Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Rósa Marinósdóttir lét af störfum sem yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Borgarnesi um áramótin eftir um 40 ára starf hjá stofnuninni og Oddný Eva Böðvarsdóttir dóttir hennar var ráðin í hennar stað. „Ég leysi hana reyndar af í janúar og svo verð ég í sérstökum verkefnum, sem tengjast eldri borgurum, fram í maí,“ segir Rósa.
Hugur Rósu stefndi til þess að vera sjúkraliði, en það gekk ekki eftir. „Ég fékk ekki inngöngu í námið,“ upplýsir hún. Hún hafi átt heima á Akureyri og unnið á spítalanum, þar sem sjúkraliðanámið hafi þá verið. „Ég skal sýna þeim það að ég kem hér inn sem hjúkrunarkona,“ segist hún hafa sagt við sjálfa sig eftir að hafa verið synjað um inngöngu í sjúkraliðanámið. Það hafi orðið raunin. Hún hafi farið í hjúkrunarskólann, útskrifast vorið 1979 og unnið sem hjúkrunarkona á spítalanum sumarið 1980.
Frjálsar og frjáls
Frá 1980 hefur Rósa búið með fjölskyldu sinni á Hvanneyri. Hún vann hjá HVE á Akranesi 1981 til 1983 og sumarið 1984. Byrjaði síðan sem hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Borgarnesi sumarið 1985 og varð hjúkrunarforstjóri þar 1997. Við sameiningu allra heilbrigðisstofnana á Vesturlandi breyttist starfstitill hjúkrunarforstjóra í yfirhjúkrunarfræðing og gegndi hún starfinu til nýliðinna áramóta nema þegar hún leysti af í rúmlega tvö ár sem framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. „Ég ætlaði mér aldrei að verða yfirmaður hérna en eftir að hafa komið einum hjúkrunarfræðingi inn í starfið og síðan öðrum eftir að hinn hætti ákvað ég að gera þetta bara sjálf þegar sá seinni hætti líka.“
Rósa segir að tíminn hafi liðið fljótt enda starfið skemmtilegt. „Það er miklu skemmtilegra að vera í klínísku starfi en á skrifstofu,“ segir hún og leggur áherslu á hvað samskiptin við skjólstæðingana séu gefandi. „Öldrunarhjúkrunin ber af.“ Mjög ánægjulegt sé að geta gert vel við gamla fólkið. Borgarbyggð sé fámennt samfélag og allir þekki alla. „Ég þekki nánast hvern íbúa og veit hvað þetta er gott fólk. Ég á eftir að sakna þess sem og allra samstarfsmanna minna á HVE.“
Unglingalandsmót Ungmennasambands Íslands verður í Borgarnesi um verslunarmannahelgina í sumar og þar verður Rósa í mikilvægu hlutverki. „Þegar verkefnum mínum hérna lýkur í maí fer ég að undirbúa landsmótið,“ segir hún. „Ég hef mikið komið að mótahaldi í frjálsíþróttum hérna og tók að mér að sjá um keppni í frjálsum á mótinu. Sumarið fer því að mestu í undirbúning keppninnar og umsjón með henni.“
Annað er ekki ákveðið í náinni framtíð hjá Rósu. „Eiginmaðurinn ætlar að hætta að vinna í maí eins og ég og síðan höfum við allan heimsins tíma til að gera það sem okkur dettur í hug.“