Alþingi Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir kynna aðgerðirnar.
Alþingi Sigurður Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir kynna aðgerðirnar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það er algerlega skýrt loforð okkar að við ætlum að eyða þessari óvissu sem Grindvíkingar hafa í raun búið við frá því í haust með því að stíga inn í þá stöðu sem nú er uppi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er algerlega skýrt loforð okkar að við ætlum að eyða þessari óvissu sem Grindvíkingar hafa í raun búið við frá því í haust með því að stíga inn í þá stöðu sem nú er uppi,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Rætt var við forsætisráðherra að loknum blaðamannafundi í Alþingishúsinu í gær, þar sem hún, ásamt fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra, kynnti áform ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu Grindvíkinga.

Gefa Grindvíkingum tækifæri

„Þar sem við getum í raun og veru ekki sagt að það sé tryggt að búa í Grindavík, þá verðum við að gefa Grindvíkingum tækifæri til þess að koma sér fyrir á öðrum stað með varanlegum hætti. Þess vegna boðum við það að við ætlum að skoða nokkrar leiðir að því markmiði. Við ætlum að skoða uppkaupaleiðina, en erum líka að skoða þá leið að ríkið greiði Grindvíkingum út sitt eigið fé og að lánveitendur komi inn í þá mynd með sín veð og lán, þannig að Grindvíkingar hafi möguleika á að koma sér upp nýju húsnæði, en hafi einnig möguleika á að geta snúið aftur seinna meir,“ segir Katrín.

Ríkið keypt 260 íbúðir

Í tilkynningu um áform stjórnvalda til stuðnings Grindvíkingum sem kynnt var í gær segir m.a. að unnið verði markvisst að því að tryggja framboð á varanlegu húsnæði fyrir Grindvíkinga. Í því felist meðal annars að ríkið muni ráðast í uppbyggingu á húsnæði á tilteknum svæðum, ásamt því að skapa forsendur sem tryggja Grindvíkingum forgang að húsnæði. Einnig sé unnið að því að þrengja skilyrði varðandi skammtímaútleigu íbúða.

Þá segir að áfram verði unnið að því að tryggja Grindvíkingum húsnæði þar til þeir geti komið sér fyrir í varanlegu húsnæði. Leigufélagið Bríet muni kaupa 50 íbúðir til viðbótar við þær 80 sem keyptar voru í desember og þær 70 sem unnið er að kaupum á um þessar mundir. Jafnframt vinni Bjarg íbúðafélag að því að kaupa 60 íbúðir fyrir Grindvíkinga í samræmi við samstarfsyfirlýsingu frá því í nóvember sl. Frá upphafi tímabilsins hafi ríkið þannig keypt 260 íbúðir. Hvað varðar húsnæðislán Grindvíkinga hjá lífeyrissjóðum þá muni ríkið taka á sig greiðslu vaxta og verðbóta af húsnæðislánum í Grindavík hjá þeim sem kjósa að selja ekki húsnæði sitt.

Á fundinum var kunngjört að ríkið muni áfram veita Grindvíkingum húsnæðisstuðning og verður hann framlengdur til loka júnímánaðar nk. Mun stuðningurinn miðast við fjölda heimilisfólks og verða allt að 90% af kostnaði við húsaleigu í stað 75% áður. Þá verður stutt við afkomu þeirra bæjarbúa sem ekki geta sótt vinnu í Grindavík með framlengingu á stuðningi ríkisins við greiðslu launa og greiðslna í lífeysissjóð. Framfærslustuðningurinn mun gilda til loka júní nk. og endurskoðaður og framlengdur eftir það verði þörf á.

Miðað er við að útfærsla aðgerða stjórnvalda og nauðsynleg lagafrumvörp muni liggja fyrir snemma í febrúar eftir samráð við Grindvíkinga og aðra hagaðila. Áfram verði unnið með bæjarstjórn Grindavíkur og stutt við starfsemi sveitarfélagsins. Undirbúningur, greiningarvinna og samtöl við hagaðila eru hafin og verður samráðsnefnd sett á laggirnar með fulltrúum allra flokka á Alþingi undir forystu fjármála- og efnahagsráðherra þar sem farið verður yfir ólíkar leiðir og útfærslur til að ná fyrrgreindum markmiðum.

Íbúarnir fái val

„Við erum að losa íbúana sem eiga íbúðir í Grindavík undan óvissu, átthagafjötrum og skuldafjötrum með því að þeir fái val og þeir geti hafið nýtt líf tímabundið á öðrum stað og ef allt fer vel, þá geti þeir snúið aftur til baka í sínar eignir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. Spurður um hverskonar stuðnings atvinnulífið megi vænta, sagði Sigurður Ingi að það samtal væri hafið. „Það er mikilvægt ef hægt er að viðhalda einhverri atvinnustarfsemi í Grindavík. Það mun skipta miklu máli. Grindavík er þriðja stærsta verstöðin í landinu og þar eru gríðarlega öflug fyrirtæki. Að því marki sem það er hægt, þá munum við skoða það, en það verður ekki gert nema í samstarfi við almannavarnir,“ segir Sigurður Ingi.

Gæti endað í 20 milljörðum

„Meginskuldbindingin og loforð okkar er að fólk geti tekið ákvörðun á nýjum stað með því eigin fé sem það á í sinni fasteign í Grindavík núna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, en það fé mun koma úr ríkissjóði. „Útfærslan verður alltaf sameiginlegt úrlausnarefni ríkissjóðs, fjármálastofnana og lífeyrissjóða,“ segir hún.

„Grundvallaratriðið er að fólkið geti tekið eigið fé sitt í fasteign sinni í Grindavík og fjárfest á nýjum stað þannig að það geti komið sér fyrir til lengri tíma,“ segir Þórdís Kolbrún.

„Við höfum greint allar meginstærðir í málinu. Útfærslan mun á endanum hafa áhrif á lokakostnað og það með hvaða hætti fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir munu koma að þessu, en við erum alltaf að tala um tugi milljarða,“ segir hún.

Spurð um stærðargráðuna í peningum talið segir Þórdís Kolbrún að þegar liggi fyrir ákveðið tjón sem Náttúruhamfaratrygging muni bæta og eitthvað muni jafnframt reyna á endurtryggjendur þar.

„Við höfum verið að skoða hvort og með hvaða hætti mögulegt væri að nýta að einhverju marki eignir Náttúruhamfaratryggingar til að fjármagna þessa aðgerð að hluta og með hvaða hætti fjármálastofnanir og lífeyrissjóðir koma að. Þá stendur eftir lokatala sem þarf að fjármagna og sú tala gæti verið um 20 milljarðar,“ segir Þórdís Kolbrún.

Staðan í Grindavík til umræðu

Þjóðfundur, þjóðstjórn eða þverpólitísk þingmannanefnd?

Þingmenn stjórnarandstöðunnar nefndu ýmis útspil í umræðunni um stöðuna í Grindavík á Alþingi í framhaldi af munnlegri skýrslu forsætisráðherra í gær. Alls tóku sautján þingmenn til máls og mátti heyra á flestum ef ekki öllum sem til máls tóku að þeir skynjuðu samstöðu í þinginu um að vinna saman að sem bestri lausn fyrir Grindvíkinga. Ýmislegt mismunandi var þó lagt til í ræðum dagsins.

Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar lagði til að þverpólitísk þingmannanefnd yrði skipuð til að undirbúa lagasetningu. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata nefndi þjóðfundafyrirkomulagið sem valkost og hvort skipuleggja mætti slíkan fund fyrir Grindvíkinga. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar segist sjá fyrir sér að einhvers konar þjóðstjórn sé að verða til vegna málsins ef mið væri tekið af fundi formanna flokkanna með forsætisráðherra.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson