Átta Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu gegn Króötum og hann fagnaði vel og innilega þegar flautað var til leiksloka .
Átta Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu gegn Króötum og hann fagnaði vel og innilega þegar flautað var til leiksloka . — Morgunblaðið/Brynjólfur Löve
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í handknattleik vann sögulegan sigur gegn Króatíu í milliriðli 1 á Evrópumótinu í handknattleik í Lanxess-höllinni í…

Í Köln

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik vann sögulegan sigur gegn Króatíu í milliriðli 1 á Evrópumótinu í handknattleik í Lanxess-höllinni í Köln í Þýskalandi í gær, 35:30. Þetta var fyrsti sigur Íslands gegn Króatíu á stórmóti.

Króatar náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, 8:4, en íslenska liðinu tókst að koma til baka og var staðan 18:16, Króötum í vil, í hálfleik.

Íslenska liðið byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti og komst yfir, 21:19, eftir tíu mínútna leik. Króatar neituðu að gefast upp og var staðan jöfn, 25:25, þegar þrettán mínútur voru til leiksloka. Þá hrökk Björgvin Páll Gústavsson í gang í marki íslenska liðsins og varði hvert skotið á fætur öðru. Íslenska liðið nýtti sér það vel og fimm mínútum síðar var staðan allt í einu orðinn 30:25, Íslandi í vil.

Króatar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en vörnin og Björgvin Páll voru vandanum vaxin og íslenska liðið fagnaði að lokum öruggum og sannfærandi sigri.

Höf.: Bjarni Helgason