Frammistaða íslenska liðsins gegn Króötum var í einu orði sagt frábær. Fyrir leik bárust fréttir af því að þeir Janus Daði Smárason og Ómar…

Frammistaða íslenska liðsins gegn Króötum var í einu orði sagt frábær. Fyrir leik bárust fréttir af því að þeir Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon yrðu ekki með vegna veikinda og munar svo sannarlega um minna en íslenska liðið hafði tapað þremur leikjum í röð fyrir viðureign gærdagsins.

Ýmir Örn Gíslason fékk rauða spjaldið eftir tíu mínútna leik og Gísli Þorgeir Kristjánsson haltraði meiddur af velli mínútu síðar.

Það er því óhætt að segja að hlutirnir hafi ekki beint fallið með liðinu til að byrja með en þrátt fyrir það tókst strákunum að snúa leiknum sér í vil.

Króatar voru vissulega með yfirhöndina í fyrri hálfleik en innkoma íslenska liðsins í síðari hálfleikinn var stórkostleg.

Varnarleikurinn var frábær og Björgvin Páll Gústavsson dró tennurnar hægt og rólega úr leikmönnum Króata með hverri markvörslunni á fætur annarri en hann varði oft frá þeim úr sannkölluðum dauðafærum.

Sóknarleikurinn var mjög góður og Bjarki og Óðinn skoruðu mörg mörk úr hraðaupphlaupum eftir frábæran varnarleik og markvörslur.

Íslenska liðið spilaði mjög hraðan handbolta sem leikmenn króatíska liðsins réðu mjög illa við, sérstaklega þegar leið á leikinn.

Þetta er langbesta frammistaða liðsins á mótinu þegar horft er til allra þátta leiksins og á henni þarf það að byggja fyrir Austurríkisleikinn mikilvæga á morgun.