Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að taka sér veikindaleyfi frá störfum að læknisráði. Frá þessu greindi hún á samfélagsmiðlum í gær. „Í morgun fékk ég staðfesta greiningu á krabbameini í brjósti og mun gangast undir aðgerð og…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að taka sér veikindaleyfi frá störfum að læknisráði. Frá þessu greindi hún á samfélagsmiðlum í gær.

„Í morgun fékk ég staðfesta greiningu á krabbameini í brjósti og mun gangast undir aðgerð og viðeigandi meðferð á næstu vikum,“ skrifar Svandís í færslu sem hún birti á Facebook í gær. Hennar kraftar munu fara í baráttuna gegn sjúkdómnum. „Ég geng upprétt til móts við þetta stóra verkefni, æðrulaus og bjartsýn. Allir mínir kraftar munu fara í það með fólkið mitt mér við hlið.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra greindi blaðinu frá því í gærkvöldi að hún myndi leggja til að hún sjálf leysi Svandísi af. „Ég mun leggja fram þá tillögu að ég leysi hana af næstu vikurnar. Ég held að það sé einfaldast þó svo að það sé nóg á minni könnu. Hún á það inni hjá mér eftir að hafa leyst mig af þegar ég fór í fæðingarorlof vegna yngsta sonar míns árið 2011. Það er með gleði sem ég legg aðeins meira á mig til að endurgjalda það,“ sagði Katrín en Svandís upplýsti hana um sjúkdómsgreininguna áður en hún sagði frá henni á netinu.

Atburðarásin var heldur óvenjuleg í pólitíkinni í gær því þingmenn Flokks fólksins höfðu ákveðið að leggja fram vantrauststillögu á hendur Svandísi við upphaf þingfundar. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, sagði hana byggjast á því að matvælaráðherra hefði brotið lög þegar hún setti á hvalveiðibann á síðasta ári. Tillagan var afturkölluð í gær og sagði Inga þá að enginn bragur væri á því að leggja fram van­traust á ráðherra sem ekki væri á staðnum til að verja sig.

Höf.: Kristján Jónsson