„Ég er ótrúlega ánægður og stoltur af strákunum og þeir sýndu úr hverju þeir eru gerðir,“ sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson í samtali við mbl.is í Köln í gær.
„Þú þarft karakter til þess að svara fyrir þegar illa gengur en ég hef aldrei efast um karakterinn í þessu liði. Það getur samt verið erfitt að kalla hann fram þegar illa gengur og loksins náðum við að sýna heilsteypta frammistöðu á flestum sviðum. Það var kannski smá bras á okkur í byrjun en þegar menn fundu að þetta var að smella þá fengu þeir alvöru blóð á tennurnar,“ sagði Snorri Steinn meðal annars.
„Við erum sáttir en við þurfum samt að passa okkur og ég vil sjá svona frammistöðu í hverjum einasta leik. Svona á þetta alltaf að vera hjá okkur, draumurinn lifir og við erum áfram inni í þessu. Við fögnum í nokkrar klukkustundir og svo er það bara beint í endurhæfingu og einbeiting á næsta leik. Við ætlum að ná þessu markmiði okkar,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson.
„Ég ætlaði að gefa allt sem ég átti í þetta. Við vorum á leiðinni í bardaga og við vissum það þegar við komum til leiks. Við vorum allir staðráðnir í að skilja allt eftir inni á vellinum og ég held að allir hafi fundið fyrir því í höllinni enda var hún öll komin á bak við okkur,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson.
Ítarlegri viðtöl við þessa þrjá og fleiri landsliðsmenn eru á EM-vefnum á mbl.is/sport.