Sigríður Stefánsdóttir fæddist 18. apríl 1951. Hún lést 31. desember 2023.
Minningarathöfn um Sigríði var haldin 11. janúar 2024.
Mormor Röd var ekki nema 47 ára þegar elstu barnabörnin hennar, Kristinn og Silja, fæddust og hún fékk þennan nýja titil: amma. Katla bættist í hópinn rúmum tveimur árum síðar og þó að hálf öld sé á milli þeirra voru þær frábærar vinkonur. Þegar sú yngsta, Vala, fæddist í Stokkhólmi var amma Sigga viðstödd til þess að passa upp á fólkið sitt þegar það þurfti sem mest á því að halda en hún gat ekki beðið eftir að fá að hitta hana.
Ömmutitlinum tók hún mjög alvarlega allt fram á síðustu stundu þegar hún var ennþá að skipuleggja verslunar-, veitingastaða- og utanlandsferðir frá spítalarúminu í von um að eiga nokkrar gæðastundir til viðbótar með okkur, barnabörnunum hennar.
Við héldum að við myndum fá að njóta samveru hennar allavega í nokkur ár til viðbótar en við erum líka svo óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið þessar fjörugu, skemmtilegu og rauðu stundir með henni sem hafa mótað okkur fyrir lífstíð.
Við hugsuðum ekki endilega um hana sem mömmu mæðra okkar heldur fyrst og fremst sem ömmu okkar. Samband okkar við hana stóð alveg undir sjálfu sér. Það þróaðist úr pössunum þar sem ömmureglur giltu með endalausu nammi, prakkaraskap og bíómyndum frá Aðalvídeóleigunni yfir í spa-ferðir, vöfflur á Mokka og heimboð í hvítvín og slúður eftir því sem við eltumst.
Hún passaði vel upp á að eiga margar stundir með okkur saman ásamt því að rækta sambandið við hvert og eitt. Þar af leiðandi eigum við öll ótalmargar minningar af gæðatíma með ömmu okkar þar sem hún veitti okkur sína óskiptu athygli.
Amma var alltaf til staðar og var boðin og búin til að aðstoða okkur. Hvort sem það var að mæta á danssýningar hjá yngstu tveimur, aðstoða við pólitíska hugmyndavinnu eða einfaldlega að heyra í okkur þegar við bjuggum langt í burtu til að láta okkur vita að hún hugsaði til okkar og saknaði. Þegar meirihluti okkar barnabarnanna bjó í Svíþjóð tók hún það að sér að kenna móðurmálið vikulega í myndsímtali til að tryggja gæði kennslunnar. Eftir heimkomu stóluðum við mikið á hennar hæfni og vilja til stuðnings við ýmis skólaverkefni sem við áttum erfiðara með. Sem endurgjald bað hún okkur stundum um að koma og aðstoða sig við ýmis verk sem yngri kynslóðin átti auðveldara með. Að sjálfsögðu var það að mestu leyti afsökun til þess að njóta stunda saman, en meiri tími fór í hlátur og samræður en í verkin sjálf.
Við munum alltaf muna eftir ömmu Siggu sem stórskemmtilegri konu sem elskaði skilyrðislaust, hló hátt og knúsaði fast. Á yngri árum fannst okkur knúsin aðeins of kraftmikil en í dag er ekkert sem við myndum frekar vilja en að faðma hana jafn fast til baka.
Kristinn Sigurðarson
Snædal, Silja Snædal Drífudóttir, Katla Sigurðardóttir Snædal, Vala Sigurðardóttir Snædal.