„Við erum búnir að funda nokkuð stíft frá áramótum,“ segir Arnar Hjálmsson, formaður Félags flugumferðarstjóra, um samningaviðræður félagsins við Isavia. Hann segir þó samningana ganga afar hægt.
„Þetta mjakast um eitt hænuskref við hvern fund, en það er mikið sem ber enn á milli,“ segir hann. „En ef ekkert gengi og enginn tilgangur væri með þessum fundum væri ég löngu farinn.“
Samningafundur átti að vera í gær en honum var frestað til dagsins í dag og Arnar býst við að enn sé nokkuð langt í land þar til lausn næst í deilunni. „Við erum búin að sitja hérna sitt í hvoru herberginu í allan dag.“
Þegar hann er spurður hvort hann hafi fundið fyrir mótbyr í samfélaginu frá því þeir hófu verkföll rétt fyrir jólin neitar hann því ekki.
„Maður hefur alveg fundið aðeins fyrir því, en við vissum það líka alveg og látum það ekkert á okkur fá,“ segir hann.
Engin fleiri verkföll hafa verið boðuð í deilunni. doraosk@mbl.is