Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Það er ekki að sjá að jafnræðis sé gætt og það sé allt það sama látið yfir alla ganga sem eru í þessari sömu stöðu og minn umbjóðandi, þ.e.a.s. að hafa verið verktaki og fengið greiðslu, fengið uppgerða sína reikninga að einhverju leyti rétt fyrir gjaldþrotaúrskurð. Greiðslum alla vega tveggja, sem ég þekki til, hefur ekki verið rift. Af einhverjum ástæðum er ákveðið að rifta greiðslum til míns umbjóðanda,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður fjölmiðlakonunnar Sjafnar Þórðardóttur. Þann 7. desember 2023 stefndi skiptastjóri þrotabús Torgs Sjöfn vegna endurgreiðslu launa en hún vann sem verktaki hjá félaginu.
Aðrir sloppnir fyrir horn
Segir Sveinn Andri skiptastjóra byggja á hinni svokölluðu almennu riftunarreglu sem kveði á um að ef viðtakandi greiðslu sé grandsamur um yfirvofandi gjaldþrot sé unnt að rifta greiðslum. Sjöfn hafi hins vegar ekki haft hugmynd um gjaldþrotið þar sem hún var ekki boðuð á starfsmannafundinn þar sem tilkynnt var um stöðu félagsins. Þá var fyrirtaka í málinu þann 11. janúar og segir hann málið sæta mikilli furðu þar sem Sjöfn sé sú eina í hópi verktakanna sem hafi fengið stefnu. Spurður að því hvort aðrir verktakar séu þá sloppnir fyrir horn segir Sveinn Andri að svo virðist vera.
„Minn umbjóðandi tók þá afstöðu að vera ekkert að tjá sig í fjölmiðlum um þetta en hins vegar létu aðrir blaðamenn til sín taka. Þetta var þannig hjá Torgi að það voru nokkrir blaðamenn og fjölmiðlamenn sem unnu sem verktakar hjá félaginu og njóta því ekki þeirrar verndar sem launþegar njóta fyrir kröfur sínar.“ Tekur hann fram að því séu kröfur verktakanna, vegna vinnu fyrir þessa fjölmiðla, almennar kröfur en ekki forgangskröfur.
„Ef þau hefðu hins vegar verið launþegar, þá hefði skiptastjóri ekki farið að rifta launagreiðslum til þeirra vegna þess að það eru forgangskröfur og það er almennt ekki verið að rifta slíkum greiðslum.“