Á Boðnarmiði yrkir Rúnar Thorsteinsson og kallar Kaffiþörf og get ég tekið undir hvert orð:
Það skeður margt í mínum kolli,
minningar eru á rúi og stúi.
Kannski getur kaffibolli
komið á reglu í heilabúi.
Til þess að geta þanka fangað
er þörf á ró og næði í hausnum.
Hugsun annars hingað, þangað,
hendist um án séns á lausnum.
Kraftaverk með kaffitári,
kannski ekki alltaf gerast.
En hætta er á írafári,
ef engir kaffisopar berast.
Upp í huga mér kemur gömul staka, sem ég tauta oft:
Kaffibolla beindi mér
blíð og holl gulls-eikin
því að hrollur í mér er
eftir skollaleikinn.
Benedikt Jóhannsson yrkir og er innblásið af Vilborgu Dagbjartsdóttur:
Guð hann af skarpskyggni skapaði ljósið og heiminn,
hann skein svo fjölbreyttur.
Á sjöunda degi hann sá yfir verkið svo glaður
og sofnaði þreyttur.
Eitthvað þó misfórst að endingu' er gerði hann manninn
svo illt yfir dundi
og síðan þá reynt er af vanmætti að vekja Guð aftur
af værasta blundi.
Vísnagáta eftir Erlu S. Sig:
Út á hafið horfi þá,
hýsir þræði granna.
Fjandmann pírir pirruð á,
prýði hagra manna.
Davíð Hjálmar Haraldsson leysir gátuna:
Hafsauga kveður nú Erla um.
Augu eru göt fyrir þræði (sum).
Fjandmanni senda má auga illt.
Enn bætir smiðsaugað mey og pilt.
Á sunnudag sagði Jón Gissurarson: Mikil ljósadýrð er hér í Skagafirði þetta kvöldið:
Unað vekja fjöllin fríð
og fagurt ljósabandið.
Frá bæjunum í Blönduhlíð
bjarma slær á landið.
¶ Orða fossinn virðist vit¶ varla skreytir gestur¶ Borða ég, ei sáttur sit¶ sjaldan lýgur prestur¶ x¶ Prestur lýgur, sjaldan sit¶ sáttur, ei ég borða¶ Gestur skreytir, varla vit¶ virðist fossinn orða¶Vísir segir frá því, að kýrin Ingibjörg á Tannstaðabakka hafi borið þremur kálfum. Halldór Guðlaugsson yrkir:
Á Tannstaðabakka til varð frétt
sem töluvert mér á óvart kemur
en öruggt er víst og alveg rétt
að Ingibjörg bar þar kálfum þremur.
¶ Fann ég á þönum fólskan byl,¶ flestum illt til lagði,¶ en er lognið tók sig til¶ tyllti 'ann sér og þagði.¶ Símon Dalaskáld um stúlku sem drakk:¶ Síst marglampa sæmir Lín,¶ sem oft skrambans veldur pín,¶ ofan í vambar iður sín¶ áfengt þamba brennivín.¶ Öfugmælavísan er eftir Davíð Hjálmar Haraldsson:¶ Göturyk er geymt í dós.¶ Grjót er mjúkt í sængur.¶ Ísbjörninn fer oft í ljós.¶ Aldrei blotnar hængur.¶ Halldór Blöndal