Svala Tómasdóttir fæddist 13. febrúar 1948. Hún lést 23. desember 2023.

Útför Svölu fór fram 9. janúar 2024.

Ég man þá tíð, að ég var lítill snáði að skondrast um syðsta hluta Brekkunnar á Akureyri. Þá lá leiðin oft suður og niður í Gil, þar sem var leikvöllur og margt barna. Oft endaði ég inni í Lækjargötu 6, þar sem frændfólk mitt tók alltaf vel á móti stráknum. Þar gat ég átt von á að hitta frændur mína Jónsa, Skjöld eða Hrein, aðaltöffara bæjarins þá, eða systur þeirra Guðbjörgu eða Svölu. Tommi föðurbróðir minn var líka stundum heima og kona hans, Hulda Emilsdóttir, tók mér alltaf vel.

Þar var líka Sigurlína, föðuramma mín Sigurgeirsdóttir, sem alltaf var eitthvað að sýsla, en sagði ekki margt við strákinn að óþörfu. Þarna hafði hún komið börnum sínum til manns. Fimm fyrirferðarmiklum drengjum og tveimur stúlkum. Bóndi hennar og afi minn, Jón Emil Tómasson, féll fyrir krabbameini þegar börnin voru kornung; það elsta 18 ára og það yngsta fjögurra ára. En amma var hörkutól og tókst henni að halda hópnum saman með þrotlausri vinnu og dyggri aðstoð elstu barnanna. Þau voru nefnd „Tommarar“, sennilega vegna þess að faðir þeirra var oft nefndur „Jónsi Tomm“. Flest þeirra hófu sinn búskap í Lækjargötu 6, á neðri hæðinni eða í risinu.

Þegar ég var að skondrast í Lækjargötunni strákurinn hitti ég þar oft fyrir Svölu frænku mína, sem var árinu eldri en ég. Við lékum okkur gjarnan saman, þótt það þætti nú varla við hæfi á þeim árum að strákar væru að leika sér með stelpum! En ég lét mig nú hafa það samt og mér þótti félagsskapur Svölu góður og gefandi. Hún var rólynd og þolinmóð við strákinn.

Svo liðu árin og við Svala fór sitt í hvora áttina. Svala fór í húsmæðraskóla og hún fór ekki langt eftir mannsefninu; hann var í næsta húsi í Hafnarstrætinu; Rafn Herbertsson, sem lengi var verkstjóri hjá Vatnsveitunni. Þau bjuggu í fyrstunni í Hafnarstrætinu, því Svala tók að sér heimilishald fyrir föður sinn eftir að móðir hennar lést úr krabbameini 1966. Þá var Helga yngri systir Svölu enn á barnsaldri og þær systur nátengdar. Þessu ráðskonu- og móðurhlutverki skilaði Svala með miklum sóma. Síðar byggðu Rabbi og Svala sér heimili á Brekkunni með dætrum sínum; Huldu og Kolbrúnu Ingu, sem báðar búa á Akureyri. Þær og þeirra fjölskyldur skipuðu stóran sess í hjarta Svölu.

Það var gott að vera í samvistum við Svölu frænku mína; hún var rólynd gæðakona sem öllum vildi vel. Líf hennar var þó enginn dans á rósum, því undanfarin ár hefur hún glímt við erfiðan nýrnasjúkdóm. Hún tók því með æðruleysi og þakklæti til hjúkrunarfólks, sem hjálpaði henni við tíðar heimsóknir á sjúkrahús. Þar hittumst við nokkrum sinnum og áttum gott spjall. Frænka mín tók veikindum sínum með reisn og æðruleysi, eins og hún gerði í öðru mótlæti sem mætti henni í lífinu. Þannig konu er gott að muna. Blessuð sé minning Svölu Tómasdóttur. Ég er staddur erlendis og gat því ekki kvatt frænku mína við útför hennar. En hugur minn var með henni og hennar og ég bið þeim öllum Guðs blessunar.

Gísli
Sigurgeirsson.