í ljós þá skoðun mína að það á ekki að skipta máli fyrir atvinnugrein eins og landbúnað hverjir eru hér við stjórnvölinn. Metnaður ráðherra málaflokksins og þingmanna á að vera fyrir hönd atvinnugreinarinnar þar sem bóndinn fær að sinna sínum verkefnum í þágu einstaklingsframtaksins og í þágu þjóðar án þess að stjórnvöld séu að finna til grjótið til að setja í veg hans.

Stundum leggja þingmenn fram frumvörp eða þingsályktunartillögur sem þeir hafa sjálfir samið en slík mál ná aldrei fram að ganga nema þau séu studd af ríkisstjórninni. Eru orð þeirra þá til einskis? Fylgjum við hefðbundnum kenningum um vestrænt fulltrúalýðræði? Búum við sem þjóð við raunverulegt þingræði eða er hér við lýði ráðherraræði? Hvernig viljum við að alþingismenn noti orðin sín? Ég tel að við viljum öll að þingmenn okkar noti orðin sín á skynsamlegan máta eða líkt og sænski rithöfundurinn Ester Riwkin komst svo vel að orði: „Skynsamleg orð eru viturleg, þangað til þau eru orðin annað og meira en orðin tóm, eru orðin að veruleika.“

Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Höf.: Vigdís Ósk Häsler Sveinsdóttir