Þensla Þjóðsöngurinn reynir á raddböndin.
Þensla Þjóðsöngurinn reynir á raddböndin. — Morgunblaðið/Binni
Mig grunar að margir sem þetta lesa svitni við þá tilhugsun að syngja þjóðsönginn svo aðrir heyri til. Og hvernig stendur á því? Jú, þetta lag er vissulega fallegt en afar krefjandi. Allir þeir sem reynt hafa – og vonandi eru það flestir Íslendingar yfir fimm ára aldri – vita þetta

Helgi Snær Sigurðsson

Mig grunar að margir sem þetta lesa svitni við þá tilhugsun að syngja þjóðsönginn svo aðrir heyri til. Og hvernig stendur á því? Jú, þetta lag er vissulega fallegt en afar krefjandi.

Allir þeir sem reynt hafa – og vonandi eru það flestir Íslendingar yfir fimm ára aldri – vita þetta. Er bæði farið hátt upp og langt niður tónstigann og það er svo sannarlega ekki á allra færi. Þegar sungið er um eitt eilífðar smáblóm svitna þeir hressilega sem liggur lágt röddin, þykjast jafnvel vera að syngja en eru bara að hreyfa varirnar. Þegar sungið er um að fyrir guði sé einn dagur sem þúsund ár er farið á dýptina og sömuleiðis ekki allra að ná henni og þá líklega erfiðara fyrir konur en karla. Aftur eru varir hreyfðar en oft lítið um söng.

Hvernig væri að snúa vörn í sókn? Í stað þess að kvarta og kveina yfir þjóðsöngnum, væri þá ekki nær að læra að syngja hann almennilega? Það ætti hver sem er að geta sungið þetta lag með réttri tækni. Og svo er þetta líka frábær landkynning. Nú kemur íslenska landsliðið og syngur einn erfiðasta þjóðsöng í heimi! Sem það hefur gert ítrekað nú í byrjun árs, á EM í handbolta. Þó ekki gangi alltaf vel að spila er alltaf hægt að rúlla yfir andstæðinginn með glæstum söng. Sem er sannarlega betra en ekkert.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson