Opinber umræða þrífst á orðum og umræðu, ekki úthrópunum og ofbeldi

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra kvaddi sér um helgina hljóðs um tjaldbúð mótmælenda, sem staðið hefur á Austurvelli frá þriðja degi jóla, í trássi við lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík og lengst af í leyfisleysi.

Jafnvel nú, eftir að Reykjavíkurborg veitti leyfi fyrir einu samkomutjaldi þar, eru skilyrði leyfisins ekki virt, svo við þjóðþingið blakta erlendir fánar sem tjaldbúar segjast ekki ætla að taka niður.

Bjarna þótti hörmungarbragur á þessum tjaldbúðum og furðaði sig á hirðuleysi Reykjavíkurborgar um þessa þungamiðju miðbæjarins, milli þinghússins og líkneskis Jóns Sigurðssonar.

Undir það skal tekið, en eins vekur margra vikna tómlæti lögreglunnar um framfylgd lögreglusamþykktarinnar athygli; lögreglustjóri getur ekki farið að tískustraumum eða valið sér hvaða greinum hennar skal fylgja.

Bjarni gerði ekki athugasemdir við mótmæli á Austurvelli, enda er það hefðbundinn og sjálfsagður staður til slíks, heldur við það að hópur mótmælenda fengi að hreiðra þar um sig í heilan mánuð. Undir það má einnig taka og vert að hafa í huga að mótmælendur hafa sjálfir látið í ljós óskir um að fá að hafa mótmælabúðir sínar á Austurvelli til frambúðar!

Ráðherrann kvaðst skilja „áhyggjur og óvissu þeirra sem dvelja hér fjarri fjölskyldum sínum, sem margar hverjar búa við skelfilegar aðstæður,“ en minnti á að Íslendingar hefðu verið afar gestrisnir.

„Ekkert Norðurlandanna hefur tekið við fleiri Palestínumönnum en Ísland undanfarið og ekkert annað land hefur tekið til flýtimeðferðar beiðnir um fjölskyldusameiningar eftir [hryðjuverk Hamas] 7. október.“

Hann rakti svo að brýnt væri að koma betri reglu á hælisleitendamálin og samræma reglur og vinnubrögð því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum.

Skiptar skoðanir eru um hvernig hælisleitendamálum verður best skipað, en enginn telur að þau séu eins og best verður á kosið. Uppástunga Bjarna um að færa þau nær því sem þekkist í hinum norrænu löndunum – þeim löndum sem fremst þykja standa í velferð og mannréttindum – ber ekki vott um sérstaka hörku eða öfgar í þeim efnum, öðru nær.

Hið sama verður ekki sagt um viðbrögð þeirra sem þykjast láta sig málefni hælisleitenda mestu varða. Þeir ráku upp gól á samfélagsmiðlum og sökuðu utanríkisráðherra um útlendingaandúð, skeytingarleysi, rasisma og hatursorðræðu svo nokkuð sé nefnt.

Engin orð Bjarna voru þó tilfærð þeim skoðunum til stuðnings, enda þarf ekki nema miðlungi góðan lesskilning til þess að átta sig á því að ekkert í orðum hans gaf tilefni til slíkra upphrópana og gífuryrða.

Í þeim hópi hafði hins vegar enginn áhuga á rökræðu um þetta þeirra hjartans mál, heldur aðeins hinu, að úthrópa þann sem ekki er þeim sammála í einu og öllu.

Það er bölvanlegt í lýðræðisþjóðfélagi, eins og Bjarni vék raunar að í framhaldinu af þessum árásum og gagnrýndi slíka skautun í opinberri umræðu:

„Í lýðræðisríki verða skoðanaskipti að geta átt sér stað. Allir sem vilja leggja sitt af mörkum til að bæta samfélagið ættu að vera sammála um mikilvægi heilbrigðra skoðanaskipta þótt orðaskipti megi vel vera hvöss.“

Mótmælendur eru þó ekki aðeins mótmælendur, heldur hafa þeir uppi kröfur, mjög mislíklegar til árangurs, en ein er að utanríkisráðherra eigi fund með mótmælendum og svari þeim.

Þá er eins og menn hafi steingleymt því að utanríkisráðherra hefur áður reynt að eiga samtal við mótmælendur vegna ástandsins í Gasa. Þar hafði enginn áhuga á samtali, heldur aðeins því að æpa slagorð og hrópa ráðamenn niður, en steypa litarefni yfir ráðherrann. Utan við Ráðherrabústaðinn eru viðhöfð slagorð um þjóðarmorð og í tjaldbúðinni dylgjað um „barnamorðaráðherra“, en í gærmorgun var slett rauðri málningu á utanríkisráðuneytið.

Það er erfitt að finna að því við utanríkisráðherra ef hann kærir sig ekki um að taka slíkt „samtal“ við ofstækisfólk lengra.