Borgarleikhús Dagur kvaddi með veislu þar fyrir eigin reikning.
Borgarleikhús Dagur kvaddi með veislu þar fyrir eigin reikning. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Kostnaður við kaffisamsæti fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar sem haldin voru á Höfðatorgi og í Ráðhúsinu í sl. viku í tilefni af brotthvarfi Dags B. Eggertssonar úr stól borgarstjóra nam tæpum 1,3 milljónum króna

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Kostnaður við kaffisamsæti fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar sem haldin voru á Höfðatorgi og í Ráðhúsinu í sl. viku í tilefni af brotthvarfi Dags B. Eggertssonar úr stól borgarstjóra nam tæpum 1,3 milljónum króna.

Þetta kemur kemur í svari samskiptastjóra borgarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Á Höfðatorgi starfa 630 manns, en slegið var upp morgunkaffi fyrir 200 til 300 starfsmenn og kostaði boðið 868.644 krónur og er þá framreiðslukostnaður meðtalinn. Þar af kostuðu veitingarnar 780 þúsund.

Morgunkaffið í Ráðhúsinu var öllu kostnaðarsamara miðað við fjölda gesta en á Höfðatorgi. Þar var heildarkostnaðurinn 420 þúsund, þ.e. með framreiðslukostnaði, gert var ráð fyrir 80 gestum en 120 starfa í húsinu. Kostnaður við veitingarnar í Ráðhúsinu var 327 þúsund sem jafngildir 4.088 krónum á mann, sem er nokkru hærra en á Höfðatorgi þar sem kostnaður var 2.600 til 3.900 krónur á mann.

Áður hefur verið sagt frá veislu sem haldin var í Höfða í sl. viku þangað sem boðið var 94 samstarfsmönnum Dags hjá borginni sem og á hinum pólitíska vettvangi. Kostnaður við hana var 927.200 krónur og kostuðu því veisluhöld fráfarandi borgarstjóra rúmar 2,2 milljónir króna.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson